Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 215  —  42. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Fiskistofa og Matvælastofnun.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Eftirfarandi tölur eru í milljónum króna og miðast við fjárlög og fjáraukalög hvers árs.

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Fiskistofa 730,2 650,7 716,1 736,8 753,2 900,2 763,4
Matvælastofnun 769,8 731,7 831,0 853,4 924,0 982,8 1.118,8


     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Eftirfarandi tölur eru í milljónum króna og miðast við ríkisreikning hvers árs 2010–2015 en áætlanir stofnana fyrir árið 2016, þar sem endanlegar tölur liggja ekki fyrir.
    
2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Fiskistofa 45,9 75,4 66,8 40,0 25,1 31,0 30,0
Matvælastofnun 30,6 34,4 26,3 18,7 27,0 35,5 28,6


     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
    Í lok árs 2010 voru starfsmenn Fiskistofu 77 en í árslok 2016 voru starfsmenn 66 talsins. Þess ber að geta að tvær stöður eftirlitsmanna voru ómannaðar um síðustu áramót. Fækkun starfsfólks skýrist af því að fjárframlag til stofnunarinnar lækkaði á árunum eftir hrun. Hagræðingarkrafa hefur að stærstum hluta verið leyst með fækkun starfsfólks enda lítið svigrúm á öðrum sviðum rekstursins. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að hlutfall launa af heildarrekstrarkostnaði Fiskistofu hefur verið á bilinu 75–78% á þessum árum.
    Í lok árs 2010 voru 75 starfsmenn hjá Matvælastofnun en 91 í árslok 2016. Vegna hlutastarfa eru stöðugildin heldur færri en á móti kemur að nokkur ársverk eru unnin með tímabundnum ráðningum, verksamningum og útvistun verkefna. Þróun starfsmannafjölda á þessu tímabili má rekja til nýrra verkefna Matvælastofnunar og breytinga á skipan eftirlits, en stofnunin hefur m.a. tekið við stjórnsýsluverkefnum frá Bændasamtökum Íslands og eftirliti með kjötvinnslum, mjólkurbúum, eggjaframleiðslu, sjávarafurðum, dýravernd, búfé, dýrahaldi, dýravelferð og fiskeldi.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Í lögum um Fiskistofu er ekki sérstök heimild til að fela öðrum aðilum eftirlitsverkefni, þó hefur stór hluti eftirlits með lax- og silungsveiði verið falinn verktaka. Einstaka verkefnum á sviði hugbúnaðargerðar hefur verið útvistað.
    Verksamningar, tímabundnar ráðningar og útvistun verkefna Matvælastofnunar eru eftirfarandi:
          Við endurskipulagningu dýralæknaþjónustu árið 2011 voru gerðir samningar við sjálfstætt starfandi dýralækna á níu þjónustusvæðum sem síðan fjölgaði í tíu árið 2016.
          Stofnunin hefur gert samning við Fiskistofu um samstarf um ákveðin eftirlitsverkefni.
          Árið 2017 hefst samstarf Matvælastofnunar og Fiskistofu um sameiginlega tölvuþjónustu sem staðsett verður hjá Fiskistofu.
          Stofnunin hefur gert samninga við Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga um útvistun tiltekinna verkefna, en slíkir samningar eru ekki lengur í gildi.
          Stofnunin nýtir í vissum tilvikum þjónustu sjálfstætt starfandi dýralækna við eftirlit í sláturhúsum og við eftirlit með haustslátrun er að mestu byggt á tímabundnum ráðningum dýralækna og annarra starfsmanna. Með þessu er þó ekki verið að útvista verkefnum, heldur fela þau öðrum en frastráðnum starfsmönnum, ýmist með tímabundnum ráðningum eða samningum um afmörkuð verkefni.
          Við búfjáreftirlit hafa verið ráðnir verktakar til að sinna ákveðnum verkefnum.
          Viðhaldi, endurnýjun og upptöku varnargirðinga vegna dýrasjúkdóma hefur verið útvistað til verktaka.
          Unnið hefur verið að gerð samninga við heilbrigðiseftirlit og sjálfstætt starfandi dýralækna um útgáfu hleðslustaðfestinga vegna eftirlits með útflutningi sjávar- og eldisafurða, auk kjöt- og mjólkurafurða.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Fyrir utan þau verkefni sem fyrr greinir hafa ekki verið kannaðir kostir og gallar þess að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana. Þegar um algerlega hlutlægar reglur er að ræða getur verið rétt að kanna að faggiltir aðilar sinni eftirliti. Slíkt hefur t.d. gengið vel varðandi bifreiðaskoðun, vottun lífrænnar matvælaframleiðslu o.fl. Ráðherra telur að útvistun eftirlitsverkefna kunni að vera hagkvæm og hyggst láta kanna hvort útvista megi verkefnum í ríkari mæli, t.d. í sambandi við endurskoðun á lögum um MAST. Þó ber að gera greinarmun á eftirliti sem felst í því annars vegar að ákvarða hvort aðilar uppfylli tiltekin hlutlæg viðmið og hins vegar eftirliti sem byggir á matskenndum reglum, sérstaklega þegar um er að ræða matskenndar hátternisreglur eins og getur komið upp í t.d. dýraverndunarmálum. Útvistun á síður við í tilfellum þar sem um huglægt mat er að ræða.