Ferill 784. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1339  —  784. mál.



Frumvarp til laga

um þjóðaröryggisráð.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, framfylgdar hennar og endurskoðunar. Einnig taka þau til samráðs og samhæfingar ráðuneyta og opinberra stofnana um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.

2. gr.
Þjóðaröryggisráð.

    Á Íslandi skal starfa þjóðaröryggisráð.
    Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðsins og veitir forsætisráðuneytið ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess.

3. gr.
Skipan þjóðaröryggisráðs.

    Í þjóðaröryggisráði eiga sæti, auk forsætisráðherra, ráðherra sem fer með utanríkis- og varnarmál og ráðherra sem fer með almannavarnir, auk ráðuneytisstjóra viðkomandi ráðuneyta. Jafnframt skulu ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslunnar eiga sæti í ráðinu.
    Þjóðaröryggisráð getur kallað til fleiri ráðherra til setu í ráðinu varðandi einstök mál sem eru til umfjöllunar hjá ráðinu og tekur þá viðkomandi ráðuneytisstjóri einnig sæti í því.
    Embættismönnum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta og opinberra stofnana og hlutafélaga, sem og einstaklingum og fulltrúum lögaðila, er skylt að mæta á fundi þjóðaröryggisráðs, sé þess óskað.

4. gr.
Verkefni þjóðaröryggisráðs.

    Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál.
    Þjóðaröryggisráð skal enn fremur meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi.
    Þjóðaröryggisráð skal stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Þjóðaröryggisráð skal í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.

5. gr.
Samráð þjóðaröryggisráðs við Alþingi.

    Þjóðaröryggisráð skal árlega upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.
    Telji þjóðaröryggisráð ástæðu til að gera breytingar á þjóðaröryggisstefnunni skal það senda Alþingi tillögur þar að lútandi.
    Þjóðaröryggisráð skal upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar.

6. gr.
Boðun funda þjóðaröryggisráðs.

    Forsætisráðherra boðar þjóðaröryggisráð reglulega til funda.
    Forsætisráðherra boðar jafnframt til fundar þjóðaröryggisráðs ef þeir atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    Forsætisráðherra tilnefnir ritara ráðsins, en um fundatilhögun og starfshætti ráðsins skal að öðru leyti kveðið á í reglugerð, sbr. 10. gr.

7. gr.
Trúnaðarákvæði.

    Fundir þjóðaröryggisráðs skulu haldnir fyrir luktum dyrum og trúnaður ríkir um það sem gerist á fundum þess.

8. gr.
Skýrslugjöf til þjóðaröryggisráðs.

    Þjóðaröryggisráð getur kallað eftir skýrslum eða gögnum um atriði er varða þjóðaröryggi frá ráðuneytum, opinberum stofnunum eða opinberum hlutafélögum.
    Ráðuneyti, opinber stofnun eða opinbert hlutafélag skal tilkynna þjóðaröryggisráði án undandráttar um nýjar upplýsingar eða annað sem kann að varða þjóðaröryggisstefnuna eða öryggi ríkisins og almennings.

9. gr.
Samráð við almannavarna- og öryggismálaráð.

    Þjóðaröryggisráð skal eiga samráð við almannavarna- og öryggismálaráð um mál eða atburði sem kunna að snerta verksvið almannavarna- og öryggismálaráðs samkvæmt lögum um almannavarnir, nr. 82/2008.

10. gr.
Reglugerðarheimild.

    Forsætisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um störf ritara og starfshætti þjóðaröryggisráðs.

11. gr.
Viðurlög.

    Hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir þjóðaröryggisráði rangar upplýsingar skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
    Brot að öðru leyti gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar kunna að vera samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum.

