Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 179  —  120. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (afnám lágmarksútsvars).

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir.


1. gr.

    Orðin „og eigi lægra en 12,44%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Sambærileg frumvörp voru lögð fram á 135. þingi (146. mál), 141. þingi (512. mál), 144. þingi (29. mál) og 145. þingi (42. mál) en hlutu ekki afgreiðslu. Unnur Brá Konráðsdóttir hafði forgöngu um að leggja fram síðustu tvö málin.
    Þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt árið 1993 voru sett inn ný mörk um hámarksútsvar ásamt því að lágmarksútsvar var tekið upp. Ákvæðið um lágmarksútsvar var umdeilt, m.a. vegna þess að það leiddi til verulegrar hækkunar á útsvari sumra sveitarfélaga.
    Sveitarfélögin hafa ákveðna tekjustofna, t.d. útsvar, fasteignaskatt og þjónustutekjur. Þau nýta þessa tekjustofna til þess að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, svo sem rekstri grunnskóla, félagsþjónustu o.s.frv. Með þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Vilji sveitarfélög hins vegar lækka útsvar á löggjafinn ekki að standa í vegi fyrir því.
    Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga staðfestur og kveðið á um að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Haldgóð rök og verulegir hagsmunir þurfa því að koma til ef skerða á þennan ákvörðunarrétt. Bein íhlutun um lágmarksútsvar getur tæpast talist uppfylla þau skilyrði.
    Óeðlilegt er að bundið sé í lög að innheimta skuli að lágmarki tiltekinn skatt af íbúum, hvort sem þörf sé á honum til að sinna lögbundnu hlutverki eða ekki. Sveitarfélag þarf að rækja lögbundið hlutverk sitt, en óhófleg afskipti löggjafans af því hvernig slíkt er fjármagnað eru óþörf og draga úr valdi og ábyrgð kjörinna fulltrúa þjóðarinnar í sveitarstjórnum til þess að leita sem hagkvæmastra leiða til þess að rækja hlutverk sitt.