Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 469  —  309. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um útreikning rekstrarframlaga til símenntunarmiðstöðva.


    1.     Hvernig gætir ráðherra jafnræðis við útreikning á rekstrarframlögum til símenntunarmiðstöðva í frumvarpi til fjárlaga?
    Rekstrarframlög til átta símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni voru fyrst veitt í fjárlögum ársins 2001. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 segir á bls. 327 að styrkjum til símenntunarmiðstöðva á fjárlagalið 02-451 sé ætlað að koma til móts við grunnaðstöðu hjá hverri stöð en að öðru leyti er miðað við að rekstur miðstöðvanna sé greiddur af þeim sem njóta þjónustu þeirra. Fyrstu árin voru framlög til stöðvanna á landsbyggðinni þau sömu til allra en frá árinu 2007 hafa upphæðirnar verið misháar.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ekki gert tillögur um breytingar á framangreindu fyrirkomulagi og hefur Alþingi í flestum tilfellum tekið ákvarðanir um breytingar. Virðast þær ekki hafa tekið mið af grunnaðstöðu hverrar símenntunarmiðstöðvar í samræmi við umfang þjónustunnar.

    2.     Hefur ráðherra látið gera reiknilíkan til að gæta fyrrgreinds jafnræðis og ef svo er, hvert er vægi helstu breyta hverrar símenntunarmiðstöðvar í fjárlagagerðinni? Óskað er skýringa í þeim tilvikum þar sem vægi er ólíkt eða breytur mismunandi milli símenntunarmiðstöðva.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ekki látið gera reiknilíkan vegna grunnfjárveitinga til símenntunarmiðstöðva. Hins vegar hefur, á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga frá 28. maí 2015 þar sem m.a. var ákveðið að tryggja fjármagn til að fylgja eftir sameiginlegum áherslum menntayfirvalda og aðila vinnumarkaðarins sem lúta að því að tryggja starfsemi símenntunarmiðstöðva, verið lagt til í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 að 105 millj. kr. komi til hækkunar á fjárlagaliðnum 02-451 Framhaldsfræðsla. Vilji stendur til þess að meiri hluti þessa fjár renni til að efla grunnstarfsemi ellefu símenntunarmiðstöðva sem öðlast hafa viðurkenningu á grundvelli laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, og sem fá framlög á fjárlögum, sbr. yfirlit í töflu á bls. 42 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Við skiptingu fjárins yrði m.a. horft til hlutfalls af veltu hverrar stöðvar vegna framhaldsfræðslu. Ráðuneytið stefnir að gerð líkans til að deila fjármunum út í samræmi við framangreint.

    3.     Ef reiknilíkan er til, hvernig notaði ráðherra niðurstöður þess í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016?
    4.     Ef reiknilíkanið er til en var ekki notað við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, hvers vegna var það ekki gert?

    Eins og að framan greinir er líkan ekki til og hefur því ekki verið notað.