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Alþingi samþykkti tillögu til þingsályktunar nr. 26/145, um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, 13. apríl 2016 (sbr. 327. mál á 145. löggjafarþingi). Tillaga til þeirrar ályktunar var afrakstur af störfum þingmannanefndar skipaðrar fulltrúum allra flokka sem þá sátu á Alþingi á grundvelli þingsályktunar nr. 45/139, um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, frá 16. september 2011. Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður veitti nefndinni formennsku. Skilaði nefndin tillögum sínum til utanríkisráðherra 20. febrúar 2014 ásamt bókunum einstakra þingflokka.
    Tillögur nefndarinnar voru í samræmi við ábendingu þverfaglegs starfshóps sem skilaði í mars 2009 skýrslu um áhættumat fyrir Ísland til utanríkisráðherra, þar sem m.a. var kallað eftir mótun þjóðaröryggisstefnu. Tillögur þingmannanefndarinnar mörkuðu tímamót í stjórnmálasögu Íslands þar sem í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins voru tekin markviss skref í þá átt að marka heildstæða stefnu um þjóðaröryggismál Íslands.
    Í ályktuninni frá 13. apríl 2016 er tekið fram að stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Stefnan taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki. Með þjóðaröryggi væri átt við öryggi gagnvart ógnum sem kynnu að valda borgurum, stjórnkerfum og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða hvort sem það væru innri eða ytri ógnir af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Í þingsályktuninni voru síðan talin upp ellefu áhersluatriði sem mynda kjarna þjóðaröryggisstefnunnar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er tekið fram að tilteknar ógnir sem varða þjóðaröryggi Íslands kalli á skilvirka samhæfingu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana sem bera ábyrgð á framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar annars vegar og stefnu í almannavarna- og öryggismálum hins vegar. Í samræmi við þetta er í 11. tölul. í þingsályktuninni frá 13. apríl 2016, nr. 26/145, mælt fyrir um að þjóðaröryggisráð verði sett á laggirnar með sérstökum lögum. Hlutverk þess verði að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti, hafa eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standa fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Markmið laga þessara er að setja á laggirnar þjóðaröryggisráð skv. 11. tölul. ályktunarinnar og tryggja framfylgd verkefna þess og eftirfylgd þjóðaröryggisstefnunnar.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með lögum samkvæmt frumvarpi þessu er sett á stofn þjóðaröryggisráð og kveðið á um hvernig það skuli skipað, hver verkefni þess skuli vera, skýrslugjöf til ráðsins og samráð þess og samskipti við aðra aðila, þ.e. Alþingi, önnur ráðuneyti, almannavarna- og öryggismálaráð, opinberar stofnanir og hlutafélög, o.s.frv. Þá eru í frumvarpinu trúnaðarákvæði, ákvæði um boðun funda þjóðaröryggisráðsins, ritara og starfsaðstæður þess, auk hefðbundinna ákvæða um reglugerðarheimild, viðurlög við brotum gegn lögunum og gildistöku. Með samþykkt frumvarpsins verður tryggt að til staðar er ráð sem tryggir virka framfylgd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland eins og hún er á hverjum tíma, að stefnan sé endurskoðuð reglulega og að viðeigandi samráð stjórnsýsluaðila innbyrðis og við Alþingi eigi sér farveg og fari reglulega fram.
    Hugmyndin um þjóðaröryggisráð eins og hún birtist í áðurnefndri þingsályktun er nokkuð frábrugðin því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, enda umhverfi öryggis- og varnarmála um margt frábrugðið á Íslandi, sem er herlaust ríki. Í Noregi er til að mynda ráðherranefnd undir forsæti forsætisráðherra sem sér um að samræma stefnu stjórnvalda. Forseti Finnlands er í forsæti fyrir nefnd um öryggismál ásamt utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd finnska þingsins. Nokkrar stofnanir í Svíþjóð sinna þeim málum sem þjóðaröryggisráðinu er ætlað að sinna. Í Bretlandi er starfandi þjóðaröryggisráð og á forsætisráðherra sæti í því og aðrir ráðherrar, eins og utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra, sem fara með öryggismál. Ráðinu er meðal annars ætlað að samræma störf ráðuneyta og stofnana og það kemur saman með reglubundnum hætti til að meta stöðu og horfur í öryggis- og varnarmálum og eins ef hættu ber að höndum. Á Írlandi er starfandi ráðgefandi nefnd um öryggismál á vegum forsætisráðuneytisins. Í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar forsætis-, varnarmála-, utanríkis- og dómsmálaráðuneytis, sem og herráðsforingi írska hersins og ríkislögreglustjóri. Á skrifstofu þýska kanslarans er sömuleiðis starfandi ráðgjafanefnd um öryggismál.
    Samkvæmt frumvarpi þessu er þjóðaröryggisráðinu ætlað að fjalla um atburði sem lúta að öryggi íslenska ríkisins. Þeir atburðir kunna hæglega einnig að hafa áhrif á og tengjast viðfangsefnum almannavarna- og öryggismálaráðs. Því er mikilvægt að þessi tvö ráð vinni saman og stöðugt upplýsingaflæði verði á milli þeirra. Í frumvarpinu eru ákvæði sem eiga að tryggja slíkt, en það ætti einnig að verulegu leyti að vera tryggt með því að ráðin eru að hluta til skipuð sömu fulltrúum.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ein af frumskyldum stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar. Engin ákvæði er að finna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um landvarnir eða þjóðaröryggi, en þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland byggist á og tekur mið af stöðu Íslands sem sjálfstæðs ríkis, tví- og marghliða samningum við önnur ríki á sviði öryggis- og varnarmála, þátttöku Íslands í alþjóðlegum stofnunum á þessu sviði, sem og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Frumvarpið haggar því ekki við þeim skuldbindingum sem til staðar eru, en með stofnun þjóðaröryggisráðs er samvinna stjórnvalda á þessu sviði, yfirsýn yfir og samræmd framkvæmd þessa málaflokks tryggð.

