Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1381  —  675. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum (sjálfstætt reknir grunnskólar, breytt valdmörk ráðuneyta, tómstundastarf og frístundaheimili).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

    Með frumvarpinu er nýjum kafla bætt við lög um grunnskóla þar sem skýrari reglurammi er markaður um starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla en áður hefur verið. Er þetta aðalefni frumvarpsins. Aukinheldur er kveðið á um rétt barna til að njóta þjónustu svonefndra frístundaheimila og reglur um slík heimili skýrðar. Þá hefur frumvarpið að geyma breytingar á reglum grunnskólalaga um stjórnsýslukærur og samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald auk annarra smærri breytinga. Minni hlutinn leggst ekki gegn öðrum þáttum frumvarpsins en þeim sem lýtur að sjálfstætt reknum grunnskólum.
    Minni hlutinn er sammála þeirri skoðun Kennarasambands Íslands, sem kom fram í umsögn sambandsins sem og á fundi nefndarinnar, að öllum börnum á Íslandi ætti að standa til boða nám í almennum grunnskóla reknum af sveitarfélagi. Með öðrum orðum leggst minni hlutinn gegn því að sveitarfélag geti úthýst öllum sínum grunnskólarekstri til einkaaðila eins og frumvarp þetta gerir ráð fyrir, sbr. f-lið 6. gr. þess. Ástæða er til að velta því upp hvort með frumvarpinu sé stigið skref í átt að almennri einkavæðingu og hvort slíkt skref sé í almannaþágu.
    Ýmsum spurningum er ósvarað um færslu grunnskólanáms í sveitarfélagi úr almennum grunnskóla í sjálfstætt rekinn. Hvernig er ákvörðun um að úthýsa grunnskólarekstri tekin? Ræður einfaldur meiri hluti sveitarstjórnarmanna eða á að krefjast samstöðu um málið í viðkomandi sveitarfélagi? Hvert er hlutverk skólanefndar eða skólaráðs í slíkri ákvörðun? Mun skipta máli að sjálfstætt reknir skólar hafa oft sérstaka kennslufræði eða skólastefnu og að íbúar gætu neyðst til að senda börn sín í slíka skóla? Gæti komið upp sú staða að hætta væri á einokunaraðstöðu einkafyrirtækja sem rækju skóla, sem takmörkuðu möguleika sveitarfélaga til þess að hverfa til baka ef óánægja væri með rekstur viðkomandi aðila? Loks er ótalið hvernig fari um kennara og aðra starfsmenn skóla í sveitarfélagi sem ákveður að einkavæða grunnskólastarfsemi sína. Í slíku tilfelli má vænta að starfsfólkið eigi ekki annarra kosta völ en að þiggja starf hjá hinum einkarekna rekstraraðila ellegar flytja búferlum. Engin trygging er fyrir því að starfsfólkið haldi starfskjörum sínum og áunnum réttindum. Í frumvarpinu er þetta látið óáreitt en að mati minni hlutans hefði þurft ákvæði um að sveitarfélagi sem úthýsti öllum sínum grunnskólarekstri bæri að tryggja að kennarar og aðrir starfsmenn héldu starfskjörum sínum og réttindum. Minni hlutinn telur brýnt að þessum spurningum verði svarað og að upplýst umræða um málefnið í heild fari fram.
    Í 1. tölul. 1. mgr. f-liðar 6. gr. frumvarpsins segir að tryggja verði gjaldfrjálsa skólavist nemenda í sjálfstætt reknum grunnskóla þar sem ekki er val um annað. Minni hlutinn telur þetta ákvæði mikilvægt enda felur það í sér að sjálfstætt starfandi skólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem ekki eiga val um grunnskóla í opinberum rekstri. Allur námskostnaður verður að vera á ábyrgð og greiddur af viðkomandi sveitarfélagi sem ákveður þar með hvort það greiði fyrir sérkröfur sem sjálfstæður rekstraraðili kann að gera, svo sem um skólabúninga nemenda, sérstök námsgögn eða sérstaka aðstöðu eða búnað. Minni hlutinn telur að nemendur verði þá ekki rukkaðir um slíkan kostnað.
    Að mati minni hlutans skortir frumvarpið umfjöllun um hvaða atriði þurfi að koma fram í umsókn einkaaðila til sveitarfélags um leyfi fyrir að starfrækja í því grunnskóla. Lög um grunnskóla þyrftu að tilgreina þær lágmarksupplýsingar sem gerð væri krafa um í slíkri umsókn og þau staðfestingargögn sem umsókninni þyrftu að fylgja.
    Loks leggst minni hlutinn gegn þeim hluta ákvæðis 1. tölul. 1. mgr. d-liðar 6. gr. frumvarpsins sem heimilar að einkaaðili sem reki grunnskóla starfi „í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi“. Með þessu móti er rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla gefnar algjörlega frjálsar hendur um val á félagaformi. Að mati minni hlutans á rekstur grunnskóla ekki að vera hagnaðardrifinn og ætti því fremur að vera á vegum sjálfseignarstofnunar en annarra félagaforma. Lögin ættu að gera kröfu um þetta til að tryggja að það fé sem til skólans rennur nýtist í þágu skólastarfsins.

Alþingi, 30. maí 2016.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.