Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 725  —  118. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um nám og námsefni heyrnarlausra barna.


1.      Nær átaksverkefnið Þjóðarsáttmáli um læsi, sem nú stendur yfir, til heyrnarlausra barna? Ef svo er ekki, hver er þá skýringin á því og hefur verið gripið til annarra ráðstafana til að efla lestrarkunnáttu heyrnarlausra barna?
    Í aðalnámskrá grunnskóla er að finna skilgreiningu á læsi heyrnarlausra og heyrnarskertra nemenda, annars vegar sem læsi á svokallaðan ÍTM-texta (íslenskan táknmálstexta) og hins vegar á íslenskan texta. Traust kunnátta í íslensku táknmáli og íslensku er ein meginundir­staða staðgóðrar menntunar heyrnarlausa og heyrnarskertra og námsgreinin tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku á að vera skipulögð sem heildstæð námsgrein á sama hátt og íslenskan sem móðurmál. Auk þess á þjálfun í táknmáli, íslensku ritmáli og jafnvel talmáli, þegar nem­endur nota það til samskipta, að falla inn í allar námsgreinar grunnskóla. Táknmálsnemendur eiga að fá tækifæri til að nota íslenskt táknmál við nám í öllum námsgreinum, eftir því sem við verður komið, og fá viðeigandi táknmálstúlkun. Litið er svo á að íslenska táknmálið sé hið daglega samskipta- og kennslumál en einnig íslenska eða að minnsta kosti íslenskt ritmál. Leggja ber áherslu á öflugt samstarf við heimilin um þjálfun í íslensku táknmáli og íslensku á öllum stigum grunnskóla. Þetta er mikilvægt samstarfsverkefni heimila og skóla og fjöl­skyldan gegnir veigamiklu hlutverki í að skapa virðingu fyrir báðum málunum, styrkja þau og rækta og viðhalda áhuga nemenda, ekki síst hvað varðar þjálfun í lestri myndefnis á tákn­máli, lestri íslensku og tjáningu og almennri málrækt.
    Þjóðarsáttmáli um læsi tekur til allra nemenda og fyrir fram er enginn hópur nemenda tek­inn þar út fyrir sviga. Í lýðræðisþjóðfélagi er jafnbrýnt fyrir nemendur í tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku og aðra nemendur að geta tekið virkan þátt í umræðum af ýmsu tagi. Þeim er nauðsynlegt að geta tjáð skoðanir sínar í námi, starfi, félagslífi og einkalífi skýrt á táknmáli og vera færir um að nota þjónustu táknmálstúlka við allar þessar aðstæður. Mikil­vægt er að nemendur fái tækifæri til að þjálfa sig í að segja skipulega frá og gera grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum með og án táknmálstúlks. Frá upphafi skólagöngu þarf að leggja áherslu á að nemendur fái leiðsögn um skýran framburð og framsögn á táknmáli.
    Að þessu sögðu verður hins vegar að játa að ákveðinn vandi hefur verið uppi um langa hríð hvað varðar framboð á námsefni á táknmáli og hafa heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur að stórum hluta þurft að nota námsefni fyrir börn með íslensku að móðurmáli en ekki íslenskt táknmál. Mikilvægt er hins vegar að börnum sem hafa íslenskt táknmál sem móðurmál og nota það til samskipta sé búið umhverfi sem styrkir færni þeirra í íslensku tákn­máli til að efla læsi þeirra sem er í raun lykillinn að öllu námi síðar á lífsleiðinni, bæði í íslensku og í öðrum námsgreinum. Ráðuneytið hefur hug á því að beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, m.a. hvað varðar áætlanagerð, stefnumótun og fjárveitingar, eins og komið verður að hér á eftir.

2.      Hvernig er staðið að gerð námsefnis fyrir heyrnarlaus börn, hvernig er tryggt að heyrnar­laus börn í leik- og grunnskóla fái viðeigandi námsefni og kennslu og hversu miklu fé hefur verið varið til gerðar slíks námsefnis undanfarin tvö ár?
    Með vísan til laga um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, og laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990, var umsagna þessara stofnana aflað í tengslum við fyrirspurn þessa.
