Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1785, 145. löggjafarþing 826. mál: gjaldeyrismál (losun fjármagnshafta).
Lög nr. 105 17. október 2016.

Lög um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum (losun fjármagnshafta).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. b laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Allar fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri skv. 1. mgr. eru óheimilar að undanskildum fjármagnshreyfingum sem sýnt er fram á að séu vegna:
    1. Vöru- eða þjónustuviðskipta.
    2. Launa sem erlendur aðili eða innlendur aðili búsettur erlendis, svo sem vegna starfs eða náms, hefur aflað hérlendis síðastliðna sex mánuði. Launatengd gjöld, námslán, atvinnuleysisbætur, lífeyrisgreiðslur, þ.m.t. elli- og örorkulífeyrir og greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar og aðrar sambærilegar greiðslur, teljast laun í skilningi þessa töluliðar.
    3. Gjafa og styrkja til erlendra aðila, svo sem einstaklinga, góðgerðasamtaka eða hliðstæðra aðila, fyrir allt að 6.000.000 kr. á almanaksári. Fjármagnshreyfingar vegna gjafa og styrkja skulu lagðar inn á reikning í eigu móttakanda og skal gefandi eða styrkveitandi vera raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem um ræðir.
    4. Vaxta, verðbóta, samningsbundinna afborgana og arðs skv. 13. gr. j.
    5. Leigutekna af fasteignum sem erlendur aðili aflar hérlendis.
    6. Fyrirframgreiðslu og uppgreiðslu lána eða fjárfestinga í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum og öðrum sambærilegum kröfuréttindum í erlendum gjaldeyri, inn- og útflutnings verðbréfa eða innleggs á og úttektar af reikningum hjá fjármálafyrirtæki, þ.m.t. með úttekt í reiðufé, að samanlögðu jafnvirði allt að 100.000.000 kr. fyrir hvern aðila. Fjármagnshreyfingar eða reiðufjárúttektir á grundvelli ákvæðisins eru háðar eftirfarandi skilyrðum:
      1. Aðili sem nýtir heimildina sé raunverulegur eigandi fjármunanna.
      2. Einstaklingur sem nýtir heimildina hafi náð 18 ára aldri.
      3. Eignastaða lögaðila sem nýtir heimildina hafi 1. ágúst 2016 numið a.m.k. fjárhæð fyrirhugaðrar fjármagnshreyfingar eða reiðufjárúttektar. Með eignastöðu er átt við heildareignir, án frádráttar skulda.
      4. Fjármálafyrirtæki sem framkvæmir fjármagnshreyfingu eða afgreiðir reiðufjárúttekt tilkynni hana til Seðlabanka Íslands, innan fimm virkra daga, þar sem tilefni hennar er tilgreint sérstaklega. Þó skulu tilkynningar vegna fyrirframgreiðslu og uppgreiðslu lána berast Seðlabankanum áður en greiðslurnar eru framkvæmdar.
    7. Beinnar fjárfestingar innlends aðila. Fjármagnshreyfingar á grundvelli þessa töluliðar eru háðar því skilyrði að fjárfestir sé raunverulegur eigandi fjármunanna, að um sé að ræða kaup á 10% eignarhlut hlutafjár hið minnsta og að Seðlabankinn hafi staðfest að um beina fjárfestingu sé að ræða.
    8. Innflutnings á erlendum gjaldeyri á innlánsreikning hjá innlendu fjármálafyrirtæki, þó ekki þegar greiðandi er innlendur aðili og viðtakandi erlendur aðili.
    9. Framfærslu einstaklinga erlendis.
    10. Greiðslu skatta og opinberra gjalda, málskostnaðar samkvæmt dómsorði, slysa- og skaðabóta til erlends aðila eða arfs sem erlendum aðila hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni.
    11. Kaupa einstaklings á einni fasteign erlendis á almanaksári, að undangenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Einstaklingi er heimilt að greiða staðfestingargjald vegna fasteignaviðskipta sem nemur allt að 15% af kaupverði fasteignar án undangenginnar staðfestingar. Ef einstaklingur selur eða móttekur tjónabætur vegna fasteignar erlendis er honum heimilt að nýta söluandvirðið eða tjónabæturnar til endurfjárfestingar í annarri fasteign erlendis innan sex mánaða.
    12. Annarra fjármagnshreyfinga sem eru sérstaklega undanþegnar samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.

