Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 439  —  321. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2016.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) á árinu 2016 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna tólftu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Ulan-Ude í Rússlandi 9.–11. júní. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.
    Á ráðstefnu þingmannanefndarinnar voru þrjú meginþemu valin af nefndarmönnum til sérstakrar umræðu og skýrslugerðar. Í fyrsta lagi var rætt um mannlífsþróun á norðurslóðum og sjónum m.a. beint að sjálfbærni og skyldu okkar til að huga að komandi kynslóðum með ábyrgð og nærgætni gagnvart umhverfinu að leiðarljósi. Í öðru lagi var rætt um samstarf á norðurslóðum í ljósi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París í desember 2015 (COP21). Lögð var áhersla á hlutverk stjórnvalda á norðurslóðum og mikilvægi þess að tryggja framtíð svæðisins sem heimilis íbúa þess. Í þriðja lagi fór fram umræða um ný tækifæri á norðurslóðum. Í umræðum og niðurstöðum skýrslu um efnið lögðu nefndarmenn megináherslu á mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru svæðisins.
    Í yfirlýsingu tólftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar er tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir því að skoðaðar verði nýjar leiðir til að virkja áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og losun kolefna. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika á svæðinu. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt, eflingu Norðurskautsráðsins og mikilvægi jafnréttismála á norðurslóðum.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2016 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins og ferðaþjónustu á norðurslóðum.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál (CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og sérfræðinga ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda. Í því sambandi var þingmannanefndin leiðandi í hugmyndavinnu fyrir ritun skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, Arctic Human Development Report (AHDR I), sem kom út undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 og seinna bindi skýrslunnar ( AHDR II) sem var gefin út seinni hluta árs 2014. Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem snertu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Þá færast mörk gróðurlendis æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki að jafnaði á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka enn á samstarf og skuldbindingar ríkjanna. Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Samningurinn er sögulegur þar sem um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt má segja að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við aukinni fyrirsjáanlegri umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þá var á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013 undirritaður samningur milli norðurskautsríkjanna átta um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2016 Jón Gunnarsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Egilsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2016.
    Þingmannanefndin hélt fimm fundi á árinu og tók Íslandsdeild þátt í þremur þeirra. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunnar í Ulan-Ude.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Stokkhólmi 3. mars 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Jón Gunnarsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru undirbúningur fyrir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin var í Rússlandi 14.–16. júní 2016, stefna Svíþjóðar í norðurskautsmálum og framkvæmd formennskuáætlunar Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Andres Jato, sendiherra norðurslóða hjá utanríkisráðuneyti Svíþjóðar, á stefnu Svíþjóðar í norðurslóðamálum. Jato lagði áherslu á mikilvægi friðar og stöðugleika og virðingar fyrir alþjóðalögum á svæðinu. Þá ræddi hann um skaðleg áhrif loftslagsbreytinga fyrir íbúa svæðisins og á heimsvísu. Hann sagði norðurskautsríkin bera ríka ábyrgð þegar kæmi að því að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þá sagði hann Svíþjóð styðja dyggilega við áherslur formennskuáætlunar Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu þar sem loftslagsbreytingar eru forgangsatriði.
    Næst á dagskrá var kynning Fredrik Hannerz, stjórnmálaráðgjafa í umhverfis- og orkumálaráðuneyti Svíþjóðar, á stefnu Svíþjóðar í umhverfismálum á norðurslóðum. Hannerz sagði loftslagsbreytingar á norðurslóðum mjög alvarlegar og samkvæmt IPCC (Intergovernmental panel on climate change) væru líkur á því að hitastig á svæðinu hækkaði um tíu gráður á Celsíus fyrir árið 2100. Þetta væri hnattrænt áhyggjuefni þar sem loftslagsbreytingar á norðurslóðum mundu hafa áhrif um allan heim. Hann sagði að þrjú forgangsatriði væru á stefnuskránni, aukin áhersla á loftslagsmál, bætt vörn fyrir vistkerfið, og líffræðilegur fjölbreytileiki og sjálfbær nýting auðlinda. Þá væri þörf á aukinni áherslu á loftslagsmál eftir samþykkt loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015. Norðurskautsríkin bæru ríka ábyrgð og mikilvægt væri að þau sýndu leiðtogahæfni þar sem þau bæði yllu mikilli mengun og yrðu fyrir áhrifum af loftslagsbreytingunum.
    Þá hélt Dr. Magnus Augner, aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofu sænskra heimskautarannsókna (swedish polar research), erindi um helstu rannsóknir Svía á norðurslóðum. Hann áréttaði að norðurskautssvæðið væri sérstaklega viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum og kynnti tvö verkefni fyrir nefndarmönnum, annars vegar C3 2014-verkefnið um rannsóknir á losun lofttegunda frá sífreri (permafrost) neðansjávar og hins vegar Petermann 2015-verkefnið. Hann ræddi um það hvernig koldíoxíð ( CO2) og metan yllu loftslagsbreytingum og hvernig þíðing sífreris hefði í för með sér mikla losun metans út í andrúmsloftið. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að ríki beindu sjónum sínum að aðlögun norðurslóðastefnu sinnar og ykju enn frekar alþjóðlegt samstarf um loftslagsbreytingar.
