Ferill 797. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1384  —  797. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar
(UBK, LínS, HE, JMS, VilÁ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. apríl 2016, greiðir ríkissjóður árlegt styrktarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skal til greiðslu kennslukostnaðar, að meðtöldu álagi fyrir stjórnunarkostnað, langtímaforföll, hljóðfæragjald og tengdan kostnað, 520 millj. kr. alls. Frá og með árinu 2017 skal framlag ríkisins breytast árlega í samræmi við launaforsendur í kjarasamningum við aðildarfélög Bandalags íslenskra háskólamanna (BHM) og verðlagsforsendur fjárlaga í hlutföllunum laun 85% og 15% önnur gjöld. Framlag ríkisins vegna annars kostnaðar en launa breytist samkvæmt forsendum fjárlaga um almennar verðlagsbreytingar.
    Sveitarfélög tryggja að framlag skv. 1. mgr. renni til kennslu þeirra nemenda sem innritaðir eru í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu og sem uppfylla nánari skilyrði sem sett verða í lögum um tónlistarskóla. Sveitarfélög stýra aðgengi að náminu og nýtingu kennslumagns með gerð þjónustusamninga við þá tónlistarskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum.
    Ráðherra sveitarstjórnarmála setur nánari ákvæði um úthlutun framlags skv. 1. mgr., skilyrði um námsframvindu nemenda og upplýsingaskyldu sveitarfélaga og tónlistarskóla í reglum sem samdar eru í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar skal áskilið að þeir nemendur í framhaldsnámi sem stuðnings njóta samkvæmt samkomulaginu hafi lokið miðnámi að fullu í aðalgrein og aukanámsgreinum. Einnig er heimilt að skilgreina í reglunum í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum er heimilt að greiða framlag vegna nemenda sem hafa lokið námi á framhaldsstigi.
    Í reglunum skal kveðið á um skiptingu þess kennslumagns sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur til ráðstöfunar á landsvísu. Við þá skiptingu er heimilt að leggja til grundvallar fyrirliggjandi upplýsingar hjá Jöfnunarsjóði um skiptingu kennslumagns milli sveitarfélaga á síðustu tveimur árum. Framlag til einstakra tónlistarskóla skal aldrei nema hærri fjárhæð en útlögðum kennslukostnaði og öðrum kostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr. en þó er heimilt að setja í reglur ákvæði um tímabundna afkomutryggingu til að bregðast við breyttum aðstæðum. Í reglunum er jafnframt heimilt að kveða á um framlög til sveitarfélaga vegna nemenda í tónlistarnámi sem ekki falla undir 1. mgr. en þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags.

II. KAFLI
Breyting á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, með síðari breytingum.
2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Á fjárlagaárunum 2016, 2017 og 2018 greiðist framlag skv. 1. mgr. 6. gr. af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag frá 13. apríl 2016 um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar ár hvert.

III. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á fjárlagaárunum 2016, 2017 og 2018, greitt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. apríl 2016 verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
4. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum orðast svo:
    Á árunum 2016, 2017 og 2018 greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kostnað sveitarfélaga vegna verkefna á grundvelli 5. gr. samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Kostnaður vegna verkefna samkvæmt þessari grein skal innheimtur af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Inngangur.
    Hinn 13. apríl 2016 var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, sem gildir til þriggja ára, um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Jafnhliða kynnti mennta- og menningarmálaráðherra áform um stofnun nýs listframhaldsskóla, sem ætlunin er að hefji starfsemi í upphafi næsta skólaárs. Jafnframt hyggst mennta- og menningarmálaráðherra vinna áfram að undirbúningi frumvarps til nýrra laga um tónlistarskóla. Með þessum aðgerðum er aflétt óvissuástandi sem hefur staðið yfir síðustu árin og haft hefur veruleg áhrif á starfsemi tónlistarskóla.
    Frumvarpið er að efni til að mestu samhljóða frumvörpum sem urðu að lögum um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms, nr. 180/2011, sem voru með samþykkt með lögum nr. 56/2014. Á árinu 2015 voru sett ný lög með sama heiti, nr. 72/2015.
    Í þessu frumvarpi og samkomulagi sem undirritað var 13. apríl sl. er um að ræða lengri gildistíma en áður, ásamt því að gert er ráð fyrir því að nemendum sem falla undir samkomulagið fækki við stofnun nýs listframhaldsskóla með sérhæfingu í tónlist. Þá er nú kveðið skýrar á um ýmis framkvæmdaratriði í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd fyrra samkomulags. Er m.a. gert ráð fyrir meiri stýringu en áður á kennslumagni og að skýrari reglur verði settar í reglugerð um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að tónlistarskólar fái framlög með einstökum nemendum. Einnig er gert ráð fyrir því að sveitarfélög geri þjónustusamninga við þá tónlistarskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum en með því móti aukast möguleikar sveitarfélaga á því að stýra nýtingu kennslumagns sem fellur undir samkomulagið. Forsendur eiga því að vera til þess að það fjármagn sem verður til ráðstöfunar nægi til þess að fjármagna allan kennslukostnað sem leiðir af samkomulaginu.

