Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1202  —  545. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (eftirlit, verkaskipting, EES-samningurinn).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Matvælastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um matvæli sem felst í því að eftirlit með frumframleiðslu matjurta færist frá Matvælastofnun til heilbrigðiseftirlits og að matvælafyrirtæki sem framleiða kapla-, geita- og sauðamjólk skuli hafa starfsleyfi. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem gera ráðherra kleift að innleiða EES-gerðir með reglugerð ef viðkomandi gerð krefst ekki breytingar á lögum.
    Við umfjöllun um málið var bent á að þar sem starfsemi er blönduð, þ.e. bæði er stunduð búfjár- og matjurtarækt, verði áfram eftirlit af hálfu heilbrigðiseftirlits og Matvælastofnunar. Nefndin bendir á að samkvæmt lögum um matvæli er heimilt að sameina eftirlit og gæti Matvælastofnun því farið með eftirlit með hvoru tveggja. Nefndin telur ákvæði frumvarpsins að mestu til bóta og hvetur til þess að viðkomandi stofnanir leitist við að haga eftirlitsstörfum á sem einfaldastan hátt fyrir þá sem eftirliti sæta og nýti heimildir sam­eigin­legs eftirlits þar sem það á við.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á orðalagi. Lagt er til að í stað þess að kveða á um að þeir sem stunda ,,sauðfjár- og hrossarækt“ þurfi ekki starfsleyfi í 2. efnismálsl. 2. gr. verði mælt fyrir um að þeir sem stunda ,,sauðfjár- eða hrossarækt“ þurfi ekki slíkt leyfi enda ekki skilyrði að hvort tveggja sé stundað. Sams konar breyting er lögð til við 3. málsl. sömu greinar. Þá er lögð til einföldun á orðalagi 3. og 4. gr. frumvarpsins.
    Kristján L. Möller og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir nefndarálit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna ,,sauðfjár- og hrossarækt“ í 2. efnismálsl. komi: sauðfjár- eða hrossarækt.
                  b.      Í stað orðanna ,,kapla-, geita- og sauðamjólk“ í 3. efnismálsl. komi: kapla-, geita- eða sauðamjólk.
     2.      Orðin ,,ákvæði um“ í 3. og 4. gr. falli brott.

Alþingi, 25. apríl 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir. Kristján L. Möller.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson. Hjálmar Bogi Hafliðason.