Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 275  —  104. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Pawel Bartoszek um umsagnir um atvinnuleyfi útlendinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve oft var óskað umsagnar stéttarfélags eða landssambands launafólks um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga árlega 2010–2016, hversu margar umsagnir voru veittar hvert ár og hversu margar þeirra voru jákvæðar og hversu margar neikvæðar?

    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun lágu fyrir umsagnir frá stéttarfélögum vegna 3.849 umsókna um tímabundin atvinnuleyfi hér á landi á umræddu tímabili. Í því sambandi bendir Vinnumálastofnun þó á að hvorki liggja fyrir upplýsingar um í hversu mörgum tilvikum umræddar umsagnir fylgdu með umsóknum um tímabundin atvinnuleyfi þegar slíkar umsóknir bárust stofnuninni né í hversu mörgum tilvikum Vinnumálastofnun óskaði sérstaklega eftir umræddum umsögnum eftir að slíkar umsóknir höfðu borist stofnuninni.
    Af fyrrnefndum 3.849 umsögnum var um að ræða 573 umsagnir á árinu 2010, þar af voru 538 umsagnir jákvæðar en 35 neikvæðar. Á árinu 2011 voru umsagnirnar 545 talsins, þar af voru 484 umsagnir jákvæðar en 61 umsögn neikvæð. Á árinu 2012 voru umsagnirnar 435 talsins, þar af voru 374 umsagnir jákvæðar en 61 umsögn neikvæð. Á árinu 2013 var um að ræða 380 umsagnir, þarf af voru 330 umsagnir jákvæðar en 50 umsagnir neikvæðar. Umsagnirnar voru 440 talsins á árinu 2014 en þar af voru 392 umsagnir jákvæðar og 48 neikvæðar. Á árinu 2015 var um að ræða 561 umsögn, þar af voru 507 umsagnir jákvæðar en 54 umsagnir neikvæðar. Á árinu 2016 lágu fyrir 915 umsagnir vegna umsókna um tímabundin atvinnuleyfi, þar af voru 783 umsagnir jákvæðar en 132 neikvæðar.
    Á umræddu tímabili var því um að ræða samtals 3.408 jákvæðar umsagnir og 441 neikvæða umsögn af þeim 3.849 umsögnum stéttarfélaga sem lágu fyrir vegna umsókna um tímabundin atvinnuleyfi.