Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 332  —  240. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum (nýskráning fyrirtækja).

Flm.: Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Andri Þór Sturluson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „250.000 kr.“ í 1. og 3. tölul. kemur: 50.000 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „124.500 kr.“ í 2. tölul. kemur: 10.000 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „66.500 kr.“ í 4. tölul. kemur: 5.000 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „83.000 kr.“ í 5. tölul. kemur: 10.000 kr.
     e.      Í stað fjárhæðarinnar „124.500 kr.“ í 7. tölul. kemur: 40.000 kr.
     f.      Í stað fjárhæðarinnar „16.500 kr.“ í 14. og 15. tölul. kemur: 10.000 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmið frumvarps þessa er að draga úr kostnaði við nýskráningu fyrirtækja. Skráning á fyrirtækjum er talsvert dýr á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd. Þannig kostar t.d. allt niður í 12 pund að skrá fyrirtæki í Bretlandi og 10 evrur í Þýskalandi, þó háð magni hlutafjár.
    Mikill kostnaður við nýskráningu fyrirtækja dregur úr líkum á því að sprotafyrirtæki séu skráð á frumstigum starfseminnar sem aftur dregur úr getu ríkisins til að fylgjast með þróun atvinnu og nýsköpunar.
    Kostnaður ríkisins við nýskráningu fyrirtækja er mjög lítill og felst einkum í staðlaðri pappírsvinnu. Hann getur orðið því sem næst enginn með aukinni rafrænni skráningu. Núverandi gjöld fyrir skráningu fyrirtækja eru því í reynd sértekjur sem nýtast til að niðurgreiða aðra starfsemi. Verði frumvarpið að lögum minnkar umfang þeirrar niðurgreiðslu verulega. Gjöldin verða nógu lág til þess að enginn þurfi að veigra sér við því að skrá fyrirtæki vegna kostnaðar en þó áfram nokkur til að vinna gegn því að félög séu stofnuð til þess eins að dylja tilteknar ráðstafanir.
    Ekki er ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð en fyrirséð er að tekjutap ríkissjóðs yrði nokkurt. Miðað við árið 2016 má gróflega áætla að tekjutapið nemi 306.457.000 kr. Ætla má að jákvæð efnahagsleg áhrif þess að greiða fyrir stofnun fyrirtækja stækki þó skattstofna sem mæti tekjutapinu að hluta til.