Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 346  —  38. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir innanríkisráðuneytisins sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Samgöngustofa og Póst- og fjarskiptastofnun.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?

Póst- og fjarskiptastofnun Samgöngustofa
2010 0 kr. 1.033.100.000 kr.
2011 2.500.000 kr. 929.200.000 kr.
2012 10.000.000 kr. 788.300.000 kr.
2013 5.000.000 kr. 853.767.000 kr.
2014 5.000.000 kr. 694.300.000 kr.
2015 5.000.000 kr. 735.900.000 kr.
2016 5.000.000 kr. 622.100.000 kr.

     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?

Póst- og fjarskiptastofnun Samgöngustofa
2010 3.871.336 kr. 641.229.000 kr.
2011 4.445.065 kr. 553.495.000 kr.
2012 7.051.651 kr. 706.859.000 kr.
2013 13.072.493 kr. 624.833.000 kr.
2014 15.074.244 kr. 565.741.000 kr.
2015 19.279.462 kr. 561.473.000 kr.
2016 22.259.366 kr. 469.254.000 kr

     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
     Póst- og fjarskiptastofnun.
    Heildarfjöldi starfsmanna 31.12.2010 var 24 einstaklingar. Af þeim voru sex starfsmenn í 5 stöðugildum í stoðþjónustu.
    Heildarfjöldi starfsmanna 31.12.2016 var 23 einstaklingar. Af þeim voru fjórir starfsmenn í 3,65 stöðugildum í stoðþjónustu.
    Í byrjun árs 2011 var sett á stofn ný eining innan stofnunarinnar, CERT-ÍS. Starfsmenn í sveitinni hafa verið 2–3 frá þeim tíma. 31.12.2016 voru starfsmenn 2 í 2 stöðugildum.
     Samgöngustofa.
    Árið 2010 var sú starfsemi sem nú er fyrirkomið í Samgöngustofu hýst hjá Flugmálastjórn, Umferðarstofu, að hluta til hjá Siglingastofnun og að hluta til hjá Vegagerðinni. Hinn 1. júlí 2013 tók Samgöngustofa til starfa. Þann dag fluttust framkvæmdaverkefni frá Siglingastofnun til Vegagerðarinnar.
    Með samruna stjórnsýsluverkefna samgangna í eina stofnun, Samgöngustofu, náðist umtalsverð hagræðing í yfirstjórn, miðlægri starfsemi og stoðþjónustu, svo sem fjármálum, upplýsingatækni, skjalavörslu, lögfræðiþjónustu og afgreiðslu þjónustudeildar.
    Ekki liggja fyrir samanburðarhæfar tölur um fjölda starfsmanna í einstökum þáttum þessara verkefna milli áranna 2010 og 2016.
    Í árslok 2016 störfuðu hjá Samgöngustofu alls 143 starfsmenn í um 135 stöðugildum.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
     Póst- og fjarskiptastofnun.
    Stofnunin hefur um árabil keypt talsvert mikið af sérfræðiþjónustu af almennum markaði til að vinna ýmis sérhæfð eftirlitsverkefni undir stjórn stofnunarinnar. Hefur það verið gert annars vegar til að jafna álag á sérfræðinga stofnunarinnar og hins vegar þegar tiltekna sérþekkingu hefur skort.
    Sérfræðiverkefni sem útvistað er, alfarið eða eftir aðstæðum hverju sinni:
          þýðingar vegna ESA/EES samráð – alfarið,
          lögfræðiþjónusta vegna dómsmála (í öðrum tilvikum en þegar ríkislögmaður tekur málið),
          hag- og verkfræðileg þjónusta vegna markaðs- og kostnaðargreininga.
    Stoðþjónusta sem útvistað hefur verið:
          símsvörun,
          rekstur upplýsingakerfa,
          innheimta,
          ræstingar.
    Skoðun radíóbúnaðar um borð í skipum sem eru styttri en 24 metrar hefur verið útvistað. Er um að ræða meginhluta skipaflotans eða um 1.300 báta og smærri skip.
    Unnið er að útvistun á skoðun stærri skipa sem hefur verið á hendi Póst- og fjarskiptastofnunar. Ekki er á þessari stundu ljóst hvort fýsilegt er að útvista skoðuninni, það veltur annars vegar á því að einungis eru skoðuð rúmlega 200 skip á ári og hins vegar á ströngum alþjóðlegum kröfum til slíkra skoðana, bæði hvað varðar faggildingu og kvarðaðan mælabúnað.
    Það hefur verið stefna stofnunarinnar að kaupa sérfræðiþjónustu til að jafna álag á sérfræðinga stofnunarinnar eða ef tiltekna þekkingu skortir hjá stofnuninni. Þetta stuðlar að betri nýtingu starfsmanna og er hagkvæmt með tilliti til þekkingaruppbyggingar, sem í tilviki Póst- og fjarskiptastofnunar getur verið íþyngjandi í ljósi örrar þróunar á markaði.
    Samgöngustofa.
    Hvað varðar útvistun verkefna Samgöngustofu þá er skoðun á ökutækjum útvistað, einnig skipaskoðunum að hluta. Framkvæmd ökuprófa hefur verið útvistað um árabil og nýlokið er útboði, í umsjón Ríkiskaupa, á þeim verkþætti.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Ekki hafa verið kannaðir aðrir kostir en þeir sem nú þegar eru komnir til framkvæmda og tilgreindir eru í svörum við 5. lið fyrirspurnarinnar.