Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 384  —  165. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um útflutning á raforku.


     1.      Hefur ráðherra mótað stefnu varðandi útflutning á raforku? Ef svo er, hver er sú stefna?
    Ekki hefur verið mótuð stefna varðandi útflutning á raforku.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sæstrengur verði lagður og útflutningur hafinn á raforku?
    Í júlí 2016 skilaði verkefnisstjórn sæstrengs skýrslum til þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Meðal þess sem þær skýrslur fela í sér er heildstæð kostnaðar- og ábatagreining og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf, kortlagning á eftirspurn eftir raforku næstu árin, raforkuþörf sæstrengs og hvernig mæta eigi henni, mat á afgangsorku, áhrif á flutningskerfi raforku, ýmis tæknileg atriði, mat á nýtingu jarða og rekstri smærri virkjana, umhverfisáhrif, þróun orkustefnu Evrópusambandsins og reynsla Noregs.
    Jafnframt skilaði verkefnisstjórn sæstrengs sérstakri skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands, en þær viðræður hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna í október 2015.
    Á vegum nýrrar ríkisstjórnar er verið að fara yfir þá vinnu sem þegar liggur fyrir að því er mögulegan sæstreng varðar. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver næstu skref í því máli kunna að verða.

     3.      Hefur ráðherra átt fundi með aðilum sem hafa áhuga á lagningu sæstrengs frá Íslandi í þeim tilgangi að selja raforku til Evrópu?
    Ráðherra hefur átt einn fund með erlendum aðila sem lýst hefur áhuga á lagningu sæstrengs frá Íslandi og var sá fundur haldinn að beiðni þess aðila. Um er að ræða fyrirtækið Atlantic Super Connection.