V. Samráð.
    Frumvarpið varðar fyrst og fremst starf stjórnsýsluaðila á sviði þjóðaröryggismála, sem og aðkomu Alþingis að því. Eins og lýst var í inngangi hér á undan byggist frumvarpið á viðamikilli vinnu á sviði þjóðaröryggismála sem verið hefur í gangi frá því að varnarsamstarf við Bandaríkin var endurskoðað árið 2006. Þverfaglegur starfshópur sem utanríkisráðherra skipaði á árinu 2007 til að gera áhættumat fyrir Ísland lagði að ýmsu leyti grunninn að efni þingsályktunarinnar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Starfshópurinn leitaði víða fanga í upplýsingaöflun sinni og átti víðtækt samráð bæði hérlendis og erlendis (sjá m.a.: Áhættumatsskýrsla fyrir Ísland: Hnattrænir, samfélagslegir og hernaðarlegir þættir, frá mars 2009, bls. 6–10). Sömuleiðis átti þingmannanefndin um mótun þjóðaröryggisstefnu viðtöl og samráð við ýmsa aðila, bæði formlega og óformlega, eins og lýst er í skilabréfi nefndarinnar sem er fylgiskjal I með þingsályktunartillögunni. Þessu til viðbótar hafa viðeigandi ráðuneyti átt samstarf við samningu frumvarps þessa, en í athugasemdum við þingsályktunartillöguna um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var mælt fyrir um að utanríkisráðuneytið skyldi hafa samráð við innanríkisráðuneytið um samningu löggjafar um þjóðaröryggisráð. Slíkt var sjálfgefið, enda heyra almannavarnir undir innanríkisráðuneytið, en einnig var haft samráð við forsætisráðuneytið því að frumvarpið leggur talsverðar skyldur á bæði forsætisráðherra og forsætisráðuneyti.

VI. Mat á áhrifum.
    Þjóðaröryggisstefnan er nýmæli á Íslandi og sama má segja um þjóðaröryggisráðið, engin sambærileg stefna eða ráð hefur verið til á Íslandi fram að þessu. Þörfin er þó augljós, eins og kom fram í vinnu þverfaglegs starfshóps um hættumat fyrir Ísland og þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Með stofnun þjóðaröryggisráðs og framkvæmd þeirra verkefna sem því eru falin er stigið stórt skref í þá átt að styrkja samhæfingu stjórnvalda og hlutaðeigandi viðbragðsaðila við atriðum sem ógna kunna þjóðaröryggi, sem og að framfylgja þjóðaröryggisstefnunni í heild sinni. Þjóðaröryggisráðið mun, verði frumvarp þetta að lögum, gegna lykilhlutverki við samhæfingu stjórnsýsluaðila, samráð innan stjórnsýslunnar, reglulega uppfærslu stefnunnar, sem og samstarf við fræðasamfélag um kynningu hennar meðal almennings. Ekki verður séð að stofnun þjóðaröryggisráðs fylgi neikvæð eða íþyngjandi áhrif, að því frátöldu að starfi ráðsins fylgir óhjákvæmilega aukin vinna við þennan málaflokk. Ávinningur af tilvist þjóðaröryggisráðs og starfi þess að einhverjum mikilvægustu málum hvers sjálfstæðs ríkis, þjóðarörygginu, vegur þó umtalsvert þyngra en þeir hugsanlegu ókostir.
    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er forsætisráðherra formaður þjóðaröryggisráðsins og skal forsætisráðuneytið veita ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Ekki verður séð að af því hljótist aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, enda sinnir það þegar eðlislíkum verkefnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er markað gildissvið frumvarpsins. Er það grundvallað á ályktun Alþingis um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Til að tryggja framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar er samráð og samhæfing ráðuneyta og stofnana nauðsynleg.

