Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1342  —  671. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum (markaðseftirlit o.fl., EES-reglur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun og Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni bárust umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu og Sigurði Stefáni Ólafssyni.
    Meginefni frumvarpsins er að undirbúa innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi. Tilskipanirnar gilda um grunnkröfur sem gerðar eru til raffanga annars vegar og kröfur um fullnægjandi rafsegulsamhæfi vara sem falla undir tilskipanirnar hins vegar. Tilskipanirnar koma í stað eldri tilskipana sem innleiddar voru í íslensk lög með reglugerðum á grundvelli laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Tilskipanirnar fela í sér markaðseftirlit sem Mannvirkjastofnun mun sinna en getur einnig falið faggildri prófunarstofu að prófa vörur og meta hvort þær uppfylli ákvæði laganna.
    Í a-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í lögum að bannað sé að leggja háspennulínur í lofti yfir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, aðrar byggingar og íþrótta- og útivistarsvæði. Jafnframt er kveðið á um bann við að reisa slíkar byggingar undir háspennulínum. Hingað til hefur verið óheimilt að reisa byggingar undir slíkum línum þar sem umhverfis þær er ákveðið helgunarsvæði. Bannið hefur hins vegar ekki verið mjög skýrt þar sem það hefur að vissu leyti verið falið innan um tæknileg ákvæði staðla. Með tilliti til réttaröryggis og öryggis borgaranna verður að telja rétt að kveðið sé skýrt á um bannið í lögum.
    Nefndinni bárust athugasemdir Samtaka verslunar og þjónustu varðandi stöðu faggildingarmála hér á landi. Nefndin tekur undir athugasemdirnar og vísar til umfjöllunar í áliti nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir (669. mál, þskj. 1341).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


    10. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Ásta Guðrún Helgadóttir og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.