Ferill 870. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1771  —  870. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (eintakagerð til einkanota).

(Eftir 2. umræðu, 10. október.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                 Höfundar verka, sem hefur verið útvarpað, hafa verið gerð aðgengileg almenningi þannig að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafa verið gefin út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna eftirgerðar verkanna til einkanota. Bæturnar skulu greiðast árlega til samtaka höfundaréttarfélaga með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum. Greiðslan skal fela í sér sanngjarnar bætur fyrir eftirgerð framangreindra verka til einkanota og miðast við eftirfarandi hlutfallstölur af tollverði á böndum, disk­um, plötum eða öðrum þeim geymslumiðlum, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð eða myndir hliðrænt eða stafrænt sem og af tækjum sem eru ætluð til slíkrar upptöku til einkanota sem flutt eru inn eða framleidd hér á landi á næstliðnu ári:
Tollskrárnúmer Skýring Hlutfall af tollverði %
8523.2922–8523.2929 óátekin segulbönd 2
8523.2912–8523.2919 óátekin myndbönd 2
8523.4112 og 8523.4113 geisladiskar 2
8523.5111 og 8523.5119 hálfleiðaraminni (USB-minnislyklar) 4
8523.5211 og 8523.5219 gjörvakort (SD-kort) 4
8471.3001–8471.4909 fartölvur, spjaldtölvur og tölvur 1
8471.7000 utanáliggjandi gagnageymsla (flakkari, hýsing með inn­byggðum hörðum diski) allt að 12 TB 4
8519.8110–8519.8990 hljóðupptökutæki 1
8521.1029 og 8521.9023 myndupptökutæki 1
8527.1303 móttökutæki fyrir útvarpssendingar með hljóðupptöku­búnaði 2
8517.1200 símar fyrir farsímanet eða önnur þráðlaus net með möguleika á hljóð- og myndupptöku 1
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Bætur skv. 3. mgr. greiðast til samtaka höfundaréttarfélaga sem hlotið hafa viður­kenningu ráðherra til að fara með slík réttindi höfunda. Samtökin annast skil á bótunum til höfundaréttarfélaga, að frádregnum hæfilegum umsýslukostnaði. Um viðurkenningu samtaka höfundaréttarfélaga samkvæmt þessari grein gilda málsmeðferðarreglur 4. mgr. 26. gr. a og reglur gefnar út á grundvelli hennar. Eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti skal úrskurðarnefnd skv. 57. gr. leggja mat á grundvöll sanngjarnra bóta skv. 3. mgr. og skila tillögum sínum um breytingar til ráðherra.
     c.      5. og 6. mgr. falla brott.

2. gr.

     7. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Í stað orðsins „endurgjalds“ í 2. mgr. 61. gr. laganna kemur: sanngjarnra bóta.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Bætur skv. a-lið 1. gr. skulu greiðast í fyrsta sinn 1. mars 2017.