Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 419  —  307. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987,
með síðari breytingum (bílastæðagjöld).


Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


1. gr.

    Í stað 2. mgr. 83. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar, þ.m.t. á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Reglur um notkun stöðureita á landi í umráðum sveitarstjórnar þurfa samþykki lögreglustjóra. Reglur um notkun stöðureita á þjóðlendum skulu samþykktar af ráðherra er fer með málefni þjóðlendna.
    Sveitarstjórn innheimtir gjald skv. 2. mgr. á stöðureitum á landi í umráðum hennar og á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Samþykki ráðherra er fer með málefni þjóðlendna þarf fyrir gjaldtöku innan þeirra.
    Að fengnu samþykki ráðherra er fer með málefni ríkisjarða og lands í eigu ríkisins er ráðherra heimilt að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins, öðru en þjóðlendum og náttúruverndarsvæðum.
    Ráðherra innheimtir gjald skv. 4. mgr. eða felur öðrum að sjá um innheimtuna með samningi.
    Fjárhæð gjalds samkvæmt þessari grein miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, og gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki. Gjaldskrá skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. mgr. 83. gr.“ í f-lið 1. mgr. kemur: 2. og 4. mgr. 83. gr.
     b.      Í stað orðanna „varið til að gera og reka bifreiðastæði og bifreiðageymslur til almenningsnota“ í 3. mgr. kemur: varið til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita og bifreiðageymslna til almenningsnota, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Breytingarnar fela í sér að heimilt verður fyrir ráðherra og sveitarstjórnir að setja reglur um og innheimta gjald fyrir notkun stöðureita (bílastæða) og þjónustu sem henni tengist, svo sem viðveru bílastæðavarða og salernisaðstöðu. Þegar land er í umráðum ríkisins er það ráðherra að setja reglur um og innheimta fyrir notkun stöðureita en í þeim tilvikum þar sem land er í eigu sveitarfélaga er það sveitarstjórnar að setja reglur um og innheimta fyrir notkun stöðureita.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjöldi ferðamanna hefur vaxið ört á undanförnum árum. Í takt við aukinn fjölda eykst nauðsyn á frekari uppbyggingu innviða víðs vegar um landið. Mikilvægt er m.a. að huga að aðstöðu við ferðamannastaði, bílastæðum, gæslu og öðrum aðbúnaði. Til að standa straum af kostnaði við slíka uppbyggingu og veitingu þjónustu er lagt til að heimiluð verði innheimta gjalds fyrir notkun á stöðureitum (bílastæðum) og þjónustu sem henni tengist. Í umferðarlögum er ekki að finna almenna heimild til gjaldtöku fyrir notkun stöðureita. Einungis er þar heimild fyrir sveitarfélög til að innheimta gjöld fyrir notkun stöðureita í kaupstöðum og kauptúnum. Hins vegar er þar ekki heimild til að innheimta gjöld fyrir notkun stöðureita utan kaupstaða og kauptúna. Ljóst er að nauðsynlegt er að ráðast í breytingu á umferðarlögum standi vilji til að innheimta gjöld á stöðureitum utan þéttbýlis. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri gjaldtöku nánar í reglugerð í þeim tilvikum sem land er í umráðum ríkis. Sveitarstjórn útfærir hins vegar gjaldtökuna þegar land er í þeirra umráðum, þ.m.t. á þjóðlendum. Reglur um gjaldtöku á þjóðlendum skulu staðfestar af þeim ráðherra er fer með málefni þeirra en reglur sveitarstjórnar um aðra stöðureiti skulu staðfestar af lögreglustjóra.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í 83. gr. umferðarlaga er að finna ákvæði um stöðukort og stöðureiti (bílastæði) og gjaldheimtu á vegum sveitarfélaga. Gjaldtökuheimild fyrir bílastæði innan kaupstaða og kauptúna er í 2. mgr. 83. gr. en þar segir: „Í kaupstað eða kauptúni er sveitarstjórn heimilt, að fengnu samþykki lögreglustjóra, að setja reglur um notkun stöðureita og gjald fyrir hana.