Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1380  —  675. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum (sjálfstætt reknir grunnskólar, breytt valdmörk ráðuneyta, tómstundastarf og frístundaheimili).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Pétursdóttur, Guðna Olgeirsson og Sigríði Láru Ásbergsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hreiðar Sigtryggsson og Aðalheiði Steingrímsdóttur frá Skólastjórafélagi Íslands, Guðbjörgu Ragnarsdóttur frá Félagi grunnskólakennara, Margréti Pálu Ólafsdóttur frá Hjallastefnunni, Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Áslaugu Huldu Jónsdóttur frá Samtökum sjálfstæðra skóla, Frode F. Jakobsen frá Suðurhlíðaskóla, Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna, Ástu Sigvaldadóttur frá Æskulýðsvettvanginum, Guðmund Ara Sigurjónsson frá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur, Valgerði Ágústsdóttur og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Helga Grímsson og Guðrúnu Sigtryggsdóttur frá Reykjavíkurborg. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Grímsnes- og Grafningshreppi, Hjallastefnunni, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Frode F. Jakobsen, skólastjóra Suðurhlíðaskóla. Þá bárust umsagnir sameiginlega frá Samtökum sjálfstæðra skóla og Samtökum verslunar og þjónustu annars vegar og frá Skólastjórafélagi Íslands og Félagi grunnskólakennara hins vegar.
    Sambærilegt frumvarp var lagt fram á 144. löggjafarþingi (426. mál) en náði ekki fram að ganga. Það er nú lagt fram í umtalsvert breyttri mynd.
    Markmið frumvarpsins eru að skerpa á lagaumgjörð sjálfstætt starfandi grunnskóla og skýra ramma um starfsemi þeirra hvað varðar fjármál og réttindi þeirra sem njóta þjónustunnar, sem og að auka skýrleika löggjafar um starfsemi svonefndra frístundaheimila fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla. Þá hefur frumvarpið að geyma tillögur um breytingar á reglum grunnskólalaga um stjórnsýslukærur og um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald. Loks felst í frumvarpinu breyting á hugtakanotkun þar sem orðinu sérfræðiþjónusta er skipt út fyrir orðið skólaþjónusta.

Frístundaheimili.
    Ákvæði 5. gr. frumvarpsins kveður á um að öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skuli gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Sveitarfélög fari með faglegt forræði frístundaheimila og ákveði hvernig staðið skuli að starfseminni. Ákvæðið felur einnig í sér heimild til að samþætta skólastarf og frístundastarf. Ólík sjónarmið hafa komið fram um þetta ákvæði, sem er nýmæli í lögum, á fundum nefndarinnar og í innsendum umsögnum. Gagnrýni beindist einkum að því að tillögur að viðmiðum um inntak og gæði frístundastarfs, sbr. 4. mgr. 5. gr., lægi ekki fyrir við framlagningu frumvarpsins og að sú skylda yrði lögð á sveitarfélög að bjóða upp á þjónustu frístundaheimila. Þannig hafa fulltrúar sveitarfélaga lýst áhyggjum af því að lögfesting umrædds ákvæðis geti vakið óraunhæfar væntingar fagstétta og annarra haghafa um starfsemi frístundaheimila og bent á að ramminn utan um frístundastarf sé mjög breytilegur eftir sveitarfélögum og jafnvel innan sveitarfélaga. Aðrir aðilar töldu ákvæðið hins vegar nauðsynlega réttarbót þar sem lagalegri umgjörð um starfsemi frístundaheimila hefði verið ábótavant og óvissa ríkt um viðmið starfsins, þjónustu og eftirlit. Meiri hlutinn bendir á að óraunhæft sé að lögfesta skýlausa skyldu sveitarfélaga til að bjóða í öllum tilvikum upp á aðgengi að frístundaheimilum en telur engu að síður nauðsynlegt vegna útbreiðslu slíkra heimila að til sé lagaumgjörð um starfsemina. Meiri hlutinn áréttar að sá varnagli er í ákvæðinu að sveitarfélag getur ákveðið að reka ekki frístundaheimili séu gildar ástæður fyrir hendi. Því er ekki um skýlausa skyldu að ræða og ber að líta til þess við túlkun laganna. Meiri hlutinn telur frumvarpið fela í sér mikið framfaraskref með nýju ákvæði um starfsemi frístundaheimila í stað heimildarákvæðis um lengda viðveru en leggur áherslu á mikilvægi útgáfu viðmiða um gæði frístundastarfsins. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við gerð þeirra verði ríkt tillit tekið til sjónarmiða sveitarfélaganna og svigrúm gefið fyrir mismunandi sveitarfélög til þess að haga starfi frístundaheimila í samræmi við staðbundnar aðstæður og áherslur. Meiri hlutinn telur brýnt að ferlinu verði hraðað sem kostur er og beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að viðmiðin verði gefin út eigi síðar en 1. febrúar 2017. Þar með ætti að gefast hæfilegur tími fyrir ráðuneytið til að vinna viðmiðin í góðri sátt við sveitarfélögin og aðra haghafa.