Um 2. gr.

    Í samræmi við það sem kveðið var á um í 11. tölul. þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er með þessari grein sett á fót þjóðaröryggisráð. Einstakir þættir þjóðaröryggismála falla undir nokkur ráðuneyti og á annan tug stofnana, svo að þörf á samræmingu málaflokksins er augljós.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland segir að forsætisráðherra skuli veita þjóðaröryggisráði forstöðu og í samræmi við það er í 2. mgr. tiltekið að forsætisráðherra sé formaður ráðsins. Slíkt er einnig í samræmi við það samhæfingarhlutverk innan Stjórnarráðsins sem forsætisráðuneytið fer með skv. j-lið 1. tölul. 1 mgr. 1. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Þar sem forsætisráðherra er formaður ráðsins og stjórnar fundum þess er eðlilegast að ráðið sé vistað í því ráðuneyti. Í samræmi við það veitir forsætisráðuneytið ráðinu nauðsynlega aðstöðu og aðstoð.

Um 3. gr.

    Í þjóðaröryggisráði eiga sæti auk forsætisráðherra þeir ráðherrar sem helst fjalla um þau mál sem varða þjóðaröryggisstefnuna. Heimilt er þó að kalla til fleiri ráðherra ef ástæða er til. Frumvarpið gerir ráð fyrir að viðkomandi ráðuneytisstjóri eigi sæti í ráðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að forstöðumenn helstu stofnana sem sinna öryggismálum eigi einnig sæti í ráðinu.
    Til að ráðið geti sinnt skyldum sínum þarf það að hafa aðgang að milliliðalausum upplýsingum, svo rétt þykir að hafa ákvæði um að embættismönnum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta og opinberra stofnana og hlutafélaga sem og einstaklingum og fulltrúum lögaðila sé skylt að mæta á fundi þjóðaröryggisráðs sé þess óskað.

Um 4. gr.

    Í 1. og 2. mgr. kemur fram kjarninn í starfi þjóðaröryggisráðsins. Því er ætlað að vera samstarfsvettvangur um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og þjóðaröryggismál. Hins vegar er því ekki ætlað að hafa nein áhrif á skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta. Sú skipan verður óbreytt þrátt fyrir samþykkt frumvarps þessa.
    Í 3. mgr. er tiltekið, til samræmis við eitt af þeim atriðum sem fram koma í 11. tölul. þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, að ráðið skuli standa að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Miðað er við að þar sé um að ræða heildarendurskoðun stefnunnar, en ráðið getur þess á milli lagt til við Alþingi breytingar á stefnunni, sbr. 2. mgr. 5. gr.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var einnig tiltekið að þjóðaröryggisráðið skyldi beita sér fyrir því að efla fræðslu og upplýsingagjöf, og fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla. Ákvæði til samræmis við þetta er í 4. mgr.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er fjallað um samráð við Alþingi og skýrslugjöf til Alþingis, sem og tillögubreytingar vegna þjóðaröryggisstefnunnar. Slíkt tryggir gagnsæi og samráð milli aðila á þessu sviði og styrkir aðkomu Alþingis að þjóðaröryggismálum.
    Í þessu skyni er lagt til í 1. mgr. að þjóðaröryggisráð geri Alþingi árlega grein fyrir verkefnum sínum og því hvernig þjóðaröryggisstefnunni sé framfylgt. Þetta ákvæði er til samræmis við athugasemdir í þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sagði að ráðið skyldi gera Alþingi reglulega grein fyrir störfum sínum. Í nútímasamfélagi og alþjóðlegu umhverfi getur atburði eða hættur sem ógna þjóðaröryggi borið brátt að. Af þeim sökum er talið rétt að skýrslur ráðsins til Alþingis séu árlega, á sama hátt og utanríkisráðherra gefur Alþingi árlega skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál.
    Eins og vikið er að í 2. mgr. getur ráðið einnig lagt til breytingar á þjóðaröryggisstefnunni. Þetta ákvæði kallast á við 3. mgr. 4. gr. þar sem lagt er til að þjóðaröryggisráðið skuli stuðla að endurskoðun stefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Þar er miðað við heildarendurskoðun stefnunnar, en sú staða kann að koma upp að breytingar á einstökum þáttum stefnunnar kunni að vera aðkallandi með skemmra millibili og veitir þessi grein möguleika á slíkum breytingum.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að ráðið skuli, í sama tilgangi og skv. 1. mgr., upplýsa utanríkismálanefnd um þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar hverju sinni. Engin viðmið eru sett um það hversu oft slíkt skuli gert, enda fer það eftir aðstæðum hverju sinni hvort og þá hversu oft ráðið sér ástæðu til að upplýsa nefndina.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að ráðið skuli hittast reglulega, en ekki er tilskilið hversu oft það skuli funda. Tíðni funda kann að fara eftir aðstæðum og einnig er eðlilegra að kveðið sé á um slíkt í reglugerð ef þörf er á. Forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess, en hér er tekið af skarið um að hann ber einnig ábyrgð á því að boða til funda ráðsins.
    Í 2. mgr. er tilskilið að ráðið skuli einnig hittast, til viðbótar við reglulega fundi þess, ef sérstakar aðstæður kalla á slíkt.
Til að tryggja utanumhald funda og gagna ráðsins er gert ráð fyrir að með ráðinu starfi ritari.     Í 3. mgr. er tiltekið að hann sé tilnefndur af forsætisráðherra, enda lætur forsætisráðuneytið nefndinni í té aðra aðstoð og starfsaðstöðu.