Nánar um efni samkomulags ríkis og sveitarfélaga.
    Í samkomulaginu segir að ríkissjóður greiði árlegt styrktarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skal til greiðslu kennslukostnaðar, að meðtöldu álagi fyrir stjórnunarkostnað, langtímaforföll, hljóðfæragjald og tengdum kostnaði, 520 millj. kr. Frá og með árinu 2017 breytist framlag ríkisins árlega í samræmi við launaforsendur í kjarsamningum við aðildarfélög BHM og verðlagsforsendur fjárlaga í hlutföllunum laun 85% og 15% önnur gjöld. Framlag ríkisins vegna annars kostnaðar en launa breytist samkvæmt forsendum fjárlaga um almennar verðlagsbreytingar. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til þess, sbr. 5. gr. samkomulagsins, að taka tímabundið við verkefnum frá ríkinu, sem á árunum 2016 og 2018 jafngilda 230 millj. kr. en á árinu 2017 er talan eilítið lægri eða 200 millj. kr. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að á samningstímanum, þ.e. á árunum 2016–2018, geti orðið breytingar innan þess ramma sem 5. gr. samkomulagsins kveður á um, enda verði gert um það skriflegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga.
    Töluverðar deilur hafa verið um túlkun samkomulagsins frá 2011 um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Við gerð samkomulagsins frá 13. apríl sl. hefur verið lögð áhersla á að koma í veg fyrir slíkan ágreining. Segir þannig í 4. mgr. 6. gr. samkomulagsins að samkomulagið feli ekki í sér breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fjárstuðningur ríkisins skv. 2. gr. sé óháður útgjöldum sveitarfélaga vegna reksturs tónlistarskóla og taki ekki breytingum í samræmi við þau. Kjósi sveitarfélag að auka kennslumagn umfram úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga beri það sjálft þann viðbótarkostnað sem af því leiðir.

Samráð.
    Samráð hefur verið haft um efni frumvarpsins við fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er leitast við að fá lagastoð fyrir því að sveitarfélög leggi til 230 millj. kr. árlegt framlag til samkomulags um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. apríl 2016, í formi tímabundinnar yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Önnur verkefni en þau sem tilgreind eru í frumvarpinu, sem sveitarfélögin fjármagna tímabundið, kalla ekki á breytingar á sérlögum en í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaga og innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutuðum framlögum til sveitarfélaga. Um er að ræða sömu eða sambærileg verkefni og sveitarfélög hafa haft með höndum frá árinu 2011 samkvæmt samkomulagi sem gert var 5. október 2011.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér sérstök útgjöld fyrir ríkissjóð en hins vegar má ætla að jákvæð samfélagsleg áhrif verði nokkur. Þannig er frumvarpinu ætlað að greiða fyrir því að nemendur í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og söngnemar í mið- og framhaldsnámi geti stundað tónlistarnám óháð því hvar þeir eru skráðir til lögheimilis. Þá er stuðlað að greiðsluþátttöku ríkisins í því tónlistarnámi sem er metið til eininga í framhaldsskólum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er greint frá efni samkomulags ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. apríl 2016. Samkvæmt samkomulaginu greiðir ríkissjóður árlegt styrktarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skal til greiðslu kennslukostnaðar, að meðtöldu álagi fyrir stjórnunarkostnað, langtímaforföll, hljóðfæragjald og tengdan kostnað, 520 millj. kr. Frá og með árinu 2017 breytist framlag ríkisins árlega í samræmi við launaforsendur í kjarasamningum við aðildarfélög Bandalags íslenskra háskólamanna (BHM) og verðlagsforsendur fjárlaga í hlutföllunum laun 85% og 15% önnur gjöld. Framlag ríkisins vegna annars kostnaðar en launa breytist samkvæmt forsendum fjárlaga um almennar verðlagsbreytingar.
    Í 2. mgr. er greint frá þeirri skyldu sveitarfélaga að tryggja að framlag skv. 1. mgr. renni til kennslu þeirra nemenda sem innritaðir eru í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu og sem uppfylla nánari skilyrði sem sett verða í lögum um tónlistarskóla. Fram kemur að sveitarfélög stýra aðgengi að náminu og nýtingu kennslumagns með gerð þjónustusamninga við þá tónlistarskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum.
    Í 3. og 4. mgr. er veitt lagastoð fyrir því að ráðherra sveitarstjórnarmála setji reglur um ráðstöfun framlags úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. Nýmæli er að kveðið er á um setningu skilyrða um námsframvindu nemenda og upplýsingaskyldu sveitarfélaga og tónlistarskóla. Mælt er fyrir um setningu skilyrðis þess efnis að nemendur í framhaldsnámi sem stuðnings njóta samkvæmt samkomulaginu hafi lokið miðnámi að fullu í aðalgrein og aukanámsgreinum. Þá er heimilt að skilgreina í reglunum í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum er heimilt að greiða framlag vegna nemenda sem hafa lokið námi á framhaldsstigi. Í reglunum skal kveða á um skiptingu þess kennslumagns sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur til ráðstöfunar á landsvísu. Við þá skiptingu er heimilt að leggja til grundvallar fyrirliggjandi upplýsingar hjá Jöfnunarsjóði um skiptingu kennslumagns milli sveitarfélaga á síðustu tveimur árum. Í reglunum er jafnframt heimilt að kveða á um framlög til sveitarfélaga vegna nemenda í tónlistarnámi sem ekki falla undir 1. mgr. en þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags.

