Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 500  —  302. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni
um afnám verðtryggingar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Liggur fyrir eða er unnið að tímasettri áætlun um afnám verðtryggingar? Ef svo er, til hvaða lánaflokka mun verðtryggingarbann ná og hverra ekki?
     2.      Næði verðtryggingarbann einnig til lífeyrisskuldbindinga?
     3.      Verði lagt til bann við verðtryggingu yrði þá sett þak á upphæð breytilegra vaxta og hvert yrði þá vaxtaþakið?

    Forsætisráðherra skipaði sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum hinn 16. ágúst 2013. Í skýrslu hópsins, sem kom út í janúar 2014, var lagt til að tekin yrðu skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána með því að:
     *      óheimilt yrði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
     *      lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána yrði lengdur í allt að 10 ár,
     *      takmarkanir yrðu gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána, og
     *      hvati yrði aukinn til töku og veitingar óverðtryggðra lána.
    Sérfræðingahópurinn taldi að minna vægi verðtryggingar styddi við fjármálastöðugleika til langs tíma, efldi virkni stýrivaxta Seðlabankans og byggði undir jafnvægi í hagkerfinu. Greiðsluferill verðtryggðra jafngreiðslulána til langs tíma gæti aukið hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og þeim fylgdi hærri heildarvaxtakostnaður yfir lánstímann en öðrum lánum þar sem verðbótum væri velt yfir á höfuðstólinn. Helstu áhrif afnáms langra verðtryggðra jafngreiðslulána á neytendur yrðu hækkuð greiðslubyrði og erfiðara aðgengi að lánsfé fyrir tekjulága hópa. Með hliðsjón af þessu lagði sérfræðingahópurinn til að komið yrði til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur með öðrum aðgerðum eins og betur skilgreindum vaxtabótum, skattaafslætti og úttekt séreignarlífeyrissparnaðar.
    Vinnan sem lýtur að því að draga úr vægi verðtryggingar byggist á tillögum sem starfshópurinn skilaði. Þær breytingar sem lagðar eru til í skýrslu hópsins varða heildarsýn á framtíðarskipan húsnæðismála og hafa þær verið skoðaðar í ráðuneytinu á þeim grundvelli en ekki eftir tímasettri áætlun. Unnið er að áhrifamati tillagnanna og hefur í því skyni verið óskað eftir greiningum og álitum frá eftirlitsstofnunum. Þá hefur ráðuneytið lagt áherslu á að meta þær aðgerðir sem mögulegar eru til að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur fasteigna.