Ferill 609. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1004  —  609. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt (gjalddagar aðflutningsgjalda).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2016 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2016, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIV í tollalögum, nr. 88/2005.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Haustið 2008 var gjalddögum aðflutningsgjalda fjölgað tímabundið með ákvæði til bráðabirgða. Gildistími þeirrar bráðabirgðareglu sem í ákvæðinu fólst hefur í raun verið framlengdur reglulega með nokkrum breytingum. Regluna má finna í ákvæðum til bráðabirgða II og III og V–XII í tollalögum, nr. 88/2005, og hefur hún með einum eða öðrum hætti verið í gildi frá haustinu 2008. Henni fylgdi breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem kallaðist á við bráðabirgðaregluna á þann hátt að þeim aðilum sem nutu greiðslufrests samkvæmt bráðabirgðareglunni var heimilað að færa innskatt á virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að hann hefði aðeins verið greiddur í ríkissjóð að hluta. Slíkt ákvæði kemur m.a. fram í ákvæði til bráðabirgða XXVIII í lögum um virðisaukaskatt en tilgangur þess var að tryggja að skipting gjalddaga aðflutningsgjalda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XII í tollalögum hefði ekki áhrif á innskattsrétt viðkomandi aðila.
    Upphafleg ástæða þess að bráðabirgðareglan var felld inn í tollalög var að nauðsynlegt þótti að bregðast tímabundið við þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna gengisfalls, samdráttar og verðbólgu á síðari hluta ársins 2008. Litið var svo á að reglan fæli í sér greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem gerði fyrirtækjum kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds. Með framlengingu sem átti sér stað með lögum nr. 46/2011 var vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga en að öðru leyti hafa framlengingar grundvallast á því að nauðsynlegt væri að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna samdráttar í íslensku efnahagslífi.
    Í þau skipti þegar reglan hefur verið framlengd hafa legið fyrir áskoranir frá hagsmunaaðilum, samtökum þeirra eða aðilum vinnumarkaðar. Í ljósi betri stöðu íslensks efnahagslífs og þess að ekki hafði verið farið fram á frekari framlengingu rann reglan sitt skeið á enda við lok ársins 2015 og við tóku ákvæði 122. gr. tollalaga. Fyrsti gjalddagi aðflutningsgjalda aðila sem njóta greiðslufrests á árinu 2016 er 15. mars 2016. Fyrirtæki, og þá einkum hin minni, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda. Í mörgum tilvikum virðast þau illa undirbúin til að takast á við að þurfa að greiða aðflutningsgjöld á greiðslufresti í einu lagi. Endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta skatta og gjalda er í farvatninu með samræmingu að leiðarljósi.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til þá breytingu að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við tollalög (sem verði ákvæði til bráðabirgða XIV) þar sem kveðið verði á um að gildistími bráðabirgðareglunnar verði framlengdur út árið 2016 þannig að tveir gjalddagar verði fyrir aðflutningsgjöld vegna uppgjörstímabila frá tímabilinu mars og apríl og út árið 2016, annars vegar á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils og hins vegar á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Samhliða er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt þar sem kveðið verði á um að þeim aðilum sem eiga rétt á tvískiptingu gjalddaga samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í tollalögum verði heimilt að færa innskatt á virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að hann hafi aðeins verið greiddur að hluta.
    Þó að samræming gjalddaga sé í farvatninu er allt að einu rétt að gera ráð fyrir því að bráðabirgðareglan renni sitt skeið endanlega á árinu 2016.