“ Gjaldtökuheimildin er einskorðuð við kaupstaði og kauptún. Því er ekki hægt að byggja gjaldtöku t.d. á ferðamannastöðum í umráðum ríkis eða sveitarfélaga utan kaupstaða og kauptúna á heimildinni. Rétt er að geta að heimild til innheimtu þjónustugjalda er að finna í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, og lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Heimild til gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu nær ekki til náttúruverndarsvæða.. Hins vegar skortir almenna heimild í umferðarlög til innheimtu gjalda á landsvæðum í umráðum sveitarfélaga og ríkis fyrir stöðureiti (bílastæði).
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um notkun stöðureita utan kaupstaða og kauptúna ólíkt því sem umferðarlögin heimila nú. Ákvæðið heimilar jafnframt innheimtu gjalds fyrir notkun á stöðureitum á landsvæðum sveitarfélaga og þjónustu sem henni tengist. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir útfæri gjaldtökuna nánar í reglum, staðfestum af lögreglustjóra, líkt og lögin gera ráð fyrir að því er varðar gjaldtöku innan kaupstaða og kauptúna.
    Í öðru lagi er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að ákveða gjaldtöku á stöðureitum á þjóðlendum í þeirra umráðum, sem samræmist annarri gjaldtöku sveitarstjórna samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Reglur og ákvörðun um slíka gjaldtöku skal samþykkt af ráðherra sem fer með málefni þjóðlendna.
    Í þriðja lagi er lögð til ný 4. mgr. í 83. gr. umferðarlaga. Ákvæðið kveður á um að ráðherra geti ákveðið gjald fyrir notkun stöðureita og þjónustu sem henni tengist á landsvæði í umráðum ríkisins með samþykki ráðherra er fer með málefni ríkisjarða og lands í eigu ríkisins ef frá eru taldar þjóðlendur og náttúruverndarsvæði. Ekki er gert ráð fyrir að heimildin nái til þeirra svæða sem falla innan náttúruverndarsvæða eða þjóðgarða. Heimild til að setja reglugerð er í ákvæðinu og er gert ráð fyrir að útfærsla gjaldtökunnar verði nánar ákveðin þar.
    Í fjórða lagi er lögð til ný 6. mgr. 83. gr. umferðarlaga. Þar er kveðið á um hvaða kostnaði gjaldið skuli standa undir. Er gert ráð fyrir að nýta megi gjöldin til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu og gerð og viðhaldi göngustíga og vegtenginga.
    Í fimmta lagi er lögð til breyting á 108. gr. umferðarlaga með það að markmiði að ákvæði um stöðubrotsgjöld taki til nýrrar 2. og 4. mgr. 83. gr., þ.e. ef gjald er ekki greitt er heimild til að sekta viðkomandi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Samráð var haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Einnig var haft samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Fyrirhuguð er gjaldtaka í Vatnajökulsþjóðgarði á grundvelli laga nr. 60/2007 og er gjaldtaka nú þegar hafin á grundvelli laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004. Að ósk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins var horfið frá því að heimild ráðherra til að setja reglur um notkun stöðureita og taka gjald fyrir hana á grundvelli umferðarlaga næði til náttúruverndarsvæða. Þá var frumvarpið jafnframt birt til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Umsagnir bárust annars vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar Bílastæðasjóði Reykjavíkur. Báðir umsagnaraðilar töldu breytingar á umferðarlögum jákvæðar.