Um 2. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum fyrri laga sem Alþingi hefur sett um sama efni en í henni felst að Námsgagnasjóður, sem starfræktur er á grundvelli 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007, verði fjármagnaður með framlagi sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimtir af úthlutuðum jöfnunarframlögum sveitarfélaga.

Um 3. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum fyrri laga sem Alþingi hefur sett um sama efni en í henni felst að Endurmenntunarsjóður grunnskóla, sem starfræktur er á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, verði fjármagnaður með framlagi sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimtir af úthlutuðum jöfnunarframlögum sveitarfélaga.

Um 4. gr.

    Í 5. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. apríl 2016, er kveðið á um að á árinu 2016 skuldbindi sveitarfélög sig til þess að fjármagna tímabundið þau verkefni sem fjallað er um í 2. og 3. gr. þessa frumvarps, auk eftirtalinna ólögbundnu verkefna:
     a.      Sumardvalarheimilis í Reykjadal, 29,2 millj. kr.
     b.      Tölvumiðstöðvar fatlaðra, 9,5 millj. kr.
     c.      Vistheimilisins Bjargs, 63,3 millj. kr.
     d.      Lausnar á bráðavanda tónlistarskóla, 30 millj. kr.
    Verkefni skv. a–c-lið varða þjónustu við fatlað fólk en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni undanskilin við gerð heildarsamkomulags um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011. Fjallað er um þessi verkefni og raunar fleiri verkefni sem féllu utan samkomulagsins um yfirfærsluna í skýrslu um endurmat á faglegri og fjárhagslegri framkvæmd yfirfærslu málefna fatlaðra, sem kynnt var í desember 2015. Skrifað var undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga í desember og á grundvelli þess samkomulags var gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem er ætlað að auka fjárframlög til málaflokksins um 1,5 milljarða króna. Ekki hefur þó enn verið gengið frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga vegna allra verkefna og þjónustuúrræða sem falla undir málaflokk fatlaðs fólks og falla umrædd verkefni öll utan þess samkomulags sem nýlega var undirritað.
    D-liður í upptalningu hér að framan er efnislega samhljóða ákvæði í lögum nr. 72/2015, um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Er gert ráð fyrir því að 30 millj. kr. verði varið til lausnar á bráðavanda tónlistarskóla. Á árinu 2015 vörðu ríki og Reykjavíkurborg alls 180 millj. kr. í sama tilgangi. Gert er ráð fyrir því að á móti umræddum 30 millj. kr. frá ríki komi jafnhátt framlag frá Reykjavíkurborg og að með þeim framlögum takist að ljúka því að leysa bráðavanda tónlistarskóla í Reykjavík.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir því að á samningstímanum, þ.e. á árunum 2016–2018, geti orðið breytingar innan þess ramma sem 5. gr. samkomulagsins kveður á um, enda verði gert um það skriflegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Er það m.a. gert vegna þess að horfur er á því að rekstri Vistheimilisins Bjargs verði hætt á næstu missirum. Jafnframt er ákveðið í samkomulaginu að virði verkefna, sem sveitarfélög ábyrgjast fjármögnun á samkvæmt greininni, verði ekki hið sama öll árin, þ.e. árin 2016 og 2018 verði um að ræða 230 millj. kr. en árið 2017 verði um að ræða 200 millj. kr.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.