  3. 4. tölul. 3. mgr. orðast svo: Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsorði, andvirðis slysa- og skaðabóta eða arfs sem aðila hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni þar sem greiðslan fer fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
  4. Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fjármagnshreyfingar vegna fasteignaviðskipta hér á landi og viðskipta með fjármálagerninga útgefna í innlendum gjaldeyri samkvæmt reglum sem Seðlabanki Íslands setur þegar greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í innlendum gjaldeyri í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Heimild 1. málsl. á þó ekki við þegar greiðsla á sér stað með úttekt af reikningi sem háður er sérstökum takmörkunum í skilningi laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Fjárfestingar lögaðila á grundvelli ákvæðis þessa eru háðar því skilyrði að kaupandi sé raunverulegur eigandi fjármunanna við gildistöku þessa ákvæðis. Fjármunir sem losna við sölu fjárfestinganna skulu greiddir inn á reikning í eigu seljanda í innlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Seðlabanki Íslands getur sett reglur um frekari skilyrði fjármagnshreyfinga samkvæmt ákvæðinu.
  5. Í stað orðanna „1.–4. tölul.“ í 5. mgr. kemur: 1.–6. tölul.
  6. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Seðlabanki Íslands skal birta leiðbeiningar um hvernig sýna skal fram á að fjármagnshreyfingar milli landa séu vegna þeirra viðskipta sem talin eru upp í 1.–12. tölul. 2. mgr.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. c laganna:
  1. Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma sjö nýir málsliðir, svohljóðandi: Óheimilt er að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þegar greiðsla fer fram með innlendum gjaldeyri, nema sýnt sé fram á að gjaldeyriskaupin séu vegna fjármagnshreyfinga á milli landa sem undanþegnar eru samkvæmt ákvæðum 1.–7. og 9.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b. Gjaldeyriskaup skv. 1. málsl. vegna fjármagnshreyfinga á milli landa skv. 1., 3.–7. og 10.–11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b eru háð því skilyrði að greiðslan sé til erlends aðila. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. eru gjaldeyriskaup erlendra aðila á grundvelli 4. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, sbr. 13. gr. j, háð því skilyrði að gjaldeyriskaupin séu vegna slíkra greiðslna frá innlendum aðila hér á landi. Óheimilt er að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé af gjaldeyrisreikningum hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi. Þó eru kaup eða úttekt skv. 4. málsl. heimil enda eigi aðili ónýtta heimild skv. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b sem nemur sömu eða hærri fjárhæð og skilyrði a–d-liðar sama töluliðar eru uppfyllt. Einnig er heimilt að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til fyrirframgreiðslu og uppgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri sem veitt hafa verið af innlendu fjármálafyrirtæki enda eigi aðili ónýtta heimild skv. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b sem nemur sömu eða hærri fjárhæð og skilyrði a–d-liðar sama töluliðar eru uppfyllt. Kaup eða úttekt skv. 5. og 6. málsl. dregst frá heimild skv. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b.
  2. Í stað „3. málsl.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 9. málsl.
  3. 3. mgr. fellur brott.
  4. Í stað „1.–3. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.


3. gr.

     13. gr. d laganna fellur brott.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. e laganna:
  1. Orðin „fyrir 28. nóvember 2008“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Söluandvirði beinnar fjárfestingar skv. 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b er ekki endurfjárfestanlegt samkvæmt ákvæði þessu.


5. gr.

     13. gr. f laganna fellur brott.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. j laganna:
  1. Í stað „2. og 3. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2. mgr.
  2. 3. mgr. fellur brott.
  3. Orðin „afborganir og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa ekki undanþegnar bannákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. c. Jafnframt skulu“ í 1. og 2. málsl. 5. mgr. falla brott.
  4. Í stað „2. og 3. mgr.“ í 2. málsl. og lokamálslið 5. mgr. kemur: 2. mgr.


7. gr.

     13. gr. k laganna fellur brott.

8. gr.