Um 7. gr.

Á fundum þjóðaröryggisráðs verða rædd þau mál sem trúnaður verður að ríkja um. Þrátt fyrir það er talið rétt að fundargerðir og önnur gögn ráðsins lúti upplýsingalögum eins og önnur sambærileg gögn. Í ljósi þess að viðfangsefni ráðsins kunna að varða grundvallaröryggi ríkis og þjóðar má líklegt telja að takmarkanir upplýsingalaga á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna kunni í mörgum tilvikum að eiga við. Slíkt verður þó að meta hverju sinni eftir almennum reglum.

Um 8. gr.

    Víða í stjórnsýslunni eru til staðar upplýsingar sem snerta ýmsa þætti öryggis ríkis og þjóðar. Til að sinna verkefnum sínum er þjóðaröryggisráði nauðsynlegt að hafa aðgang að öllum slíkum upplýsingum og tiltækum gögnum sem varða þjóðaröryggi. Því er eðlilegt að ráðið hafi tvímælalausa heimild til að kalla eftir þessum gögnum eða óska skýrslna hjá viðkomandi ráðuneyti, opinberri stofnun eða opinberu hlutafélagi og er hana að finna í 1. mgr. greinarinnar.
    Til að þjóðaröryggisráð sé ávallt upplýst um nýja ógn eða önnur atriði sem varða þjóðaröryggi er í 2. mgr. lögð sú skylda á ráðuneyti, opinberar stofnanir og opinber hlutafélög að upplýsa þjóðaröryggisráð um nýjar upplýsingar sem þessum aðilum berast eða annað sem máli skipti varðandi þjóðaröryggisstefnuna eða öryggi ríkis og þjóðar.

Um 9. gr.

    Samvinna þjóðaröryggisráðs og almannavarna- og öryggismálaráðs er mjög mikilvæg og störf þessara ráða skarast í mörgum tilvikum. Því er sú skylda lögð á þjóðaröryggisráðið að eiga samráð við almannavarna- og öryggismálaráð um þau mál og önnur atriði á verksviði þjóðaröryggisráðs sem varða viðfangsefni almannavarna- og öryggismálaráðs. Það ætti að auðvelda samvinnu þessara tveggja ráða að þau eru að hluta til skipuð sömu fulltrúum.

Um 10. gr.

    Í greininni er forsætisráðherra veitt heimild til setningar reglugerðar um framkvæmd laganna, en sérstaklega er talin þörf á að sett verði reglugerð um störf ritara og starfshætti þjóðaröryggisráðs.

Um 11. gr.

    Meginverkefni þjóðaröryggisráðs er framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og varðar um leið grunnþætti öryggi ríkis og þjóðar. Því er mikilvægt að hæfileg viðurlög fylgi ef brotið er gegn ákvæðum laga um svo mikilvæg málefni. Til að ráðið geti sinnt verkefnum sínum á ábyrgan hátt er sérstaklega mikilvægt að það hafi ávallt nýjar og réttar upplýsingar um stöðu mála. Í þeim tilgangi er í 1. mgr. lagt til að viðurlög við rangri upplýsingagjöf til ráðsins verði þau sömu og við broti skv. 120. gr. a í almennum hegningarlögum.
    Í 2. mgr. er vægari refsing vegna brota gegn lögunum, að öðru leyti en vegna rangrar upplýsingagjafar, og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Um 12. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.