Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 267  —  43. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem heyra undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Samkeppniseftirlitið, Ferðamálastofa, Neytendastofa og Orkustofnun. Að auki heyra eftirlitsnefnd fasteignasala og endurskoðendaráð undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en rekstur nefndanna er fjármagnaður af aðilum starfandi í greinunum með greiðslu sérstakra eftirlitsgjalda.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Eftirfarandi tölur eru í milljónum króna og miðast við ríkisreikning hvers árs. Tölur 2016 miðast við fjárlög og fjáraukalög þar sem ríkisreikningur liggur ekki fyrir.

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Samkeppniseftirlitið 287,8 323,0 325,8 353,4 398,6 395,3 447,0
Ferðamálastofa 464,7 441,1 458,1 461,2 456,3 343,4 347,6
Orkustofnun 681,6 325,4 349,3 354,5 361,0 379,8 401,8
Neytendastofa 119,4 111,4 148,6 154,0 160,0 168,6 176,5
Eftirlitsnefnd fasteignasala 10,9 17,0 19,1 19,8 20,4 22,1 29,5
Endurskoðendaráð 6,5 8,3 22,4 20,0 10,7 20,8 22,2

     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?
    Eftirfarandi tölur eru í milljónum króna og miðast við ríkisreikning hvers árs 2010–2015 en áætlanir stofnana fyrir árið 2016 þar sem endanlegar tölur liggja ekki fyrir.

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Samkeppniseftirlitið 0,5 0,5 1,7 4,0 0,9 1,3 0,5
Ferðamálastofa 81,0 25,5 41,8 15,8 8,6 13,5 18,0
Orkustofnun 139,9 163,3 179,8 204,1 185,7 245,3 205,0
Neytendastofa 18,0 16,6 20,8 26,6 25,0 23,7 22,0
Eftirlitsnefnd fasteignasala 3,4 0,1 0,0 17,5 0,0 39,0 28,0
Endurskoðendaráð 14,3 15,4 14,4 15,6 15,6 15,2 15,9

     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
    Í lok árs 2010 störfuðu 23 hjá Samkeppniseftirlitinu í 22 stöðugildum og í lok árs 2016 störfuðu 25 hjá eftirlitinu í 22,575 stöðugildum.
    Í lok árs 2010 störfuðu 11 starfsmenn í fullu starfi hjá Ferðamálastofu og einn með 90% starfshlutfall. Í lok árs 2016 störfuðu 14 starfsmenn í fullu starfi hjá Ferðamálastofu, einn með 85% starfshlutfall og einn með 75% starfshlutfall.
    Í lok árs 2010 störfuðu 37 hjá Orkustofnun og þar af voru starfsmenn Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sex talsins. Í lok árs 2016 störfuðu 42 hjá Orkustofnun og þar af voru 5 starfsmenn Jarðhitaskólans.
    Í lok árs 2010 störfuðu 18 hjá Neytendastofu í tæplega 17 stöðugildum. Í lok árs 2016 störfuðu 15 hjá Neytendastofu í tæplega 14 stöðugildum. Eftirlitsnefnd fasteignasala hafði einn starfsmanna í upphafi árs 2010 og einn í lok árs 2016. Endurskoðendaráð hafði engan starfsmann í upphafi árs 2010 og einn í lok árs 2016.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Neytendastofa hefur útvistað þjónustu við löggildingu mælitækja, þ.e. einkum voga og eldsneytisdælna o.fl., til Frumherja. Þjónusta fyrirtækisins felst í því að prófa vogir, dælur og tæki reglubundið og veita þeim endurlöggildingu á 1–2 ára fresti, eftir því sem lög kveða á um.
    Engum eftirlitsverkefnum hefur verið útvistað til annarra aðila frá Samkeppniseftirliti, Ferðamálastofu, Orkustofnun, eftirlitsnefnd fasteignasala og endurskoðendaráði.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Ekki hafa verið kannaðir kostir og gallar þess að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana, hvorki að hluta né að öllu leyti. Hins vegar hafa á undanförnum árum verið kannaðir kostir og gallar þess að sameina stofnanir sem hafa m.a. eftirlitsskyldum að gegna. Þannig fékk ráðuneytið Capacent til að vinna fýsileikakönnun á sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar og kom skýrsla um efnið út í ágúst 2015.
    Ráðherra telur að útvistun einstakra eftirlitsverkefna geti verið skynsamleg í ákveðnum tilvikum en það þarf að skoða vel og leggja mat á hvert tilvik fyrir sig. Slík útvistun eftirlitsverkefna getur verið skynsamleg í þeim tilvikum þar sem um hreinar hlutlægar reglur er að ræða þar sem ekki er svigrúm til huglægs mats. Dæmi um útvistun slíkra eftirlitsverkefna er löggilding mælitækja sem er á ábyrgð Neytendastofu. Það kann að vera rétt að útvista fleiri slíkum verkefnum og þá er jafnframt mikilvægt að þeim sé útvistað til faggiltra aðila sem hafa þannig sýnt fram á hæfni til að sinna viðkomandi eftirliti. Í öðrum tilvikum, þegar eftirlit felur í sér eftirlit á grundvelli matskenndra reglna, á útvistun þess síður við og það á enn fremur við þegar um matskenndar hátternisreglur er að ræða.