Ferill 785. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1340  —  785. mál.



Frumvarp til laga

um timbur og timburvöru.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir viðskipti með við úr ólöglegu skógarhöggi og markaðssetningu timburs og timburvöru úr slíkum viði hér á landi.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um markaðssetningu timburs og timburvöru, sbr. skilgreiningu í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað. Lög þessi gilda einnig um sölu timburs og timburvöru um fjarsamskiptamiðla, sbr. skilgreiningu í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga. Endurunnið timbur og endurunnar timburvörur falla utan gildissviðs laga þessara.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
     1.      Gildandi löggjöf: Gildandi lagaákvæði í skógarhöggslandinu um eftirfarandi atriði:
                  a.      rétt til skógarhöggs innan skjalfestra svæðismarka,
                  b.      greiðslu fyrir rétt til skógarhöggs og fyrir timbur, þ.m.t. opinber gjöld í tengslum við skógarhögg,
                  c.      framkvæmd skógarhöggs, þ.m.t. lagaákvæði um umhverfismál og skógrækt, þar á meðal skógarstjórnun og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, að því leyti sem slíkt tengist skógarhöggi beinlínis,
                  d.      lagalegan afnota- og eignarrétt þriðja aðila sem skógarhögg hefur áhrif á, og
                  e.      viðskipti og tolla að því leyti sem slíkt varðar hagnýtingu skóga.
     2.      Kaupmaður: Einstaklingur eða lögaðili sem, innan ramma verslunarstarfsemi, selur eða kaupir á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins timbur eða timburvöru sem þegar hefur verið sett á innri markaðinn.
     3.      Kerfi áreiðanleikakannana: Kerfi sem felur í sér ráðstafanir og verklagsreglur til að lágmarka áhættuna á að timbur úr ólöglegu skógarhöggi og vara úr slíku timbri sé sett á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins.
     4.      Lögbært stjórnvald: Stjórnvald sem ber ábyrgð á framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.
     5.      Löglegt skógarhögg: Skógarhögg sem er í samræmi við gildandi löggjöf í skógarhöggslandinu.
     6.      Markaðssetning: Að setja, innan ramma verslunarstarfsemi, timbur eða timburvöru í fyrsta skipti á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins til dreifingar eða notkunar, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust. Sala á innri markaði á timbri eða timburvöru sem þegar hefur verið sett á innri markað telst ekki til markaðssetningar.
     7.      Ólöglegt skógarhögg: Skógarhögg sem er í bága við gildandi löggjöf í skógarhöggslandinu.
     8.      Rekstraraðili: Hver sá einstaklingur eða lögaðili sem setur timbur eða timburvörur á markað, sbr. 6. tölul.
     9.      Skógarhöggsland: Landið eða yfirráðasvæðið þar sem viðurinn var höggvinn.
     10.      Vöktunarstofnun: Lögaðili sem býður upp á kerfi áreiðanleikakannana.

II. KAFLI
Verkaskipting stjórnvalda.
4. gr.
Yfirstjórn og ábyrgð.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

5. gr.
Hlutverk Mannvirkjastofnunar.

    Mannvirkjastofnun hefur umsjón með framkvæmd laga þessara, er ráðherra til ráðgjafar og fer með eftirlit eftir því sem kveðið er á um í lögum þessum.
    Í þessu skyni skal Mannvirkjastofnun m.a.:
     a.      annast eftirlit til að sannprófa að rekstraraðilar uppfylli kröfur samkvæmt lögum þessum,
     b.      annast eftirlit með kerfi áreiðanleikakannana, þ.m.t. að framkvæma áhættumat og athugun á ráðstöfunum rekstraraðila sem gerðar eru til þess að draga úr hættu á að timbur úr ólöglegu skógarhöggi eða vara úr slíku timbri sé sett á markað hér á landi,
     c.      fara í eftirlitsferðir og skoða gögn og skrár þar sem sýnt er fram á að kerfi áreiðanleikakannana og verklagsreglur virki á réttan hátt,
     d.      hafa eftirlit með því að timburvara á markaði uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, en stofnunin fylgist með timbri og timburvöru á markaði, aflar upplýsinga um slíkar vörur og tekur við ábendingum þess efnis frá tollstjóra, Skógrækt ríkisins, neytendum og öðrum aðilum,
     e.      halda skrár yfir það eftirlit sem er framkvæmt og varðveita þær í að minnsta kosti fimm ár,
     f.      annast eftirlit með vöktunarstofnunum,
     g.      hafa samstarf við tollyfirvöld um framkvæmd eftirlits með innflutningi og markaðssetningu samkvæmt lögum þessum,
     h.      veita almennar leiðbeiningar og fræðslu um framkvæmd laga þessara.
    Mannvirkjastofnun getur falið löggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit og faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort timburvara uppfylli ákvæði laga þessara. Um faggildingu gilda ákvæði laga um faggildingu o.fl. Beiting úrræða skv. 16. gr. skal vera í höndum Mannvirkjastofnunar.

6. gr.
Hlutverk Skógræktar ríkisins.

    Hlutverk Skógræktar ríkisins er:
     a.      að veita Mannvirkjastofnun ráðgjöf á grundvelli þeirrar sérþekkingar sem stofnunin hefur yfir að ráða á sviði skógræktar,
     b.      að rannsaka og framkvæma prófanir á timbri og timburvöru sem Mannvirkjastofnun hefur tekið sýnishorn af, óski Mannvirkjastofnun eftir því.

7. gr.
Hlutverk tollstjóra.

    Hlutverk tollstjóra er að veita Mannvirkjastofnun upplýsingar um innflutning á timbri og timburvöru sem fellur undir lög þessi, sé þess óskað.