    Samkvæmt 5. gr. laga um Menntamálastofnun er meðal verkefna stofnunarinnar að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum. Þá segir í 6. gr. lag­anna að Menntamálastofnun sé heimilt að semja við aðra aðila um afmörkuð verkefni sem stofnuninni er falið að annast enda sé ekki um að ræða starfsemi sem felur í sér vald til að taka ákvarðanir er lúta að réttindum og skyldum aðila. Í lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra segir að markmið laganna sé að stuðla að jafnrétti heyrnar­lausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Stofnuninni ber að hafa samstarf við ýmsa aðila, svo sem Námsgagnastofnun, nú Menntamálastofnun. Í reglugerð er hlutverk Samskiptamiðstöðvarinnar skilgreint nánar, m.a. svo að starfsemi stofnunarinnar skuli sérstaklega nýtast þeim sem nota táknmál til daglegra samskipta við aðra, svo sem heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum og fjölskyldum þeirra. Sér­staka áherslu á að leggja á þjónustu við börn á máltökualdri og nemendur á öllum skólastig­um. Tekið er sérstaklega fram í reglugerðinni að stofnunin skuli semja, eða láta semja, og miðla efni á táknmáli fyrir börn er nota táknmál og fjölskyldur þeirra, annað en skyldubundið námsefni fyrir grunnskóla.
    Eins og fram hefur komið hefur framboð á námsefni fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta ekki verið sem skyldi. Í umsögn Menntamálastofnunar er m.a. vísað í svar stofnunarinnar við fyrra innsendu erindi um að stofnunin telji sér ekki fært að þýða allt námsefni yfir á táknmál og að stofnunin hafi þegar unnið námsefni á táknmáli innan ramma fjárheimilda til náms­efnisgerðar. Þá kemur fram að áætlaður kostnaður við að þýða og aðlaga námsefni á táknmáli í þeim námsgreinum sem óskað sé eftir sé það mikill að endurskoða þyrfti forgangsröðun stjórnvalda eða auka verulega fjárveitingar til stofnunarinnar til að slík útgáfa yrði fram­kvæmanleg. Stofnunin sé hins vegar tilbúin að skapa svigrúm í reglulegri starfsemi sinni til að vinna að gerð námsefnis fyrir heyrnarlausa óháð því hvort viðbótarfjármagn fáist. Það svigrúm muni hins vegar ekki nægja til að verða við óskum um aðlögun og þýðingu á náms­efni yfir á táknmál.
    Viðræður áttu sér stað milli Námsgagnastofnunar, forvera Menntamálastofnunar, og Sam­skiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra um útgáfu námsefnis á táknmáli. Viðræð­urnar leiddu í ljós að ákjósanlegt væri að Samskiptamiðstöðin hefði með höndum þýðingu og aðlögun námsefnis yfir á táknmál og sæi jafnvel um að þýða og aðlaga erlent táknmálsefni fyrir íslenskt táknmál í stað námsefnis. Þar mætti líta til samstarfs við önnur Norðurlandaríki þar sem gerð námsefnis á táknmáli væri í höndum sérhæfðra stofnana. Í umsögn Menntamála­stofnunar kemur fram vilji til samstarfs við Samskiptamiðstöðina svo að þegar megi hefjast handa við að útbúa námsefni á táknmáli til notkunar.
    Mikilvægt er að vinna að umbótum á sviði námsefnisgerðar fyrir heyrnarlaus og heyrnar­skert börn eins og áður hefur verið nefnt og að skoða þær í samhengi við almenna námsefnis­gerð á vegum Menntamálastofnunar. Með það fyrir augum hefur mennta- og menningarmála­ráðuneytið óskað eftir því við Menntamálastofnun að stofnunin hafi frumkvæði að því að móta og leggja fram tillögur að framtíðarsýn og stefnumótun í málaflokknum í samráði við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sem tekur bæði til aðgerðaáætlunar og kostnaðarmats. Tillögur þessar eiga að liggja fyrir á næstu vikum. Einnig er eðlilegt að samráð verði haft við skóla sem hafa sérhæft sig í málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna, svo sem Hlíðaskóla, Holtaskóla og Sólborg, og aðra hagsmunaaðila, svo sem kennara og foreldra.
    Svarið við því hversu miklu fé hefur verið varið til gerðar námsefnis fyrir heyrnarlaus börn er að af hálfu Námsgagnastofnunar (nú Menntamálastofnun) var árin 2013 og 2014 varið 653.525 kr. til námsefnisgerðar. Er þar um að ræða endurútgáfu á efninu Tákn með tali, en það er tjáningarform sem ætlað er heyrandi fólki sem á við verulega mál- og talörðugleika að etja.