     2. mgr. 13. gr. l laganna orðast svo:
     Skilaskylda skv. 1. mgr. nær ekki til eftirfarandi:
  1. Einstaklings sem er innlendur aðili en hefur búsetu erlendis, t.d. tímabundið vegna starfs eða náms.
  2. Fjármuna vegna lántöku einstaklings hjá erlendum aðilum til kaupa hans á fasteign skv. 11. tölul. 2. mgr. 13. gr. b eða farartæki erlendis.
  3. Fjármuna vegna lántöku aðila sem nýtt er til fjárfestinga hans skv. 6. og 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b.
  4. Fjármuna skv. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. e, enda séu þeir nýttir til endurfjárfestingar innan sex mánaða.
  5. Fjármuna sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta fasteignar erlendis í eigu einstaklings, enda séu þeir nýttir til að fjárfesta í annarri fasteign innan sex mánaða.
  6. Leigutekna sem innlendur aðili fær af fasteign sinni erlendis, enda séu þær nýttar til að greiða fyrir rekstrarkostnað af þeirri fasteign. Með rekstrarkostnaði er m.a. átt við greiðslur afborgana af láni sem hvílir á og/eða tekið var vegna kaupa á fasteigninni.
  7. Fjármuna sem losna við sölu eða greiðslu tjónabóta farartækis erlendis í eigu einstaklings, enda séu þeir nýttir til að kaupa annað farartæki innan sex mánaða.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. m laganna:
  1. Í stað orðanna „tveggja vikna“ í 4. mgr. kemur: þriggja vikna.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Söluandvirði og aðrar greiðslur vegna fjárfestinga skv. 6. og 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. b teljast ekki nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 2. mgr.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. n laganna:
  1. Í stað „1. mgr. 13. gr. f“ í 3. mgr. kemur: og fjárhæðarmarki í 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, en þó ekki 2. mgr. 13. gr. c.
  2. 4. og 5. mgr. falla brott.
  3. Í stað „1. mgr. 13. gr. f“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: og fjárhæðarmarki í 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b, en þó ekki 2. mgr. 13. gr. c, og ákvæðum.
  4. Orðin „aðrir en lögaðilar sem falla undir 4. mgr.“ í 7. mgr. falla brott.
  5. 8. og 9. mgr. falla brott.
  6. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Aðilar geta framselt heimildir sínar skv. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b og 2. mgr. 13. gr. c til sjóða, sem starfa samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, með kaupum á hlutdeildarskírteinum í slíkum sjóðum, að því marki sem viðkomandi sjóður nýtir heimildirnar til fjárfestinga í erlendum gjaldeyri. Á sama hátt geta einstaklingar framselt heimildirnar til vátryggingafélaga og fjármálafyrirtækja á grundvelli samninga um greiðslu iðgjalda til söfnunar lífeyrissparnaðar í séreign eða viðbótartryggingarverndar, og samkvæmt samningum um söfnunartryggingar, eingreiðslutryggingar og reglubundinn sparnað, í erlendum gjaldeyri. Framsal skv. 1.–2. málsl. skal vera skriflegt. Framsalshafar skv. 1. og 2. málsl. skulu tilkynna Seðlabanka Íslands um framsal samkvæmt ákvæðinu.


11. gr.

     Við 13. gr. o laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um undanþágur frá takmörkunum 13. gr. e – 13. gr. n. Seðlabankinn getur bundið undanþágur í reglunum skilyrðum sem m.a. lúta að uppruna og eignarhaldi fjármuna, tilgangi einstakra fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta, fjárhæðum einstakra fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta og eftirliti og upplýsingagjöf til Seðlabankans.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. 1. málsl. orðast svo: Skylt er, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h, að veita Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar og gögn er varða gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa sem hann óskar eftir til að sinna nauðsynlegu eftirliti á grundvelli laga þessara.
  2. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu annarra stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum á grundvelli þessa ákvæðis.
  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Innlendum lögaðilum er skylt að tilkynna Seðlabanka Íslands um eftirfarandi gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa sem eiga sér stað án milligöngu innlendra fjármálafyrirtækja, innan þriggja vikna frá stofnun skuldbindingar:
    1. Lántökur og lánveitingar milli þeirra og erlendra aðila sem nema a.m.k. jafnvirði 100.000.000 kr.
    2. Skilmálabreytingar á lánum milli þeirra og erlendra aðila, nemi höfuðstóll lánsins a.m.k. jafnvirði 100.000.000 kr.
    3. Ábyrgðarskuldbindingar á milli þeirra og erlendra aðila, nemi höfuðstóll ábyrgðarinnar a.m.k. jafnvirði 100.000.000 kr.
    4. Afleiðuviðskipti milli þeirra og erlendra aðila.
    5. Útgáfu skuldabréfa og annarra skuldagerninga, nemi höfuðstóll skuldagerninganna a.m.k. jafnvirði 100.000.000 kr.

         Seðlabankanum er heimilt að setja reglur um framkvæmd tilkynningarskyldu skv. 2. mgr. og undanþágur frá henni.


13. gr.