III. KAFLI
Kerfi áreiðanleikakannana og vöktunarstofnanir.
8. gr.
Kerfi áreiðanleikakannana.

    Rekstraraðilar sem setja timbur og timburvöru í fyrsta skipti á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins skulu, á grundvelli kerfisbundinnar nálgunar, gera viðeigandi ráðstafanir til að ganga úr skugga um að timbur úr ólöglegu skógarhöggi og vara úr slíku timbri sé ekki sett á markað. Skal rekstraraðili nota kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnanir bjóða upp á skv. 9. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er rekstraraðila heimilt að nota eftirlitskerfi eða verklagsreglur sem hann notar nú þegar við gildistöku laga þessara og samræmist kröfum um kerfi áreiðanleikakannana. Rekstraraðili skal óska eftir því við vöktunarstofnun að hún taki til skoðunar og ákveði hvort viðkomandi eftirlitskerfi eða verklagsreglur uppfylli kröfur sem gerðar eru til kerfis áreiðanleikakannana.
    Ráðherra mælir í reglugerð fyrir um þá þætti sem kerfi áreiðanleikakannana skal fela í sér.

9. gr.
Vöktunarstofnun.

    Lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins getur fengið viðurkenningu sem vöktunarstofnun, að uppfylltum skilyrðum um sérþekkingu og hæfni sem ráðherra kveður á um í reglugerð.
    Aðili sem óskar eftir því að fá viðurkenningu sem vöktunarstofnun skal sækja um það til Eftirlitsstofnunar EFTA, sem að höfðu samráði við stjórnvöld viðurkennir umsækjanda sem uppfyllir skilyrði 1. mgr.
    Aðili sem hefur fengið viðurkenningu sem vöktunarstofnun skal sinna þeim skyldum sem kveðið er á um í 10. gr., að öðrum kosti getur Eftirlitsstofnun EFTA afturkallað viðurkenningu aðila sem vöktunarstofnun.
    Ráðherra mælir í reglugerð nánar á um viðurkenningu og afturköllun viðurkenningar aðila samkvæmt ákvæði þessu.

10. gr.
Hlutverk vöktunarstofnana.

    Hlutverk vöktunarstofnana er:
     a.      að viðhalda og meta reglulega kerfi áreiðanleikakannana, sbr. 8. gr., og veita rekstraraðilum rétt til að nota þau,
     b.      að sannprófa rétta notkun rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana,
     c.      að gera viðeigandi ráðstafanir ef rekstraraðili notar kerfi áreiðanleikakannana á rangan hátt og sú ranga notkun er stórvægileg eða endurtekin.

IV. KAFLI
Almennar skyldur.
11. gr.
Skyldur rekstraraðila.

    Óheimilt er að setja á markað timbur og timburvöru úr ólöglegu skógarhöggi. Við innflutning og markaðssetningu timburs og timburvöru skulu rekstararaðilar nota kerfi áreiðanleikakannana, sbr. 8. gr., til að tryggja að timbur úr ólöglegu skógarhöggi og vara úr slíku timbri verði ekki sett á markað.

12. gr.
Skyldur kaupmanna.

    Kaupmenn skulu, í allri aðfangakeðjunni, geta staðfest deili á rekstraraðilum eða kaupmönnum sem afhentu þeim timbur og timburvöru sem og kaupmönnum sem þeir sjálfir afhentu timbur og timburvöru.
    Kaupmenn skulu ávallt geyma upplýsingar skv. 1. mgr. í að minnsta kosti fimm ár og afhenda þær Mannvirkjastofnun óski stofnunin þess.

V. KAFLI
Þvingunarúrræði o.fl.
13. gr.
Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.

    Mannvirkjastofnun, eða eftir atvikum þeim sem hefur verið falið markaðseftirlit með timbri og timburvöru, sbr. 2. mgr. 5. gr., er heimilt að skoða timburvöru hjá kaupmönnum og rekstraraðilum, taka sýnishorn af timbri eða timburvöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum.
    Kaupmaður eða rekstraraðili ber kostnað vegna þeirra sýnishorna sem tekin eru til rannsóknar skv. 1. mgr. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þeim eytt með öruggum hætti eftir atvikum.
    Kaupmaður eða rekstraraðili ber allan kostnað af innköllun timburs eða timburvöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal hann bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað.

14. gr.
Áminning, úrbætur og dagsektir.

    Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum er Mannvirkjastofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.
    Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum skv. 1. mgr. um úrbætur innan tiltekins frests getur Mannvirkjastofnun ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og er hámark þeirra 500.000 kr. á dag.

15. gr.
Innköllun o.fl.

    Mannvirkjastofnun getur bannað sölu eða afhendingu timburs og timburvöru ef varan uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt getur stofnunin fyrirskipað innköllun eða að timbur og timburvara sé tekin af markaði ef varan uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Enn fremur getur Mannvirkjastofnun krafist þess að rekstraraðili eða kaupmaður fargi viðkomandi timbri eða timburvöru með öruggum hætti, ráðstafi vörunni með öðrum hætti eða afturkalli hana og geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum.

16. gr.
Aðstoð lögreglu.

    Mannvirkjastofnun getur leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

VI. KAFLI
Viðurlög.
17. gr.
Haldlagning.

    Mannvirkjastofnun getur lagt hald á timbur eða timburvöru sem uppfyllir ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim og fargað vörunni á kostnað handhafa hennar eða ráðstafað með öðrum hætti.

18. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 1.000.000 kr.
    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna rekstraraðila eða kaupmanns. Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina er tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

19. gr.
Kærur.

    Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

VII. KAFLI
Reglugerð. Innleiðing og gildistaka.
20. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.

21. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9c í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013.
     2.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9cb í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013.
     3.      Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9ca í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013.

22. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Hinn 3. maí 2013 samþykkti sameiginlega EES-nefndin að fella bæri inn í EES-samninginn þrjár reglugerðir er fjalla um markaðssetningu timburs og timburvara á EES-svæðinu. Um er að ræða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað (hér eftir timburreglugerðin), framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur og málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010.
    Alþingi samþykkti 27. febrúar 2015 þingsályktun um staðfestingu fyrrgreindrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og með þeirri ályktun var stjórnskipulegum fyrirvara aflétt.
    Fyrir innleiðingu timburreglugerðarinnar þarf lagastoð og er frumvarp þetta lagt fram af því tilefni. Verði frumvarp þetta að lögum er ætlunin að innleiða umræddar reglugerðir í formi reglugerðar með stoð í þeim lögum.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Eftirspurn eftir timbri og timburvörum hefur aukist á heimsvísu og er ólöglegt skógarhögg útbreitt vandamál. Skógar gefa af sér umtalsverðan umhverfislegan ávinning sem mikilvægt er að hlúa að, enda sá ávinningur lífsnauðsynlegur mannkyninu. Ólöglegt skógarhögg er mál sem nauðsynlegt er að taka á, en skógum heimsins stafar umtalsverð hætta af því. Ólöglegt skógarhögg veldur skógeyðingu og hnignun skóga sem sýnt hefur verið fram á að orsaki um 20% af losun koltvísýrings í heiminum, ógnar líffræðilegri fjölbreytni, grefur undan sjálfbærri skógarstjórnun og þróun, eykur jarðvegseyðingu og getur ýtt undir veðurhamfarir og flóð.
    Markmið með innleiðingu timburreglugerðarinnar er margþætt. Í fyrsta lagi er horft til þess að hún vinni gegn ólöglegu skógarhöggi með því að banna markaðssetningu timburs og timburvöru úr ólöglega höggnum viði. Í öðru lagi er markmið hennar að stuðla að sjálfbærri skógarstjórnun og í þriðja lagi er um mikilvægt umhverfisverndarmál að ræða, en vonast er til að innleiðing reglugerðarinnar muni eiga þátt í að draga úr loftslagsbreytingum á kostnaðarhagkvæman hátt.
    Innleiðing timburreglugerðarinnar hefur verið á dagskrá ríkja Evrópusambandsins frá því að hún var samþykkt 20. október 2010. Undirbúningur og samþykkt reglugerðarinnar hefur hins vegar verið í vinnslu frá árinu 2003, en í sjöttu aðgerðaáætlun sambandsins á sviði umhverfismála er það talin vera forgangsaðgerð að skoða möguleikann á því að grípa til virkra aðgerða til að koma í veg fyrir og berjast gegn viðskiptum með ólöglega höggvinn við. Framkvæmdastjórn sambandsins sendi frá sér tillögu að aðgerðaáætlun um tilteknar ráðstafanir til að styrkja alþjóðlegt átak til að berjast gegn ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum og í kjölfarið hefur Evrópusambandið verið í samningaviðræðum við lönd sem framleiða timbur varðandi valfrjálsa samstarfssamninga (FLEGT-samstarfssamninga). Þeir samningar fela í sér lagalega bindandi skyldur fyrir samningsaðilana um að koma í framkvæmd ákveðnu leyfiskerfi og setningu reglna um viðskipti með timbur og timburvörur sem eru nánar tilgreind í samningunum sjálfum. Þeir samningar hafa leitt af sér áframhaldandi vinnu við setningu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað. Í frumvarpi þessu er þó ekki verið að innleiða FLEGT-samstarfssamningana í íslenskan rétt, en samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda ákvæði reglugerðarinnar hvað varðar þá samninga ekki innan EFTA-ríkjanna.
    Frumvarp þetta var unnið í samráði við Mannvirkjastofnun, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnunin fari með eftirlit með framkvæmd laganna og þeim reglugerðum sem settar verða í kjölfarið. Til að hægt sé að innleiða ákvæði reglugerðarinnar hér á landi er nauðsynlegt að leggja fram frumvarp um helstu efnisákvæði hennar. Í kjölfarið verður reglugerðin innleidd orðrétt inn í íslenskan rétt með reglugerð sem mun hafa lagastoð í þeim lögum. Að auki verða tvær aðrar reglugerðir innleiddar, en um er að ræða annars vegar framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir og hins vegar framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu eru 22 greinar í VII. köflum. Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið lagasetningarinnar, gildissvið og skilgreiningar. Eins og áður hefur komið fram er markmið með setningu laganna að koma í veg fyrir viðskipti með ólöglega höggvinn við og að timbur og timburvara úr ólöglega höggnum viði sé sett á markað hér á landi. Markmið laganna er einnig að stuðla að sjálfbærni í skógastjórnun. Gildissvið laganna er sett fram á þann hátt að lögin gildi um innflutning, markaðssetningu og notkun á timbri og timburvörum eins og þær eru skilgreindar í timburreglugerðinni og skyldum gerðum. Skýrt er kveðið á um að lögin gildi ekki um sölu á innri markaði á timbri eða timburvörum sem þegar hafa verið settar á markað, en samkvæmt efnisákvæðum laganna ber þeim aðilum sem kaupa slíkt timbur að tryggja rekjanleika viðkomandi vöru. Að lokum eru í kaflanum skilgreind nokkur lykilhugtök sem fram koma í efnisákvæðum frumvarpsins.
    Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um verkaskiptingu stjórnvalda. Ráðherra fer með yfirstjórn mála en Mannvirkjastofnun verður hið lögbæra stjórnvald sem hefur umsjón með framkvæmd laganna. Skógrækt ríkisins mun hafa það hlutverk að veita Mannvirkjastofnun ráðgjöf á grundvelli þeirrar sérþekkingar sem stofnunin hefur yfir að ráða auk þess sem gert er ráð fyrir að hún muni rannsaka og framkvæma prófanir á timbri og timburvörum sem Mannvirkjastofnun hefur tekið sýnishorn af. Hlutverk tollstjóra kemur líka fram í kaflanum en það er að veita Mannvirkjastofnun upplýsingar um innflutning á timbri og timburvörum sem falla undir lögin.
    Í III. kafla frumvarpsins eru sett fram ákvæði er gilda um kerfi áreiðanleikakannana og vöktunarstofnanir. Kveðið er á um að rekstraraðilar sem setja timbur og timburvörur í fyrsta skipti á innri markað skuli, á grundvelli kerfisbundinnar nálgunar, gera viðeigandi ráðstafanir til að ganga úr skugga um að viður sem er ólöglega höggvinn og timburvörur úr slíkum viði komist ekki á innri markaðinn. Svokallaðar vöktunarstofnanir hafa það hlutverk að bjóða upp á slíkt kerfi áreiðanleikakannana auk þess að hafa eftirlit með því að rekstraraðilar noti slíkt kerfi á réttan hátt.
    Í IV. kafla frumvarpsins eru ákvæði um almennar skyldur rekstraraðila og kaupmanna. Rekstraraðilar eru aðilar sem setja timbur og timburvörur á markað í fyrsta skipti, og er kveðið á um að við innflutning og markaðssetningu timburs skuli þeir aðilar notast við kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnanir bjóða upp á. Kaupmenn eru hins vegar aðilar sem selja eða kaupa á innri markaði timbur eða timburvörur sem þegar hafa verið settar á innri markaðinn. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins ber kaupmönnum skylda til að tryggja rekjanleika þeirrar vöru sem þeir hafa til sölu.
    Í V. kafla frumvarpsins eru ákvæði er snúa meðal annars að þvingunarúrræðum og réttarúrræðum. Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laganna og sinnir opinberu markaðseftirliti skv. 5. gr. frumvarpsins. Stofnunin getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort timbur eða timburvara uppfylli ákvæði laganna. Í kaflanum er að auki kveðið á um skoðunarheimild stofnunarinnar auk réttarúrræða sem hún hefur yfir að ráða.
    Í VI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög og í VII. kafla eru ákvæði um reglugerðarheimild ráðherra, innleiðingu og gildistöku.


IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samkvæmt ákvæðum timburreglugerðarinnar er litið svo á að timbur og timburvörur sem falla undir gildissvið FLEGT-samstarfssamninganna og samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES-samnings) falli undir skilgreiningu reglugerðarinnar um löglega höggvinn við. Þar sem samningar Evrópusambandsins við önnur lönd utan sambandsins og CITES-samningurinn eru ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekið sérstaklega á þessum samningum. Hvað varðar FLEGT-samstarfssamningana munu þeir ekki gilda hér á landi. Hins vegar er litið svo á að það fari eftir viðeigandi ákvæðum löggjafar um framkvæmd CITES-samningsins í viðkomandi EFTA-ríki hvaða viður teljist löglega höggvinn. Frumvarp þetta og innleiðing reglugerðarinnar hefur því ekki áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins hvað varðar CITES-samninginn og gerir ekki ráð fyrir að FLEGT-samstarfssamningar, sem Ísland er ekki aðili að, gildi hér á landi.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta var unnið í samráði við Mannvirkjastofnun, en hún mun fara með eftirlit með markaðssetningu timburs og timburvara í samræmi við ákvæði laganna. Samráð var einnig haft við Skógrækt ríkisins, en hún er sú fagstofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fer með skógræktarmál í landinu. Þar sem kveðið er á um hlutverk tollstjóra í II. kafla frumvarpsins var að auki leitað til þeirrar stofnunar um orðalag og efni þess ákvæðis.
    Þegar fyrstu drög að frumvarpinu lágu fyrir var það sett í almenna kynningu á vef ráðuneytisins og öllum gefið færi á að gera athugasemdir við efni frumvarpsins. Á sama tíma var Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu send tilkynning þar sem vakin var athygli á frumvarpinu og óskað sérstaklega eftir umsögn þeirra um efni þess. Sameiginleg umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins barst ráðuneytinu. Í umsögn samtakanna kemur fram að gera verði skýran greinarmun á rekstraraðilum og kaupmönnum í frumvarpinu enda ólíkar kröfur gerðar til þessara aðila, auk þess sem bent var á að í tveimur greinum frumvarpsins hafi orðin birgir og fyrirtæki verið notuð, en þau orð eru ekki notuð í reglugerð Evrópusambandsins. Í umsögninni er að auki bent á að efni frumvarpsins gangi lengra en reglugerð Evrópusambandsins geri ráð fyrir, m.a. hvað varðar haldlagningu og förgun timburs og timburvara sem ekki uppfyllir skilyrði laganna. Að mati samtakanna er nauðsynlegt að skýrt komi fram í lögunum að endurunnið timbur og timburvörur úr endurunnu timbri falli utan gildissviðs laganna og að mikilvægt sé að einfaldleiki sé í fyrirrúmi þar sem kostnaður sem leiðir af innleiðingu á löggjöfinni muni að miklu leyti falla á nýbyggingar og viðhald mannvirkja. Í 13. gr. reglugerðarinnar sé heimild til að aðildarríkin veiti tæknilega ráðgjöf og leiðbeiningar til lítilla og smárra fyrirtækja og æskilegt sé að Mannvirkjastofnun fái formlega slíkt hlutverk í lögunum. Í kjölfar framangreindra athugasemda var nokkrum ákvæðum frumvarpsins breytt til skýringar. Bætt var inn í gildissviðsákvæði að endurunnið timbur og timburvörur úr slíku timbri félli utan gildissviðs laganna auk þess sem orðnotkun var breytt þannig að orðin birgir og fyrirtæki eru ekki lengur notuð. Jafnframt var bætt við að Mannvirkjastofnun skyldi veita almennar leiðbeiningar og fræðslu um framkvæmd laganna, en nánar er fjallað um hvað felist í því hlutverki í athugasemdum við 5. gr. frumvarps þessa. Hvað varðar athugasemdir um haldlagningu timburs og það ákvæði gangi lengra en ákvæði reglugerðar nr. 995/2010 er hins vegar bent á að í 19. gr. reglugerðarinnar, er fjallar um viðurlög, er ekki gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða rekstraraðila eða kaupmann. Þar kemur skýrt fram að aðildarríkin skuli setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðarinnar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlög geti m.a. falið í sér haldlagningu timburs og timburvara. Ef eftirlit leiðir í ljós að timbur hjá kaupmanni uppfylli ekki skyldur reglugerðarinnar er því heimilt samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar að kveða á um haldlagningu þess. Skiptir þá ekki máli hvort timbrið hafi verið markaðssett í fyrsta skipti á innri markaðnum í öðru landi. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins var einnig bent á það að hvergi í reglugerðinni er fjallað um förgun timburs. Vegna þeirrar athugasemdar skal nefnt að í aðfaraorðum reglugerðarinnar er vísað til þess að heimilt er að kveða á um í landslögum að timbri eða timburvörum sem hafa verið ólöglega markaðssettar samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar skuli ekki endilega eytt heldur sé þess í stað hægt að nýta eða ráðstafa þeim í þágu almannahagsmuna. Til að bregðast við þessari athugasemd var orðalagi í 16. og 18. gr. breytt lítillega þannig að hægt sé að fara þá leið í stað þess að láta farga timbrinu. Að lokum var í umsögninni gerð athugasemd við það ákvæði frumvarpsins er kveður á um að rekstraraðila sé heimilt að nota eftirlitskerfi eða verklagsreglur sem hann notar nú þegar við gildistöku laganna og samræmist kröfum um kerfi áreiðanleikakannana. Síðar í ákvæðinu segir að rekstraraðili skuli leita til vöktunarstofnunar og óska eftir því að hún kanni viðkomandi eftirlitskerfi eða verklagsreglur og hvort þær uppfylli umræddar kröfur. Að mati samtakanna er ekki kveðið á um slíkt í reglugerðinni. Vegna þessara athugasemda er bent á að þó svo að heimild liggi fyrir í frumvarpinu um að rekstraraðilar notist áfram við það eftirlitskerfi eða þær verklagsreglur sem þeir notast þegar við þá þarf það kerfi að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Það er því ekki nóg að til staðar sé kerfi, það þarf að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til kerfis áreiðanleikakannana sem kveðið er á um í 6. gr. reglugerðarinnar. Því verði að teljast eðlileg krafa að rekstraraðili leiti til vöktunarstofnunar til að fá úr því skorið hvort viðkomandi kerfi sé fullnægjandi eða ekki.

