Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1276  —  695. mál.




Svar


utanríkis­ráð­herra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um fundahöld.


     1.      Hversu margir hefðbundnir fundir voru haldnir í ráðu­neytinu árin 2014 og 2015 með starfs­mönnum undir­stofnana þess sem eru á landsbyggðinni?
    Eina starfsemi ráðu­neytisins sem fellur undir fyrirspurnina er í tengslum við Þýðinga­miðstöð utanríkis­ráðu­neytisins sem starfrækir starfsstöðvar á Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði. Verkefnum Þýðinga­miðstöðvar er skipt niður á fjóra hópa eftir efnissviðum þeirra texta sem liggja til þýðinga. Hver hópur hefur á að skipa hópstjóra sem ber ábyrgð á þeirri vinnu sem hópurinn skilar af sér. Þrír hópstjórar eru staðsettir í Reykjavík og einn á Akureyri. Þýðendur eru staðsettir á öllum starfsstöðvum og að auki eru tveir í fjarvinnu. Hópstjórar halda hópfundi að jafnaði einu sinni í mánuði eða oftar eftir þörfum og er notast við fundarsíma fyrir þá sem eru ekki á staðnum. Sama gildir um hópstjórafundi sem fram­kvæmdastjóri heldur einu sinni í mánuði eða oftar með hópstjórum. Einnig eru haldnir al­mennir starfs­mannafundir með allri deildinni og notast við fundarsíma fyrir starfs­menn á starfsstöðvunum.

     2.      Hversu margir fjarfundir voru haldnir í ráðu­neytinu umrædd ár með starfs­mönnum stofnana þess sem eru úti á landi?
    Um það bil 40 fundir.

     3.      Hver var kostn­aður stofnana ráðu­neytisins vegna ferða starfs­manna þess til og frá Reykjavík vegna funda í ráðu­neytinu árin 2014 og 2015?
    Utanríkis­ráðu­neytið hefur greitt ferðakostnað vegna starfsdags einu sinni á ári auk kostnaðar vegna tilfallandi tilvika, svo sem við námskeiðahald, Stjórnar­ráðsdaginn o.þ.h. Á árunum 2014 og 2015 nam þessi kostn­aður 1.233.332 kr.

     4.      Hefur starfsfólk ráðu­neytisins fengið þjálfun í notkun á fjarfundabúnaði, bæði hvað varðar tæknilegu hliðina og fundarstjórn?
    Notast er við síma og því ekki þörf á sérstakri tæknilegri þjálfun.

     5.      Telur ráð­herra að unnt sé að auka skilvirkni og afköst í starfsemi ríkisins með notkun fjarfundabúnaðar og ef svo er, hvernig? Hefur ráðu­neytið mótað og kynnt stefnu í þessu sambandi?
    Ráðuneytið hefur afar takmarkaða starfsemi á landsbyggðinni en nýtir fjarfundabúnað með miklum ágætum í samskiptum við starfsstöðvar Þýðinga­miðstöðvar á Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði. Hvað kjarnastarfsemi utanríkis­ráðu­neytisins varðar er hins vegar mikil og tíð notkun á fjarfundabúnaði við sendiskrifstofur allan ársins hring og liggur þar til grundvallar fastmótuð stefna og hefð.