Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 348  —  136. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um styttingu biðlista.


     1.      Hvernig hefur tekist að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum samkvæmt samningi við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum?
    Með átakinu var fjöldi aðgerða af þeim tegundum sem féllu undir átakið aukinn umtalsvert. Því er ljóst að biðlistar hafa styst mikið frá því sem verið hefði án átaksins. Hins vegar hefur aukin eftirspurn eftir þjónustu dregið úr styttingu biðlista. Í töflu hér á eftir sést fjölgun aðgerða vegna átaksins frá þeim fjölda sem fyrirhugað var að framkvæma á árinu 2016 hjá þeim aðilum sem tóku þátt í átakinu. Tekið skal fram að Lasersjón tók aðeins þátt í átakinu þegar komið var að lokum þess.

          Tafla I.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflu II er heildarfjöldi á biðlista og fjöldi þeirra sem beðið höfðu eftir aðgerð lengur en þrjá mánuði í október 2015 og 2016.
    Tafla II.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef skoðaðar eru saman töflur I og II sést að ef ekki hefði verið gripið til þessa átaks hefði fjöldi sjúklinga sem beið eftir aðgerð lengur en þrjá mánuði verið umtalsvert meiri. Þriggja mánaða biðtími er viðmið sem embætti landlæknis hefur sett sem ásættanlega bið eftir umræddum aðgerðum. Fjöldi á biðlista eftir augasteinsaðgerðum lækkaði úr 3.895 í 3.140 eða um 755 á þessu 12 mánaða tímabili. Ekki náðist sá árangur sem stefnt var að um styttingu biðlista eftir kransæðavíkkunum en á þeim biðlista fjölgaði um 74 á tímabilinu. Helsta ástæða þess að ekki var unnt að framkvæma fleiri aðgerðir var mönnunarvandi á Landspítala. Fækkað hefur um 30 á biðlista eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm og um 48 þegar horft er á þá sem biðu lengur en í þrjá mánuði. Samsvarandi tölur fyrir gerviliðaaðgerðir á hné eru fækkun um 40 og 75.

     2.      Hver voru uppsett markmið á árinu 2016 og hvernig tókst stofnunum að framfylgja þeim?
    Meginmarkmið átaksins er að stytta bið eftir aðgerðum niður í þrjá mánuði á þeim árum sem átakið stendur yfir, þ.e. árin 2016, 2017 og 2018. Áhersla var lögð á að átakið leiddi ekki til fækkunar annarra aðgerða. Til að styðja við það markmið brugðust stofnanir við með aukinni mönnun, uppbyggingu aðstöðu, kaupum á tækjabúnaði og nýtingu á umframafkastagetu þar sem hún var til staðar.
    Markmið sem sett voru um fjölda aðgerða árið 2016 náðust ekki að fullu. Sé hins vegar litið til þess að átakið hófst ekki fyrr en með vorinu og að talsverður tími fór í að byggja upp nýja aðstöðu og koma upp nýjum búnaði auk þess sem bráðahlutverk sjúkrahúsanna hafði í einhverjum tilvikum þau áhrif að aðgerðirnar þurfu að víkja fyrir bráðaaðgerðum má telja árangur af átakinu mjög góðan.
    Árið 2016 náðist að framkvæma 92% af fyrirhuguðum fjölda liðskiptaaðgerða, 85% augasteinsaðgerða en aðeins 24% hjartaþræðinga. Þess ber að geta að hjartaþræðingar voru aðeins um 2% af kostnaði við átakið miðað við upphaflegar áætlanir og um 0,5% af raunkostnaði átaksins árið 2016.

     3.      Hvað greiddi ráðuneytið hverri stofnun fyrir sig fyrir hverja aðgerð?
    Í töflu III kemur fram það sem greitt var fyrir hverja aðgerð á hverri stofnun og fyrirtæki sem tóku þátt í átakinu. Þar sem greitt var sérstaklega fyrir stofnkostnað í formi tækjabúnaðar eða aðstöðu er einnig birt verð á aðgerð án stofnkostnaðar. Varðandi verðlagningu skal vakin athygli á því að sérhæfðu sjúkrahúsin tóku að sér erfiðari liðskiptaaðgerðir.

    Tafla III.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hvaða áhrif hefur átakið haft á biðlista eftir fyrrgreindum aðgerðum á hverri stofnun fyrir sig?

             Þessi áhrif sjást í töflu II.
            
     5.      Er framhald áformað á þessu verkefni? Ef svo er, hve miklum fjármunum verður varið til verkefnisins annars vegar árið 2017 og hins vegar árið 2018?
    Frá upphafi var ákveðið að átakið næði til áranna 2016–2018 með fjölgun aðgerða fyrir 840 millj. kr. hvert ár.

     6.      Hyggst ráðherra stytta biðlista eftir fleiri flokkum aðgerða? Ef svo er, hvernig verður það útfært?
    Á árinu 2017 verða í átakinu framkvæmdar sömu aðgerðir og á árinu 2016 að viðbættum tveimur tegundum aðgerða í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis. Þær aðgerðir eru brottnám legs og valdar aðgerðir á grindarbotnslíffærum kvenna.