VI. Mat á áhrifum.
    Innleiðing timburreglugerðarinnar í íslenskan rétt mun fela í sér nýjar skyldur fyrir íslensk stjórnvöld. Mannvirkjastofnun hefur samkvæmt frumvarpinu eftirlit með framkvæmd reglnanna hér á landi og er það talið falla vel að fyrirkomulagi og framkvæmd sambærilegs eftirlits sem fyrir er hjá stofnuninni. Umfang eftirlits samkvæmt frumvarpinu er talið vera óverulegt. Byggt er á því að fjöldi rekstraraðila og þeirra tilfella þar sem timbur og timburvörur eru boðnar inn á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins með Ísland sem fyrsta viðkomustað er talinn verða óverulegur. Það er mat ráðuneytisins að eftirlit með þessum vöruflokkum falli vel að almennu reglubundnu eftirliti og fyrirkomulagi þess hjá stofnuninni. Því sé ekki um að ræða mikla aukningu á eftirlitshlutverki stofnunarinnar og því falli þessi viðbót innan núverandi fjárheimilda hennar og hafi þar með ekki nein áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Samþykkt frumvarpsins munu fylgja nýjar reglur fyrir framleiðendur timburs og timburvöru hér á landi, auk áhrifa á innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara. Þrátt fyrir að um nýjar reglur sé að ræða er sá hluti aðila sem starfar einnig innan Evrópska efnahagssvæðisins meðvitaður um efni þeirra nýju reglna og áhrif þeirra á sölu hér landi. Frumvarp þetta og innleiðing timburreglugerðarinnar hér á landi mun hafa aukin kostnaðaráhrif á rekstraraðila hér á landi, en í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrði verður þess ekki krafist að rekstraraðilar sem þegar nota kerfi eða verklagsreglur sem samrýmast þeim kröfum sem settar eru fram í löggjöfinni komi sér upp nýjum kerfum. Því er í frumvarpinu ákvæði sem kveður á um að rekstraraðili skuli óska eftir því við vöktunarstofnun að hún kanni viðkomandi eftirlitskerfi eða verklagsreglur í því skyni að upplýsa um hvort það kerfi, sem er nú þegar í notkun við gildistöku laganna, uppfylli allar nauðsynlegar kröfur. Í ljósi þess að stórir aðilar á timburmarkaði hér á landi hafa einnig starfsstöðvar í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins er hægt að gera ráð fyrir því að kostnaður fyrir þá aðila muni verða minni háttar.
    Hvað varðar mat á áhrifum frumvarpsins og innleiðingu timburreglugerðarinnar gagnvart almenningi mun frumvarpið hafa í för með sér að neytendur verði betur upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa. Ef um er að ræða timbur eða timburvöru sem kemur utan Evrópska efnahagssvæðisins og er sett í fyrsta skipti á innri markað hér á landi geta neytendur treyst því betur að um sé að ræða vöru sem hefur ekki orðið til vegna ólöglegs skógarhöggs. Aðilar sem selja vörur sem koma hingað til lands frá öðrum löndum innan svæðisins þurfa jafnframt að tryggja rekjanleika vörunnar þannig að hægt er að upplýsa neytandann um uppruna vörunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um markmið laganna, en það er í samræmi við aðfaraorð reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað. Markmið laga þessara er jafnframt að stuðla að sjálfbærni í skógarstjórnun, en sjálfbær skógarstjórnun hefur verið viðvarandi viðfangsefni Evrópusambandsins. Sjálfbær skógarstjórnun byggist í grundvallaratriðum á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og er lykilatriði gagnvart nýtingu skóga að nýtingin sé ekki umfram það sem nemur árlegum vexti skógarins, auk annarra hagrænna, umhverfislegra og félagslegra atriða sem hafa þarf í huga.
    Hinn 21. maí 2003 sendi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá sér aðgerðaáætlun ESB þar sem meðal annars er að finna tillögur um tilteknar ráðstafanir til að styrkja alþjóðlegt átak til að berjast gegn skógarhöggi og tengdum viðskiptum í tengslum við heildarátak til að ná fram sjálfbærri skógarstjórnun. Sú vinna leiddi af sér reglugerð (ESB) nr. 995/2010 þar sem er að finna reglur sem stuðla eiga að sjálfbærri skógarstjórnun.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um gildissvið laganna, en þar kemur fram að lögin gildi um markaðssetningu á timbri og timburvörum, eins og þær eru skilgreindar í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað og skyldur kaupmanna sem selja timbur sem þegar hefur verið sett á markað. Lögin gilda einnig um sölu um fjarskiptamiðla eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga. Skýrt er tekið fram í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 að endurunnið timbur og timburvörur úr slíku timbri falla utan gildissviðs reglugerðarinnar. Er það gert með það í huga að hvetja til notkunar á slíku timbri auk þess sem það mundi leggja óhóflegar byrðar á rekstraraðila ef slíkar vörur féllu undir gildissviðið. Með því að hafa slíkar vörur utan gildissviðs laganna verður til hvatning að endurvinna timbur og timburvörur í stað þess að farga þeim sem úrgangi.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru skilgreind lykilhugtök sem finna má í frumvarpinu. Sambærilegar skilgreiningar eru í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 en að auki er bætt við skilgreiningum á hugtökunum kerfi áreiðanleikakannana og vöktunarstofnun.
     Kerfi áreiðanleikakannana er kerfi sem felur í sér ráðstafanir og verklagsreglur til að lágmarka líkurnar á að timbur úr ólöglega höggnum viði og vara úr slíku timbri sé sett á innri markaðinn. Kerfið tekur til þriggja þátta sem felast í áhættustjórnun, aðgangi að upplýsingum, áhættumati og að draga úr greindri hættu. Kerfið veitir þannig aðgang að upplýsingum um uppruna og birgja timbursins og timburvaranna sem settar eru á innri markaðinn í fyrsta skipti, þ.m.t. viðeigandi upplýsingum um hvort farið sé að gildandi löggjöf í landinu þar sem viðurinn er höggvinn og sérleyfum til skógarhöggs. Rekstraraðilar skulu svo annast áhættumat á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga.