Sjálfstætt reknir grunnskólar.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að ákvæðum frumvarpsins sem lúta að sjálfstætt reknum grunnskólum væri ekki ætlað að breyta gildandi rétti í grundvallaratriðum heldur að skerpa á lagaumgjörð sjálfstætt starfandi skóla.
    Í 6. tölul. 4. mgr. b-liðar 6. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um við hvað skuli miðað þegar ákvarðaður er hámarksfjöldi nemenda við skóla. Á fundi með nefndinni og í umsögn sinni lagði Kennarasamband Íslands sérstaka áherslu á að starfsaðstæðum nemenda og starfsmanna væri bætt við þá upptalningu sem er að finna í ákvæðinu. Meiri hlutinn fellst á þessa tillögu og leggur því til breytingu þar að lútandi.
    Í 1. mgr. c-liðar 6. gr. frumvarpsins er fjallað um fjárframlög úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Er lagt til að framlagið nemi að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda og er það fyrirkomulag óbreytt frá gildandi lögum. Fulltrúar sjálfstætt rekinna skóla hafa á fundum með nefndinni og í umsögnum fært rök fyrir því að þetta hlutfall þurfi að hækka í 90%. Á hinn bóginn hafa fulltrúar sveitarfélaga bent á að meðaltal það sem miðað er við innihaldi í einhverjum tilfellum ýmsan kostnað sem ekki falli á sjálfstætt reknu skólana, svo sem kostnað við frístundastarf, sérskóla og skólaþjónustu. Því ætti í raun að miða við lægra hlutfall en nú er gert. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingu varðandi þennan þátt.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. sama liðar kveða á um að sveitarfélögin greiði regluleg framlög til sjálfstætt rekinna grunnskóla eftir því sem segir í þjónustusamningi. Framlögin taki breytingum miðað við mánaðarlega útreikninga Hagstofu, sem skulu liggja fyrir fimmta hvers mánaðar. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi lögum þar sem útreikningur sem fjárframlögin byggja á hefur hingað til verið birtur árlega en ekki mánaðarlega. Bent hefur verið á að óheppilegt sé að gera þessa breytingu á miðju fjárhagsári. Betra sé að miða við áramót. Meiri hlutinn fellst á þau sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2017.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti kom fram að 2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. e-liðar 6. gr. frumvarpsins fæli í sér að heimildir rekstraraðila til ráðstöfunar á rekstrarafgangi af innheimtu skólagjalda væru þrengdar meira en nú er gert með 5. gr. reglugerðar um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum o.fl., nr. 699/2012, en þar er aðeins mælt fyrir um að rekstrarafgang sem rakinn verði til opinberra fjárveitinga skuli nýta til að efla skólastarfið í viðkomandi skóla. Samræmist þetta ekki því markmiði frumvarpsins að sníða lögin að gildandi rétti. Því leggur meiri hlutinn til að 2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. e-liðar 6. gr. frumvarpsins falli brott.
    Þá komu fram sjónarmið um hvort tilefni væri til að skýra stöðu þeirra barna sem innritast í skóla utan þess sveitarfélags þar sem þau eiga lögheimili. Það er mat meiri hlutans að æskilegt væri að það yrði gert með samningum milli þeirra aðila sem í hlut eiga hverju sinni. Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að ekki sé tímabært að breyta reglum sem um þetta efni gilda án undangengins samráðs.

Önnur atriði.
    Í 1. gr. núgildandi grunnskólalaga, nr. 91/2008, segir að lögin taki til sjálfstætt rekinna grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögunum. Verði frumvarp þetta að lögum verður sú breyting að sjálfstætt reknir grunnskólar hljóta ekki lengur viðurkenningu ráðherra heldur staðfestir ráðherra þjónustusamning milli skóla og sveitarfélags. Af þessu tilefni leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 1. gr. laga nr. 91/2008.
    Við umfjöllun þessa máls var bent á að 21. gr. grunnskólalaga væri barn síns tíma og þarfnaðist endurskoðunar. Forsögu ákvæðisins má rekja til þess tíma þegar húsnæði grunnskóla var að hluta í eigu ríkisins. Meiri hlutinn telur óvarlegt að leggja til breytingu á umræddu ákvæði án undangengis samráðs við grunnskólasamfélagið en beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að hefja vinnu við endurskoðun þess svo að mögulegt verði að breyta ákvæðinu við næstu endurskoðun grunnskólalaga.
    Að gefnu tilefni vill meiri hlutinn árétta það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að sjálfstætt reknir grunnskólar sem fá fjármagn til rekstrar frá sveitarfélagi teljast til almennra grunnskóla samkvæmt grunnskólalögum og lúta almennt öllum sömu reglum um grunnskólahald og skólar sveitarfélaganna sjálfra.
    Að ofangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr. bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: Orðin „sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögum þessum“ í 1. gr. laganna falla brott.
     2.      Við 6. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „húsnæðis“ í 6. tölul. 4. efnismgr. b-liðar komi: starfsaðstæðna nemenda og starfsmanna.
                  b.      2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. e-liðar falli brott.
     3.      Við 11. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði 2. og 3. mgr. c-liðar 6. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2017.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Steingrímsson ritar undir álitið með fyrirvara. Hann telur að jafnt aðgengi að námi óháð efnahag sé lykilatriði í íslensku menntakerfi. Það sé hans skilningur að með frumvarpi þessu sé ekki greidd gata fyrir sjálfstæða skólastarfsemi með háum skólagjöldum sem aðeins standi börnum efnameiri foreldra til boða heldur færi það aðeins í lög gildandi rétt. Á þeim forsendum styður hann frumvarpið.
    Helgi Hrafn Gunnarsson ritar undir álitið með fyrirvara um heildarsamhengi frumvarpsins auk þess sem hann telur að sú hlutfallstala sem fjárframlög úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla miða við eigi að vera 90% í stað 75% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Alþingi, 27. maí 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.