Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 174  —  115. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um styttingu biðlista á kvennadeildum.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Nichole Leigh Mosty, Einar Brynjólfsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja nú þegar átak í styttingu biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum.

Greinargerð.

    Hér er lagt til að átak verði gert í að stytta biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum. Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.
    Á dögunum sendi Kvenfélagasamband Íslands frá sér tilkynningu um málið en þar segir m.a.: „Svo virðist vera að konur sem þurfa á aðgerðum sem þessum að halda verði útundan þegar verið er að útdeila peningunum í heilbrigðiskerfinu, Kvenfélagasambandið bendir á að þar er um óbeina kynbundna mismunun að ræða. Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá að það að þurfa að bíða svo lengi eftir að komast í þessar aðgerðir hefur gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði kvennanna sem fyrir því verða.“ 1
    Flutningsmenn tillögu þessarar taka undir það að löng bið eftir aðgerðum af þessu tagi hafi gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði kvennanna sem þar um ræðir. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að hefja nú þegar átak í að stytta biðlistana. Um leið benda flutningsmenn á mikilvægi þess að efla enn frekar heilbrigðisstofnanir víða um landið og fela þeim verkefni. Sem dæmi má nefna að Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi rekur kvennadeild sem væri eflaust vel til þess fallin að taka við verkefnum sem þessum.


1     www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/19/konur_utundan_i_heilbrigdiskerfinu