Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 992  —  538. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um sameiningu heilbrigðisstofnana.


     1.      Hver er sparnaðurinn af sameiningu eftirtalinna heilbrigðisstofnana, bæði samtals og sundurliðaður eftir stofnunum:
                  a.      Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, þ.e. á Akranesi, í Borgarnesi, Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, á Hólmavík og Hvammstanga,
                  b.      Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, þ.e. á Patreksfirði og Ísafirði,
                  c.      Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, þ.e. á Blönduósi og Sauðárkróki?

    Markmiðið með sameiningu heilbrigðisstofnana var ekki að ná fram beinum sparnaði í rekstri heldur að skapa styrkari rekstrar- og stjórnunareiningar og að auka getu þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir er lúta að rekstri stofnana í umdæminu. Með sameiningu aukast möguleikar á samstarfi heilbrigðisstarfsmanna innan stærri einingar, kennslu heilbrigðisstétta og á öflugri og stöðugri mönnun. Sameining minnkar álag vegna vaktabindingar og einangrunar og rekstrar- og stjórnareiningar verða sterkari. Færi skapast fyrir öflugri starfsmannaþjónustu og aukna möguleika á menntun heilbrigðisstarfsfólks sem síðar gæti orðið lykillinn að nauðsynlegri nýliðun í dreifbýlinu. Með sameiningu aukast möguleikar á samnýtingu starfsfólks, svo sem vegna vakta, veikinda eða tímabundins álags. Þá minnkar einangrun heilbrigðisstarfsmanna á minni heilsugæslustöðvum.
    Öflugri stofnanir eru betur í stakk búnar til að taka að sér aukin verkefni, svo sem sálfræðiþjónustu, í samræmi við þarfir íbúa.

     2.      Hefur rekstrargrundvöllur þessara heilbrigðisstofnana verið styrktur frá sameiningu og hvernig sundurliðast það þá eftir fyrrgreindum stofnunum?
    Í efnahagshruninu lækkuðu fjárframlög til heilbrigðisstofnana og á það einnig við um framangreindar stofnanir. Heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi voru sameinaðar á árinu 2010, í miðju efnahagshruni, og í efnahagshruninu voru fjárframlög til heilbrigðisstofnana á Vesturlandi lækkuð líkt og hjá öðrum stofnunum til að ná markmiðum um jafnvægi í ríkisrekstrinum. Engu að síður voru veittar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana á Vesturlandi í aðdraganda sameiningar upp í rekstrarhalla og til að mæta kostnaði við sameiningar þeirra.
    Í fjárlögum fyrir árið 2014 hækkuðu fjárframlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni um samtals 405 millj. kr. Eftirfarandi tafla sýnir yfirlit yfir hækkanir fjárframlaga til heilbrigðisstofnana á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi í fjárlögum fyrir árin 2015 og 2016, að meðtöldum almennum launa- og verðlagshækkunum:

Fjárlög 2015 millj. kr. Fjárlög 2016 millj. kr
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 3.363 3.800
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 1.631 1.822
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 3.830 4.456