Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 9  —  9. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á ályktun Alþingis, nr. 40/145, um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.


Frá forsætisnefnd.


    Alþingi ályktar að 3. mgr. ályktunarinnar, nr. 40/145, orðist svo:
    Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má.

Greinargerð.

    Alþingi ályktaði 2. júní 2016, í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir, að fram skyldi fara rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Skv. 3. mgr. ályktunarinnar skyldi rannsókninni ljúka svo fljótt sem verða mátti og eigi síðar en 31. desember 2016. Til þess að annast rannsóknina skipaði forseti Alþingis, að höfðu samráði við forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara.
    Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar til forseta Alþingis, dags. 8. desember 2016, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um rannsóknarnefndir, er gerð grein fyrir framgangi rannsóknarinnar. Kemur þar fram að nefndin hafði ráðgert, sem lokaþátt í rannsókn sinni, að boða tilgreind vitni til skýrslutöku 11. nóvember 2016. Þegar kom í ljós að þau höfnuðu slíku eða sinntu því ekki óskaði nefndin eftir því, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um rannsóknarnefndir, að þau yrðu kvödd fyrir héraðsdóm sem vitni til þess að svara spurningum um rannsóknina. Viðbrögð vitnanna við óskum rannsóknarnefndarinnar um upplýsingar hafa leitt til þess að tafir hafa orðið á störfum rannsóknarnefndarinnar og fyrirsjáanlegt er að nefndinni mun ekki takast að ljúka rannsókninni innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í ályktun Alþingis. Í skýrslu rann­sóknarnefndarinnar um framgang rannsóknarinnar er talið æskilegt að fresturinn, sem nefnd­inni var veittur til að skila skýrslu sinni, verði framlengdur, enda yrði að öðrum kosti viðbúið að látið yrði reyna enn frekar á umboð og heimildir nefndarinnar fyrir dómstólum ef skýrslu verður ekki skilað fyrir 31. desember nk. Því er lagt til að Alþingi álykti að í stað þess að nefndin ljúki störfum sínum eigi síðar en 31. desember 2016 skuli hún ljúka störfum sínum svo fljótt sem verða má.