Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 425  —  134. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um spár um íbúðafjárfestingu.

    
    Þjóðhagsspá var unnin í fjármálaráðuneytinu fram til ársins 2009 þegar efnahagsspár ráðuneytisins voru fluttar til Hagstofu Íslands. Það fyrirkomulag er enn við lýði. Fjármála- og efnahagsráðherra leitaði eftir upplýsingum frá Hagstofu Íslands við vinnslu svarsins og byggir svar sitt á þeim

     1.      Hver hefur verið árleg spá Hagstofu Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytis og forvera þess á síðustu tíu árum um íbúðafjárfestingu og hver hefur verið reyndin?
    Í meðfylgjandi viðauka frá Hagstofu Íslands er að finna upplýsingar um þær spár Hagstofu Íslands um íbúðafjárfestingu sem birtar hafa verið á tímabilinu frá 16. janúar 2007 til nýjustu spár hennar sem birt var 17. febrúar síðastliðinn og nær yfir tímabilið frá 2017 til 2022. Jafnframt eru í viðaukanum tölur yfir endanlega mælingu Hagstofunnar á hverjum tíma. Spárnar og mælingarnar sýna breytingu á íbúðafjárfestingu frá fyrra ári (vöxt eða samdrátt). Fyrri taflan sýnir spár fyrir einstök ár og er sett upp þannig að spádagsetning er á lóðrétta ásnum en árið sem spáð er fyrir um er á lárétta ásnum. Einstakar tölur í töflunni sýna þá hvaða breytingu var spáð fyrir hvert ár á hverjum tíma. Seinni taflan er eins sett upp en þær tölur sem þar birtast eru mælingar Hagstofu á breytingu í íbúðafjárfestingu fyrir tiltekið ár frá fyrra ári á hverjum tímapunkti. Sjá má að mælingarnar taka breytingum frá því þær birtast fyrst. Það getur stafað af nýjum upplýsingum en einnig getur mat á fyrri árum haft áhrif á breytingu milli ára. Framan af þessu tíu ára tímabili var aðeins spáð til tveggja ára í senn en spátímabilið hefur verið að lengjast samhliða gerð fjármálaáætlana til lengri tíma. Í lögum um opinber fjármál sem tóku gildi 1. janúar 2016 er gert ráð fyrir fjármálaáætlun til 5 ára og hefur Hagstofan því lengt spátímabil sitt til samræmis við það.

     2.      Á hvaða gögnum byggðust fyrrgreindar spár?
    Spá um íbúðafjárfestingu tekur tillit til nokkurra þátta, má þar nefna hagvöxt, langtímaraunvexti, íbúðafjárfestingu á undangengnu ári og hlutfall á milli markaðsverðs og kostnaðarverðs. Að auki er tekið tillit til yfirstandandi og fyrirhugaðra framkvæmda samkvæmt upplýsingum frá samtökum fyrirtækja í byggingariðnaði og opinberum aðilum. Þá er horft til virðisaukaskattsveltu í greinum tengdum byggingariðnaði, gagna um vinnuaflsnotkun í byggingariðnaði og innflutningstalna um aðföng til byggingarframkvæmda. Í svörum sínum til ráðuneytisins bendir Hagstofan á að ýmsir vankantar séu í hagtölum tengdum greininni, m.a. hvað varðar gæði gagna, tímanleika og tíðni birtingar þeirra.

Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.