     Vöktunarstofnun er lögaðili sem býður upp á kerfi áreiðanleikakannana.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við lög nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem segir að skipting stjórnarmálefna milli ráðuneyta fari eftir ákvæðum forsetaúrskurðar og er það því ekki fastsett í lögum hvaða ráðherra fari með tiltekin verkefni.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um hlutverk Mannvirkjastofnunar. Til að ná markmiðum laganna um að koma í veg fyrir markaðssetningu timburs og timburvöru úr ólöglega höggnum viði er í ákvæðinu kveðið á um einstök verkefni stofnunarinnar og hefur verið valin sú leið að kveða skýrt á um hlutverk stofnunarinnar í einu ákvæði, þó svo að þau séu skilgreind nánar í öðrum efnisgreinum frumvarpsins. Fyrirmynd að slíkri leið er meðal annars að finna í efnalögum, nr. 60/2013.
    Hlutverk Mannvirkjastofnunar samkvæmt ákvæðinu er nokkuð margþætt. Í fyrsta lagi annast stofnunin eftirlit til að sannprófa hvort rekstraraðilar uppfylli kröfur sem settar eru í lögum þessum, m.a. hvort viðkomandi rekstraraðilar hafi komið upp hjá sér kerfi áreiðanleikakannana, sbr. 8. gr. Í öðru lagi annast stofnunin eftirlit með kerfum og skal að auki framkvæma áhættumat og athugun á ráðstöfunum rekstraraðila sem gerðar eru til þess að draga úr áhættu. Stofnunin skal jafnframt framkvæma athuganir á gögnum og skrám þar sem sýnt er fram á að kerfi áreiðanleikakannana og verklagsreglur virki á réttan hátt, annast athuganir á vettvangi og hafa eftirlit með því að timburvara á markaði uppfylli ákvæði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í því skyni getur stofnunin tekið á móti ábendingum þess efnis frá tollstjóra, Skógrækt ríkisins, neytendum og öðrum aðilum. Til viðbótar þessum verkefnum stofnunarinnar annast hún eftirlit með vöktunarstofnunum, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Skv. f-lið 2. mgr. er Mannvirkjastofnun skylt að halda skrár yfir það eftirlit sitt og varðveita þær í a.m.k. fimm ár. Upplýsingar um eftirlit með því hvort rekstraraðilar uppfylli kröfur sem settar eru fram í frumvarpi þessu, ásamt hugsanlegum fyrirmælum um aðgerðir til úrbóta, skulu að auki vera aðgengilegar í samræmi við tilskipun 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál, en sú tilskipun hefur verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um að Mannvirkjastofnun skuli hafa samstarf við tollyfirvöld um framkvæmd eftirlits við innflutning og markaðssetningu samkvæmt lögum þessum, en um hlutverk tollstjóra er fjallað í 7. gr. frumvarpsins.
    Að lokum er í greininni kveðið á um að Mannvirkjastofnun skuli veita almennar leiðbeiningar og fræðslu um framkvæmd laganna. Í 13. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 er kveðið á um tækniaðstoð, leiðbeiningar og upplýsingaskipti. Í greininni segir að aðildarríkin geti, með fyrirvara um skyldur rekstraraðila að sýna áreiðanleika og með aðstoð framkvæmdastjórnarinnar, eftir því sem við á, veitt rekstraraðilum tækniaðstoð, aðra aðstoð og leiðbeiningar, með tilliti til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja, til að auðvelda að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar, einkum í tengslum við kerfi áreiðanleikakannana. Á grundvelli þessa ákvæðis mun Mannvirkjastofnun einnig hafa heimild til að koma á framfæri nauðsynlegum upplýsingum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um framkvæmd eftirlits samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar, auk þess sem hún mun geta skipst á upplýsingum við önnur aðildarríki og stjórnvöld þeirra, um gögn er skipta máli varðandi ólöglegt skógarhögg. Í 3. mgr. 13. gr. er hins vegar tekið fram að aðstoð skuli veitt á þann hátt að hún hafi ekki áhrif á ábyrgð hinna lögbæru yfirvalda og varðveiti sjálfstæði þeirra við framfylgd reglugerðarinnar. Í ljósi þess að um nýtt eftirlit er að ræða verður að teljast eðlilegt að Mannvirkjastofnun hafi heimild til að veita umrædda aðstoð, en á sama tíma þarf að koma skýrt fram að slík aðstoð dregur ekki úr því að rekstraraðila ber að uppfylla skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laganna.
    Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er að finna heimild fyrir Mannvirkjastofnun að fela löggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit og faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort timburvara uppfylli ákvæði laganna. Um faggildingu gilda ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Beiting réttarúrræða skv. 16. gr. skal hins vegar vera í höndum Mannvirkjastofnunar. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 114/2014, um byggingarvörur.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um hlutverk Skógræktar ríkisins en hún er sú stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fer með skógræktarmál á Íslandi. Starfsmenn Skógræktar ríkisins búa yfir sérþekkingu á sviði skógræktar og koma meðal annars að rannsóknum, þróun og ráðgjöf á því sviði.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um hlutverk tollstjóra, en það er að veita Mannvirkjastofnun upplýsingar um innflutning á timbri og timburvöru sem reglugerð (ESB) nr. 995/2010 tekur til. Reikna má með að einkum verði um að ræða upplýsingar um innflutning frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og rekstraraðila sem er sá aðili sem setur timbur og timburvöru á innri markaðinn í fyrsta skiptið.