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er stofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Lögum samkvæmt hefur hún ekki sérstöku hlutverki að gegna í samningu og/eða útgáfu námsefnis í skyldunámi á grunnskólastigi. Stofnunin hefur hins vegar lögum samkvæmt sinnt ýmsum verkefnum í þágu barna á máltökualdri og annarra nem­enda á öðrum skólastigum, m.a. með því að bjóða upp á málörvun í íslensku táknmáli í mál­samfélagi 10–15 barna úr 2–5 grunnskólum og þriggja táknmálskennara, verkefni sem kallast Gaman saman. Unnið er með málþroska barnanna, sjálfsmynd og menningu táknmálssam­félagsins og unnið með ritaða íslensku til þess að styðja við tvítyngi barnanna. Kennarar fá á meðan fræðslu og geta miðlað reynslu hver til annars um kennslu barna sem reiða sig á íslenskt táknmál. Kostnaður við þetta verkefni og fleiri verkefni Samskiptamiðstöðvarinnar sem snúa að kennslu, fræðslu fyrir kennara og foreldra, námskeiðum og gerð námsefnis var árið 2013 um 15 millj. kr. Árið 2014 var kostnaður um 19 millj. kr. sem einkum fólst í mál­þroskarannsóknum, rannsóknum á íslensku táknmáli, þróun á SignWiki-þekkingarbrunninum um íslenskt táknmál, þróunarverkefni í orðaforðakennslu og lestrarmati og kennslu íslensks táknmáls, ráðgjöf og námsefnisgerð.
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 fær Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnar­skertra sérstakt framlag til að standa að útgáfu námsefnis á táknmáli, alls 10 millj. kr. Áhersla verður lögð á námsefnisgerð í móðurmálskennslu og til tilrauna með fjarkennslu. Líta má á framlagið sem ákveðið skref til þess að ná sérstaklega til barna sem reiða sig á íslenskt tákn­mál til samskipta til að styrkja og efla færni þeirra í íslensku táknmáli en það er forsenda læsis hjá mörgum börnum með skerta heyrn.
    Þessu til viðbótar er rétt í samhengi þessarar fyrirspurnar að vekja athygli á því að árin 2009 og 2010 veitti mennta- og menningarmálaráðuneyti leikskólanum Sólborg í Reykjavík, sem sérstaklega hefur unnið með heyrnarskert börn, fjárstuðning til að sinna endurgjalds­lausri þjónustu og ráðgjöf til leikskóla á landsvísu.

3.      Hvernig er það námsefni sem heyrnarlausum börnum í leik- og grunnskólum er ætlað vegna stöðu þeirra?
    Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að mikilvægt sé að nemendur öðlist færni í að nýta íslensku í námi, leik og starfi og að áherslu eigi að leggja á að þjálfa nemendur í íslensku í öllu námi. Þetta gildir jafnt um þá sem eiga íslensku að móðurmáli, þá sem eru af erlendu bergi brotnir og þá sem hafa táknmál að móðurmáli. Einnig segir að skipuleggja eigi náms­greinina tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku sem heildstæða námsgrein á sama hátt og íslensku sem móðurmál.
    Í samræmi við þetta hefur Námsgagnastofnun (nú Menntamálastofnun) gefið út nokkrar bækur úr smábókaflokki stofnunarinnar og bókaflokknum Komdu og skoðaðu og þýtt á tákn­mál heyrnarlausra. Markmiðið með þýðingunni er að auðvelda nemendum sem hafa táknmál að móðurmáli að lesa bækurnar og auka orðaforða sinn í íslensku máli og táknmálinu, sbr. áherslu á tvítyngi táknmáls og íslensku í aðalnámskrá. Þýðingin og útgáfan var tilraun til að mæta þörfum heyrnarlausra barna og stóð yfir í marga mánuði þar sem fyrst þurfti að þýða íslenska textann yfir á táknmál og síðan að gera myndbönd þar sem efni bókanna er á tákn­máli. Þetta felur í sér vinnu þar sem nauðsyn er á sérfræðingum sem hafa umsjón og ábyrgð á táknmálskennslu og sérfræðiþekkingu á því hvernig framsetning efnis fyrir táknmálsnem­endur þarf að vera.
    Einnig kemur fram í umsögn Menntamálastofnunar að fyrir 6. bekk séu nú í boði um 25 kennslubækur og þar af séu margar grunnbækur sem vænta má að flestir noti. Í öðrum til­vikum geti kennarar valið efni eftir því hvar áherslur í námi og kennslu liggja. Auk þessa námsefnis hafa verið gefnir út svokallaðir Táknmálsleikir I-CD og Táknmálsleikir II-CD, forrit sem ætluð eru heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum á aldrinum 4–7 ára og for­eldrum þeirra.
    Þá nefnir Menntamálastofnun að lokum vefinn Upp með hendur, vefir.nams.is/upp/, sem opnaður var árið 2010 en þar má finna tákn yfir hugtök í daglegu lífi barna og er hann ætlaður börnum sem vilja læra táknmál. Auk þess er bent á námsefnið Tákn með tali sem er orðabók með táknmyndum sem notaðar eru í boðskiptakerfinu Tákn með tali sem er tjáningarform sem er ætlað heyrandi fólki sem á við verulega mál- og talörðugleika að etja.
