Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 372  —  90. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um málefni lánsveðshóps.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að leitað verði leiða til að rétta hlut svonefnds lánsveðshóps, þ.e. þeirra einstaklinga sem höfðu fengið lánað veð í fasteign annars aðila sem tryggingu fyrir veðlánum sínum og fengu af þeim sökum ekki sambærilega lausn sinna mála og aðrir yfirveðsettir eða skuldugir fasteignaeigendur í aðgerðum eftir efnahagshrunið haustið 2008?
     2.      Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á stöðu lánsveðshópsins með það að markmiði að leiða í ljós hvernig hann er settur nú samanborið við þá sem fengu úrlausn skuldamála sinna með aðgerðum sem beitt var á síðustu tveimur kjörtímabilum?
     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að virkja að nýju samkomulag við lífeyrissjóði um aðgerðir í þágu lánsveðshópsins?


    Málefni þess hóps sem fékk lán fyrir efnahagshrunið haustið 2008 með veði í fasteign í eigu annars aðila hafa verið til umræðu í samfélaginu öðru hvoru og komið til umfjöllunar á Alþingi nokkrum sinnum. Í greinargerð sérfræðingahóps, sem fengið var það verkefni að gera grein fyrir lánsveðum og aðstæðum þeirra sem þau höfðu notað, kom fram að frá árinu 2000–2011 hefði um tíundi hver kaupsamningur verið fjármagnaðar að hluta með lánsveði, samtals um 10.000 samningar. Hlutfall slíkra samninga var hæst strax eftir aldamótin og fór lækkandi árin sem fasteignamarkaðurinn var í mestri uppsveiflu fram til ársins 2005 og svo aftur 2007. Í greiningu sérfræðingahópsins kemur fram að hjá sjö stærstu lífeyrissjóðunum voru tæplega sjö þúsund lánsveðsskuldarar og með samkeyrslu við gögn ríkisskattstjóra sást að tæplega 4.000 þeirra höfðu notað lánsveðið til kaupa á fasteign. Rúmlega 40% höfðu notað lánsveðin til annars. Heildarfjárhæð lánsveða, sem notuð höfðu verið til fasteignakaupa, nam 14 milljörðum kr. árið 2011. Af þeim hópi sem hafði notað lánsveðin til fasteignakaupa voru rétt tæp 2.000 með veðsetningu sem var yfir 110% af verðmæti fasteignar. Sá hópur hefði getað notið afskrifta samkvæmt starfsreglum sem giltu um svokallaða 110%-leið sem gætu hafa numið tæpum 8 milljörðum kr. Reynslan hefur sýnt að margir fengu mun hærri afskrift lána en reglurnar sögðu til um, m.a. vegna þess að einhver hluti lána þeirra var gengistryggður og því er erfitt að segja til um hvað þessir skuldarar fengu niðurfellt í raun. Helsti vandi skuldaranna og stjórnvalda í samskiptum við lánardrottna voru lán þar sem veð fyrir lánum voru tryggð en greiðslugeta brostin. Bankarnir aðstoðuðu viðskiptavini sína sem voru með lánsveð að einhverju leyti og því sneri þetta vandamál fyrst og fremst að lífeyrissjóðunum sem var og er ógerlegt að gefa eftir trygg lán.
    Árið 2010 var embætti umboðsmanns skuldara stofnað. Árið 2011 var samþykkt breyting á lögum um hina svokölluðu 110%-leið. Í mars 2013 voru samþykkt lög um sérstakar vaxtabætur til handa þeim sem höfðu tekið lán vegna fasteignakaupa með veði í eign þriðja aðila. Til að greiða þessar bætur voru ætlaðar 500 millj. kr. en þegar til átti að taka voru einungis greiddar 125 millj. kr af þeirri upphæð.
    Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við haustið 2013 réðist hún í almenna lækkun höfuðstóls verðtryggðra fasteignalána. Til þess var varið um 80 milljörðum kr. og í þeirri aðgerð skipti veðsetning ekki máli. Því sátu þeir sem höfðu fengið lánuð veð við sama borð og aðrir.
    Þegar upp er staðið er alls óljóst hvort þeir sem fengu veð að láni til að kaupa fasteign hafi fengið miklu lakari úrlausn sinna mála en aðrir í kjölfar efnahagshrunsins. Þeir gátu að sönnu ekki fengið lán niðurfelld ef veðsetning var undir 110% af verðmæti fasteignar og það hefur væntanlega átt við um marga sem heimiluðu börnum sínum eða öðrum nákomnum ættingjum að veðsetja skuldlitlar eignir sínar. Það var eitt form af mörgum sem notað var til að hjálpa ungu fólki til að koma sér þaki yfir höfuðið.
    Stjórnvöld hafa fylgst með þróun mála, m.a. komið á hinni svo kölluðu Velferðarvakt sem hefur starfað síðan efnahagshrunið varð og Hagstofunni var fengið það verkefni að vakta skuldastöðu heimilanna með reglubundnum hætti. Ein birtingarmynd þeirrar þróunar sem orðið hefur frá því staðan var verst er að árið 2010 voru 25.000 fjölskyldur með neikvætt eigið fé í fasteign, alls 166 milljarða kr. skuldir umfram eignir. Árið 2015 voru rúmlega 7.000 fjölskyldur í þeirri stöðu með 36 milljarða kr. neikvætt eigið fé í fasteign.
    Brátt verður liðinn áratugur frá því að tilefnið að grípa til aðgerða til að koma skuldugum fasteignaeigendum til aðstoðar varð til. Á þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og aðstæður allra sem í hlut eiga, bæði þeirra sem fengu lækkun skulda og hinna, hafa breyst og það jafnvel mjög mikið. Fasteignaverð hækkað á svæðum þar sem húsnæðisverð var hæst fyrir, og þrátt fyrir að það hafi ekki verið aðgerð af hálfu ríkisins voru sum form gengislána dæmd ólögleg árið 2012. Þegar allt er tekið saman er nær ómögulegt og í öllu falli mjög flókið að grípa til aðgerða sem að gagni mættu koma og stæðust kröfur um jafnræði.
    Af framangreindu má ráða að hópurinn er fjölbreyttur og mjög mismunandi er hvernig honum hefur reitt af síðasta áratuginn. Ítarlegri úttekt á högum hópsins og samsetningu nýttist best ef útlit væri fyrir að hægt væri að grípa til aðgerða á grundvelli slíkrar úttektar. Ekki er útlit fyrir það.
    Í desember 2013 lýsti þáverandi fjármálaráðherra því yfir að ekki yrði staðið við samkomulagið sem vísað er til, enda var þá í bígerð að ráðast í almenna leiðréttingu á höfuðstóli lána, þar á meðal þeirra með lánsveð. Virkjun samkomulagsins yrði á kostnað almennings enda er lífeyrissjóðunum ekki heimilt að gefa eftir skuldir. Þeim fjármunum er að mati ráðherra betur varið til samfélagslegra verkefna.
    Að þessu öllu sögðu er þó óumdeilt að margir lentu í miklum fjárhagslegum kröggum í bankahruninu. Þær aðgerðir og þeir atburðir sem gerst hafa síðan hafa ekki allar verið réttlátar eða skilað tilætluðum árangri. Margt fólk kann að hafa setið eftir og er því skiljanlega og réttilega sárt yfir því hvernig staða þeirra er nú samanborið við samferðafólk sitt eða þau sem á undan eða eftir fóru inn á fasteignamarkaðinn. Það breytir ekki því að úr því sem komið er er mikilvægast að líta fram á veginn og tryggja að lífskjör hér verði sambærileg við það sem tíðkast í nágrannalöndum, þar á meðal hvað varðar kostnað við húsnæðiskaup og stöðugleika í efnahagslífi.