Um 8. gr.

    Kerfi áreiðanleikakannana tekur til þriggja þátta sem felast í áhættustjórnun, þ.e. aðgangi að upplýsingum, áhættumati og að draga úr greindri áhættu. Kerfið skal veita aðgang að upplýsingum um uppruna og birgja timbursins og timburvörunnar sem er sett á innri markaðinn í fyrsta skipti, þ.m.t. viðeigandi upplýsingar um hvort farið sé að gildandi löggjöf, um landið þar sem skógarhögg fer fram, tegundir, magn og eftir því sem við á svæðið í landinu þar sem viðurinn er höggvinn og sérleyfi til skógarhöggs. Rekstraraðilar gera svo áhættumat á grundvelli þessara upplýsinga. Ef áhættumatið leiðir í ljós áhættu er gert ráð fyrir því að rekstraraðilar dragi úr henni með það í huga að koma í veg fyrir að viður sem er ólöglega höggvinn og timburvörur úr slíkum viði komist á innri markaðinn.
    Í 1. málsl. 2. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé rekstraraðila heimilt að nota eftirlitskerfi eða verklagsreglur sem hann notar nú þegar við gildistöku laganna og samræmist kröfum um kerfi áreiðanleikakannana. Í 2. málsl. segir svo að rekstraraðili skuli leita til vöktunarstofnunar og óska eftir því að hún taki til skoðunar og ákveði hvort viðkomandi eftirlitskerfi eða verklagsreglur uppfylli kröfur sem gerðar eru til kerfis áreiðanleikakannana.
    Í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 kemur fram að í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrði skuli þess ekki krafist að rekstraraðilar sem þegar nota kerfi eða verklagsreglur sem samræmast kröfum reglugerðarinnar komi á fót nýjum kerfum. Þeir rekstraraðilar munu því eingöngu þurfa að leita til vöktunarstofnunar til að fá staðfestingu á því hvort núverandi kerfi uppfylli skilyrði laga þessara. Gera má ráð fyrir að hluti þeirra rekstraraðila sem einnig eru starfandi í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins hafi þegar til staðar slíkt kerfi eða verklagsreglur.

Um 9. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvaða aðilar geti fengið viðurkenningu sem vöktunarstofnun, en það er lögaðili sem býður upp á kerfi áreiðanleikakannana. Í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 er kveðið á um að í því skyni að bæta við reglurnar um málsmeðferð að því er varðar viðurkenningu og afturköllun viðurkenningar vöktunarstofnana og breyta þeim getur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkt framseldar gerðir til að tryggja að viðurkenning og afturköllun viðurkenningar fari fram á sanngjarnan og gagnsæjan hátt. Með hliðsjón af því hefur framkvæmdastjórnin sett reglugerð um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð (ESB) nr. 995/2010. Reglugerðin er frá 23. febrúar 2012 og er nr. 363/2012. Eins og fram kemur í 21. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir að reglugerð (ESB) nr. 363/2012 verði innleidd í íslenskan rétt.
    Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 3. maí 2013 kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA muni sinna hlutverki því sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sinnir samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 í EFTA-löndunum sem eru aðilar að EES-samningnum. Hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA verður því meðal annars að viðurkenna vöktunarstofnanir samkvæmt ákvæðum 9. gr. laganna. Í 4. mgr. 9. gr. kemur fram að ráðherra mæli í reglugerð nánar fyrir um viðurkenningu og afturköllun viðurkenningar aðila. Gert er því ráð fyrir að reglugerð (ESB) nr. 363/2012 verði innleidd með þeirri heimild.

Um 10. gr.

    Í greininni er kveðið á um hlutverk vöktunarstofnana. Vöktunarstofnanir eru þeir aðilar sem aðstoða rekstraraðila við að uppfylla kröfurnar í reglugerð (ESB) nr. 995/2010. Þeirra hlutverk er því að þróa kerfi áreiðanleikakannana, veita rekstraraðilum rétt til að nota það og sannprófa rétta notkun þess. Þó svo að kveðið sé á um að vöktunarstofnun skuli gera viðeigandi ráðstafanir ef rekstraraðili notar kerfi áreiðanleikakannana á rangan hátt felur það ekki í sér beitingu þvingunar- og réttarúrræða. Mannvirkjastofnun er eini aðilinn sem getur gripið til þeirra úrræða, en dæmi um viðeigandi ráðstafanir skv. c-lið 10. gr. er að tilkynna Mannvirkjastofnun ef röng notkun rekstraraðila á kerfinu er stórvægileg eða endurtekin.

Um 11. gr.

    Í greininni er fjallað um skyldur rekstraraðila, en það eru þeir aðilar sem setja timbur eða timburvörur á innri markaðinn í fyrsta skipti. Í ákvæðinu segir að óheimilt sé að setja á markað timbur og timburvöru úr ólöglega höggnum viði og að við innflutning og markaðssetningu timburs og timburvöru skuli rekstraraðilar nota kerfi áreiðanleikakannana, sem sett er fram í 8. gr. frumvarpsins. Bann við markaðssetningu á timbri úr ólöglega höggnum viði eða timburvöru úr slíku timbri er lykilatriðið í baráttunni gegn ólöglegu skógarhöggi og sú meginregla sem reglugerð (ESB) nr. 995/2010 byggist á.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldur kaupmanna. Samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. er kaupmaður einstaklingur eða lögaðili sem, í tengslum við verslunarstarfsemi, selur eða kaupir á innri markaði timbur eða timburvörur sem þegar hafa verið settar á innri markaðinn. Skyldur kaupmanna samkvæmt ákvæðinu snúa að rekjanleika þeirrar vöru sem þeir hafa keypt á innri markaðnum og selja áfram.