    Eins og áður hefur verið komið inn á hefur gerð námsefnis fyrir heyrnarlaus og heyrnar­skert börn búið við ákveðinn vanda og segja má að í of mörgum tilvikum sé þessum hópi barna ætlað að nota efni fyrir börn með íslensku að móðurmáli. Heyrnarlausum og heyrnar­skertum börnum hefur því ekki verður tryggt aðgengi að námsefni við hæfi.

4.      Í hverju felast einkum ráðstafanir ráðuneytisins til að framfylgja 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011?
    3. gr. laga nr. 61/2011 fjallar um íslenskt táknmál og hljóðar svo:
    „Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og sam­skipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.
    Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“
    Ráðstafanir af hálfu ráðuneytisins til innleiðingar 3. gr. laganna má segja að felist einkum í eftirfarandi atriðum:
1.      Með endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla 2013 er með skýrari hætti en áður fjallað um rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra barna samkvæmt lögum um íslenskt táknmál. Nefna má sérstaklega að sett hafa verið hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar sem taka til talaðs táknmáls og tjáningar með og án táknmálstúlks, íslensks táknmáls og íslensku, lesturs og bókmennta, skráningar táknmálstexta og ritunar og loks málfræði. Ekki voru sett fram sérstök hæfniviðmið vegna táknmáls í öðrum námsgreinum eða námssviðum en áréttað mikilvægi þess að huga að sérstökum þörfum táknmálsnemenda þegar þeir leggja stund á aðrar námsgreinar, ekki síst í erlendum tungumálum. Einnig voru sett matsviðmið sem skólar eiga að nýta eftir því sem við á, til að lýsa hæfni nemenda við lok grunnskóla.
2.      Við gerð frumvarpsins sem varð að lögunum sem þessi liður fyrirspurnarinnar varðar voru ákvæðin ekki kostnaðarmetin heldur vísað til þess að réttindin yrðu virk í áföngum. Í kjölfar laganna var því væntanleg framkvæmd kostnaðarmetin. Í þeirri vinnu kom m.a. fram að skoða þyrfti ákvæði í nýrri aðalnámskrá í samhengi við málaflokkinn í heild í skólakerfinu. Íslenskt táknmál væri skipulagt sem heildstæð námsgrein jafn rétthátt íslensku og tjáning með eða án táknmálstúlks kallaði á umtalsverðan kostnaðarauka vegna kennslunnar og aukinnar túlkunar. Með hliðsjón af því að í endurskoðaðri aðalnámskrá væri kveðið sterkar að orði um réttindi heyrnarlausra nemenda en í aðalnámskránni frá 1999 væri við því að búast að framkvæmd kennslunnar og útfærsla túlkunar mundi leiða til kostnaðarauka, ekki síst ef þróunin yrði sú að hver og einn heyrnarlaus nemandi sækti ýmsa þjónustu sem tengdist táknmálskennslu til síns heimaskóla fremur en tiltekinna móðurskóla sem starfræktir hafa verið. Varðandi kostnaðaraukann kom fram í kostnaðarmatinu að erfitt væri að tilgreina tiltekna upphæð enda færi hún eftir útfærslum, framboði á túlkum og möguleikum á kennslu. Í öllu falli væri ljóst að væntingar um aukna þjónustu væru fyrir hendi hjá notendum. Þá var einnig bent á að kostnaðaráhrif gætu einnig komið fram hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sem ríkið rekur vegna kröfu um aukna þjónustu. Óhjákvæmilegt væri af þessum ástæðum að fylgjast áfram með þróun þjónustunnar og að áfangar yrðu kostnaðarmetnir eftir því sem fleiri skref yrðu stigin.
3.      Dagur íslenska táknmálsins var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn 11. febrúar 2013. Árlega hefur verið haldin vegleg hátíð með fyrirlestrum og kynningum á málefninu og hún hefur ætíð verið vel sótt. Ráðuneytið veitir árlega sérstakt fjárframlag vegna hátíðardagsins og auglýsir hana á vef ráðuneytisins.
4.      Málnefnd um íslenskt táknmál hefur stoð í 7. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og ís­lensks táknmáls og var stofnuð á árinu 2011. Málnefndin hefur verið virk og sent frá sér árlegar skýrslur um stöðu táknmálsins. Fyrstu tvö árin sat fulltrúi mennta- og menningar­málaráðuneytis í nefndinni.
5.      Ráðuneytið hefur við framkvæmd ýmissa málþinga og ráðstefna um menntamál leitast við að sjá til þess að þau séu túlkuð á íslenskt táknmál.
6.      Þá má að lokum árétta að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 fær Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sérstakt framlag til að standa að útgáfu námsefnis á táknmáli, alls 10 millj. kr.