     Á eftir 7. tölul. 1. mgr. 15. gr. a laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 14. gr. um tilkynningarskyldu um tiltekin gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar.

14. gr.

     Orðin „eða 13. gr. f“ í 2. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum falla brott.

15. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (IV.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b skulu fjármagnshreyfingar hvers aðila samkvæmt ákvæðinu aðeins heimilar að samanlögðu jafnvirði 30.000.000 kr. fram til 1. janúar 2017.
     Seðlabanki Íslands skal endurskoða fjárhæðarmark 1. málsl. 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b fyrir 1. júlí 2017, sbr. reglusetningarheimild skv. 4. mgr. 13. gr. b.
     Þrátt fyrir heimild 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. b til fjárfestinga skulu vörslur verðbréfa vera hjá innlendum vörsluaðila fram til 1. janúar 2017. Þá skulu fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri sem fela í sér inn- og útflutning verðbréfa eða innlegg á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum fram til sama tíma vera óheimilar. Sama gildir um úttektir í reiðufé eða kaup á erlendum gjaldeyri í reiðufé skv. 5. málsl. 2. mgr. 13. gr. c.
     Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.
     
     b. (V.)
     Fram til 1. janúar 2017 er einstaklingi heimilt að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:
  1. Að erlendi gjaldeyririnn sé ætlaður til notkunar vegna ferðalaga erlendis. Við kaup eða úttekt skal einstaklingur sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvittunar fyrir greiðslu á ferð sinni sem fyrirhuguð er innan fjögurra vikna. Þegar um er að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil skal sýnt fram á ferðalag með framvísun vaktaskipulags eða öðrum sannanlegum hætti.
  2. Að ekki sé keyptur eða tekinn út erlendur gjaldeyrir í reiðufé fyrir hærri fjárhæð en sem nemur jafnvirði 700.000 kr. fyrir hvern einstakling skv. 1. tölul. vegna hverrar ferðar, nema sýnt sé fram á sérstaka þörf fyrir aukna reiðufjárúttekt.
  3. Að einstaklingur sem er innlendur aðili kaupi eða taki út erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi þar sem hann er með viðskipti sín.
  4. Að sýnt sé fram á að einstaklingur, eða forráðamaður hans ef um ólögráða einstakling er að ræða, sé eigandi fjármunanna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn eða gjaldeyrisreikningsins sem tekið er út af. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er einstaklingi þó heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir maka.
  5. Að einstaklingurinn sem tilgreindur var við kaup eða úttekt erlenda gjaldeyrisins fari sjálfur með féð úr landi.

     Fjármálafyrirtæki hér á landi getur sótt um undanþágu frá 1. mgr. sem heimilar útibúi fjármálafyrirtækis að selja einstaklingi, sem er innlendur aðili en ekki með viðskipti sín hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki, erlendan gjaldeyri fyrir allt 700.000 kr. í reiðufé vegna hverrar ferðar, ef sýnt er fram á að féð sé til notkunar á ferðalögum erlendis. Seðlabanki Íslands skal birta opinberlega upplýsingar um þá aðila sem fá undanþágu á grundvelli ákvæðisins.
     Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

17. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum: Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
    1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Seðlabankinn getur í sama tilgangi einnig aflað upplýsinga frá lögaðilum um eignir og fjárhagslegar skuldbindingar í erlendum gjaldeyri, svo sem beinar fjárfestingar, verðbréfafjárfestingar, aðrar fjárfestingar í framseljanlegum fjármálagerningum, lánaviðskipti, ábyrgðarskuldbindingar, afleiðuviðskipti og útgáfu skuldabréfa og annarra skuldagerninga. Upplýsingar skv. 1. og 2. málsl. skulu afhentar á því formi sem Seðlabankinn ákveður.
    2. Á eftir orðinu „skyldu“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: annarra stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja.
    3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    4.      Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.
  2. Lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, með síðari breytingum:
    1. Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
      1. Á eftir orðunum „erlendra rafeyrisfyrirtækja“ í 3. tölul. kemur: og greiðslustofnana.
      2. Í stað orðanna „3. mgr. 13. gr. c“ í 3. tölul. kemur: 2. mgr. 13. gr. c.
      3. Í stað orðsins „Þær“ í upphafi 4. tölul. kemur: Staðfestar nýfjárfestingar skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál og þær.
    2. Við 1. málsl. 2. tölul. 3. mgr. 9. gr. laganna bætist: eða bókfært virði undirliggjandi eigna.


Samþykkt á Alþingi 11. október 2016.