    Í umsögn Bílastæðasjóðs Reykjavíkur var vikið að heimild stöðuvarða til að leggja á gjald við stöðubrotum og lagt til að útvíkka þá heimild til 28. gr. umferðarlaga. Samkvæmt núgildandi lögum getur lögregla aðeins sektað vegna brota á 28. gr. umferðarlaga. Þar sem um matskenndari brot en önnur stöðubrot er að ræða telur ráðuneytið ekki ástæðu til að heimila stöðuvörðum að leggja á gjöld samkvæmt ákvæðinu.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var bent á að tryggja þyrfti heimild sveitarstjórna til að ráðstafa stöðubrotsgjöldum í almenna uppbyggingu stöðureita, t.d. utan þéttbýlis. Í samræmi við ábendingu Sambands íslenskra sveitarfélaga var nýjum málslið bætt við 3. mgr. 108. gr. umferðarlaga. Í honum er kveðið á um að heimilt sé að láta stöðubrotsgjöld standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita og bifreiðageymslna til almenningsnota, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu. Nýr málsliður er í samræmi við nýja 4. mgr. 83. gr. umferðarlaga.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir sveitarfélög eða ríki enda um heimildarákvæði að ræða. Verði hins vegar ákveðið að taka upp gjaldheimtu á bílastæðum í eigu ríkisins eða sveitarfélaga á grundvelli reglugerðar eða reglna gæti fallið til ákveðinn stofnkostnaður. Gjaldtökunni er hins vegar ætlað að standa undir þeim kostnaði. Það fer eftir fjölda staða og umfangi hver slíkur kostnaður verður. Gjald sem innheimt er af ríkinu skv. 5. mgr. rennur í ríkissjóð.
    Við mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, var samráð haft við Samband sveitarfélaga. Í frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um notkun stöðureita utan kaupstaða og kauptúna ólíkt því sem lögin heimila nú. Heimiluð verður innheimta gjalds fyrir notkun á stöðureitum og þjónustu sem henni tengist. Um heimildarákvæði er að ræða en gjaldtaka yrði nánar útfærð í reglum á vegum sveitarfélaga sem staðfestar yrðu af lögreglustjóra. Það er mat ráðuneytisins að breytingin hafi ekki áhrif á útgjöld sveitarfélaga enda um heimildarákvæði að ræða. Ákveði eitthvert sveitarfélag að nota heimildina getur það nýtt innheimt gjöld til að standa straum af þeim kostnaði sem af gjaldtökunni hlýst. Þessi niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við niðurstöðu ráðuneytisins.
    Verði heimild til gjaldtöku nýtt á bílastæðum við ferðamannastaði hefur það áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki og ferðamenn, þ.e. þá sem munu nýta þjónustuna og greiða fyrir stæðin.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í nýrri 2. mgr. 83. gr. er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur um gjaldtöku á stöðureitum á landsvæðum í þeirra eigu utan kaupstaða og kauptúna sem og innan þjóðlendna. Líkt og áður þarf lögreglustjóri að samþykkja reglur sveitarstjórnar vegna stöðureita á landi í umráðum sveitarstjórnar. Að því er varðar þjóðlendur er gert ráð fyrir að ráðherra er fer með málefni þjóðlendna samþykki reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku innan þeirra.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sveitarstjórn skuli annast innheimtu gjaldsins sem kveðið er á um í 2. mgr. Gert er ráð fyrir samþykki ráðherra er fer með málefni þjóðlendna fyrir gjaldtöku innan þjóðlendna.
    Í 4. mgr. er ráðherra heimilað að ákveða gjald fyrir notkun stöðureita og þjónustu sem henni tengist á landsvæðum í umráðum ríkisins í reglugerð. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að ákveða töku bílastæðagjalda innan þjóðlendna og náttúruverndarsvæða.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ráðherra innheimti gjaldið en geti þó falið öðrum að annast innheimtuna með samningi.
    Í 6. mgr. eru afmarkaði þeir kostnaðarliðir sem gjaldinu er ætlað að standa undir.

Um 2. gr.

    Með þessari grein eru lagðar til breytingar á 108. gr. laganna til að heimild til álagningar stöðubrotsgjalda taki einnig til 4. mgr. 83. gr. Þá er breyting gerð á 4. málsl. 3. mgr. 108. gr. í samræmi við nýja 6. mgr. 83. gr. umferðarlaga, þ.e. að stöðubrotsgjald megi jafnframt nýta til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita og bifreiðageymslna til almenningsnota, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.