Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 145  —  87. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé.

                                  
    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem endurskoði og endurbæti löggjöf með tilliti til verndar, velferðar og veiða villtra fugla og spendýra á Íslandi. Starfshópurinn taki mið af tillögum og ábendingum í skýrslunni Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra sem kom út vorið 2013.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var fyrst flutt á 143. löggjafarþingi (282. mál) en varð ekki útrædd, hún var því lögð fram á 144. löggjafarþingi (38. mál) en kom ekki til umræðu þá að heldur. Á sömu leið fór þegar málið var lagt fram á 145. löggjafarþingi (83. mál) og er það því lagt fram enn á ný. Þingsályktunartillögunni hefur frá upphafi fylgt greinargerðin sem hér fer á eftir óbreytt:
    „Skýrslan Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra var unnin af nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra sem skipuð var af þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. 1 Skýrslan var fyrsti áfanginn í samningu frumvarps til nýrra laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og spendýrum sem kæmi í stað eldri löggjafar um þessi málefni sem þykir úrelt og áfátt á ýmsum sviðum. Til dæmis um það er að villidýralögin ná ekki til hvala og sela og að í þeim er megináherslan lögð á veiðar en haldbær lög ættu að ná til allra villtra spendýra, hvort sem þau lifa á láði eða í legi, og gera þarf verndarsjónarmiðum jafnhátt undir höfði og veiði- og nytjasjónarmiðum. Mættu störf hringormanefndar, sem síðar kallaði sig selormanefnd, er stóð fyrir drápsherferð á selum hér við land um langt árabil, verða til varnaðar um það hversu nærri villtum dýrastofnum er unnt að ganga hérlendis í ríkjandi lagaumhverfi.
    Gildandi lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, nr. 64/1994 (villidýralögunum), hefur verið breytt margoft frá gildistöku þeirra sumarið 1994 en heildarendurskoðun hafa þau ekki fengið enda þótt margvíslegar breytingar hafi orðið á viðhorfum til veiða á villtum dýrum og verndar þeirra á tveggja áratuga löngum gildistíma laganna. Á þeim tíma hefur Ísland einnig gerst aðili að alþjóðlegum samningum sem fela í sér ýmsar skuldbindingar varðandi málefni villtra fugla og spendýra.
    Nefnd umhverfis- og auðlindaráðherra benti á það í skýrslu sinni að löggjöf um velferð villtra dýra yrði að fela í sér viðurkenningu á því að öll villt dýr séu skyni gæddar verur sem umgangast skuli af virðingu. Enn fremur eigi slík löggjöf að endurspegla helstu meginreglur umhverfisréttar, einkum hvað snertir sjálfbæra þróun, samþættingu, fyrirbyggjandi aðgerðir og varúðarregluna. Meginreglan um sjálfbæra þróun felur það í sér að þörfum og væntingum hverrar kynslóðar skal mætt með þeim hætti að möguleikum komandi kynslóða á að uppfylla sínar þarfir verði ekki stefnt í hættu. Sjálfbær þróun felst í því að fullnægja þörfum manna án þess að neyslan fari út yfir þau mörk sem vistkerfi jarðarinnar leyfa. Meginreglan um samþættingu felur í sér samþættingu umhverfisverndar við önnur sjónarmið þegar ákvarðanir um aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið eru undirbúnar og teknar. Lykilatriði er í þessu samhengi að ekki sé litið á umhverfisvernd sem einangraðan þátt heldur sem mikilvægan og óaðskiljanlegan hluta undirbúningsferlis. Varúðarreglan felur það í sér að þegar hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skal ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.
    Hin ítarlega skýrsla starfshóps umhverfis- og auðlindaráðherra var fyrsta skrefið í undirbúningi að brýnni endurskoðun villidýralaganna frá 1994. Í henni lögðu sérfræðingar á sviði dýrafræði og umhverfisfræða, auk kunnáttumanna um veiðar og nytjar, fræðilegan grunn sem byggja má á nýja lagasetningu um vernd, veiðar og velferð villtra dýra hér á landi. Gildandi lög eru aldurhnigin og úrelt. Endurnýjun þeirra bíður sér ekki til batnaðar heldur þarf að komast í verk hið fyrsta.“
Neðanmálsgrein: 1
1     Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson: Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Reykjavík 2013.