Um 13. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild Mannvirkjastofnunar til skoðunar og upplýsingaskyldu. Ákvæðið er sambærilegt við 16. gr. laga nr. 114/2014, um byggingarvörur, en orðalag ákvæðisins hefur verið aðlagað að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 995/2010. Heimildir Mannvirkjastofnunar til skoðunar og upplýsingaskyldu eru hluti af því opinbera markaðseftirliti sem kveðið er á um í frumvarpinu og eru umræddar heimildir nauðsynlegar til að Mannvirkjastofnun geti sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Í greininni er kveðið á um þvingunarúrræði sem Mannvirkjastofnun getur gripið til. Heimildir samkvæmt greininni eru sambærilegar við heimildir sem opinberar stofnanir hafa til að sinna opinberu eftirlit sem kveðið er á um í lögum. Reglugerð (ESB) nr. 995/2010 kveður skýrt á um að þvingunarúrræði stjórnvalda þurfi að vera skýr til að stjórnvöld hafi næg úrræði til að framfylgja þeim kröfum sem settar eru fram í reglugerðinni.

Um 15. gr.

    Í greininni er kveðið á um þau réttarúrræði sem Mannvirkjastofnun er heimilt að grípa til ef í ljós kemur að timbur eða timburvara á markaði uppfyllir ekki kröfur laganna. Stofnunin getur þannig fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu timburs og timburvöru. Jafnframt getur stofnunin krafist þess að rekstraraðili eða kaupmaður fargi viðkomandi timbri eða timburvörum með öruggum hætti, ráðstafi þeim með öðrum hætti eða afturkalli vöruna eða geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum. Réttarúrræðin samkvæmt greininni eru sambærileg við ákvæði í hliðstæðri löggjöf sem Mannvirkjastofnun starfar eftir. Hvað varðar aðra ráðstöfun vöru sem uppfyllir ekki skilyrði laganna er í aðfaraorðum reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 vísað til þess að heimilt sé í landslögum að kveða á um að timbri úr ólöglega höggnum viði eða timburvöru úr slíkum viði sem hefur verið sett á innri markað skuli ekki endilega eytt heldur sé þess í stað hægt að nýta eða ráðstafa timbrinu í þágu almannahagsmuna. Samkvæmt ákvæði 16. gr. er því gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun geti krafist þess að aðili ráðstafi timbri með þeim hætti, en ákvörðun um slíka ráðstöfun í stað förgunar verður stofnunin að taka á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu, þar á meðal á grundvelli þess um hvers konar timbur er að ræða.

Um 16. gr.

    Lagt er til að ef þörf krefji geti Mannvirkjastofnun leitað aðstoðar lögreglu við framkvæmd þvingunarúrræða. Sambærilegt ákvæði er að finna í 60. gr. efnalaga, nr. 61/2013, og í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um 17. gr.

    Í greininni er kveðið á um að Mannvirkjastofnun geti lagt hald á timbur eða timburvörur sem uppfylla ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim og fargað þeim á kostnað handhafa þeirra eða ráðstafað með öðrum hætti. Verður að teljast eðlilegt að ef í ljós kemur að tiltekið timbur eða tiltekin vara úr timbri uppfylli ekki skilyrði laganna verði markaðssetning hennar stöðvuð og komið í veg fyrir að hún sé sett á markað aftur. Í því skyni er lagt til að Mannvirkjastofnun verði heimilt að taka ákvörðun um haldlagningu vöru og að henni verði fargað með viðeigandi hætti eða henni ráðstafað með öðrum hætti, sbr. athugasemdir við 15. gr. frumvarpsins. Með ákvæðum 16. og 17. gr. mun Mannvirkjastofnun geta gripið til nauðsynlegra réttarúrræða til að framfylgja ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 995/2010. Ákvæði 17. gr. um haldlagningu timburs og timburvöru er sérstaklega hugsað í því skyni að stofnunin geti gripið til þess ef ákvæði 16. gr., sem kveður á um önnur þvingunarúrræði, duga ekki til. Það getur til að mynda verið í þeim tilvikum þar sem rekstraraðili er gjaldþrota o.þ.h.

Um 18. gr.

    Í greininni er lagt til að Mannvirkjastofnun fái heimild til stjórnvaldssekta. Í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 er gerð sú krafa að aðildarríkin skuli setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðarinnar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skuli vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið, hafa fyrirbyggjandi áhrif og geti meðal annars falið í sér sektir, haldlagningu timburs og timburvara og tafarlausa tímabundna ógildingu leyfis til að eiga viðskipti. Í ljósi þess að um sérhæft markaðseftirlit er að ræða, sem framkvæmt er af stofnun sem býr yfir sérfræðiþekkingu, er eðlilegt að stofnunin hafi heimild til að beita stjórnsýsluviðurlögum í stað þess að mál séu kærð til lögreglu. Gert er því ráð fyrir að beiting stjórnsýsluviðurlaga verði meginreglan við afgreiðslu mála er snúa að brotum á reglum sem löggjöfin hefur í för með sér.

Um 19. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Viðurkennt er að mikilvægt réttarúrræði er að geta kært stjórnvaldsákvarðanir til æðra stjórnvalds sem hafi fullar endurskoðunarheimildir í slíkum málum. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 21. gr. laga nr. 114/2014, um byggingarvörur.

Um 20. gr.

    Hér segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laganna. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að þrjár reglugerðir Evrópusambandsins verði innleiddar með reglugerð ráðherra. Ákvæði um reglugerðarheimild er því nauðsynlegt til að hægt sé að innleiða að fullu þær reglugerðir í íslenskan rétt.

Um 21. gr.

    Í greininni kemur fram að með frumvarpinu sé ætlunin að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2013 og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 eins og þeim var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013.

Um 22. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.