    Enn fremur kynnti Marcus Carson, sérfræðingur hjá sænsku umhverfisstofnuninni, vinnu við mat á þanþoli norðurslóða. Verkefninu er stýrt af Svíþjóð og Bandaríkjunum. Það hófst árið 2011 og verður lokaskýrsla kynnt í september 2016. Í skýrslunni er bent á 18 mögulegar hindranir og áskoranir á norðurslóðum, þ.m.t. bráðnun hafíss og hrun fiskveiða á svæðinu. Hann sagði þanþol svæðisins í grundvallaratriðum felast í getu þess til að aðlagast og umbreytast. Þá sagði hann að verið væri að þróa kerfi til að vakta breytingar og þróun á svæðinu. Því næst tók til máls Erika Ingvald, framkvæmdastjóri jarðfræðiathugana í Svíþjóð, og greindi frá helstu rannsóknum á norðurslóðum.
    Næst á dagskrá var kynning Michaels Slipenchuk á undirbúningi ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var í Ulan-Ude í Rússlandi 14.–17. júní 2016. Slipenchuk sagði nefndarmönnum ítarlega frá staðháttum og veitti gagnlegar upplýsingar varðandi praktísk atriði í tengslum við ráðstefnuna. Nefndarmenn samþykktu fyrsta uppkast að ráðstefnuyfirlýsingu og lokafrest til að skila inn breytingum og viðbótum 30. apríl 2016. Þá var ákveðið að fulltrúi Svíþjóðar tæki að sér að vera höfundur skýrslu um fyrsta hluta ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar, fulltrúi Kanada tæki að sér annan hluta ráðstefnunnar um mannlífsþróun á norðurslóðum og fulltrúi Finnlands yrði skýrsluhöfundur þriðja hlutans um ný tækifæri á norðurslóðum. Því næst kaus nefndin Larry Bagnell frá Kanada nýjan varaformann þingmannanefndarinnar.
    Að lokum var rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja. Formaður upplýsti nefndarmenn um ráðstefnu sem fyrirhuguð var í Washington 6. apríl 2016 á vegum Arctic Economic Forum þar sem nokkrir fulltrúar þingmannanefndarinnar verða þátttakendur í pallborðsumræðum. Öllum nefndmönnum er velkomið að taka þátt í ráðstefnunni. Þá var vakin athygli nefndarmanna á heimsókn Obama, forseta Bandaríkjanna, til Alaska í ágúst 2015 og að í tillögum að fjárlögum bandaríska ríkisins væri gert ráð fyrir 150 milljónum dollara til kaupa á nýjum ísbrjót. Slipenchuk greindi frá umræðum um þjóðaröryggi á norðurslóðum sem næði yfir samþætt samgöngukerfi á norðurslóðum í Rússlandi, þ.m.t. lestarkerfi og þróun hafnarborga. Þá hafa umræður farið fram í rússneska þinginu (State Duma) um bætt lagaumhverfi fyrir norðurslóðir og búist er við lagabreytingum eftir þingkosningarnar í september 2016. Að lokum greindi fulltrúi Finnlands frá undirbúningi fyrir formennsku Finna í Norðurskautsráðinu árin 2017–2019 og sagði formennskuáætlunina nánast tilbúna.
    Þá kynnti Adrianna Muir, aðstoðarsendiherra norðurslóða, framkvæmd formennskuáætlunar Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu fyrir árin 2015–2017 í gegnum skype frá Washington. Á áætluninni eru eftirfarandi meginþemu í forgrunni, öryggismál á sjó, bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum og umhverfismál og hvernig takast eigi á við áhrif loftslagsbreytinga. Áhersla hefur verið lögð á öflugt Norðurskautsráð í framtíðinni, sterkari og virkari stofnun sem tekst á við þau viðfangsefni sem hún stendur frammi fyrir. Þá sagði Adrianna að áfram yrði haldið því sem vel hefur verið gert en jafnframt yrði stefnt að því að gera ráðið framsýnna og djarfara og setja skýr og mælanleg markmið.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar í Ulan-Ude 14.–16. júní 2016.
    Tólfta þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin á Ulan-Ude 14.–16. júní 2016. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefnd um norðurskautsmál ráðstefnu um málefni norðurslóða. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu sem og að fylgjast með störfum Norðurskautsráðsins. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Líneik Sævarsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar, og Valgerður Bjarnadóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir m.a. af V. Nagovitsin, borgarstjóra Buryata-lýðveldisins, Eirik Sivertsen, formanni þingmannanefndar um norðurskautsmál, og Michaels Slipenchuk, formanni rússnesku þingmannanefndarinnar. Í opnunarræðu sinni ræddi Eirik Sivertsen m.a. um mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum væri beint að mannlífsþróun á svæðinu. Það væri grundvallaratriði að íbúar norðurslóða gætu lifað og hagnast af auðlindum sínum og hefðu rétt til útflutnings á þeim (dýraafurðum þ.m.t.) með sjálfbærni að leiðarljósi. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og ræddi í því sambandi um góðan árangur Norðurskautsráðsins. Sameiginlegt markmið allra ríkja norðurslóða væri að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu og Norðurskautsráðið hafði gegnt lykilhlutverki við að sýna fram á að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri sú réttarheimild sem stuðst væri við á svæðinu.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um mannlífsþróun á norðurslóðum og stýrði Katri Kulmuni umræðunni ásamt sænsku þingkonunni Sara Karlson. Grigory Ledkov, þingmaður og forseti RAIPON (samtök fólks af ýmsum þjóðernum á norðurslóðum, í Síberíu og austurhéruðum Rússlands) hélt erindi um efnið. Þá hélt Fedot Tumusov, þingmaður frá rússnesku Dúmunni erindi og greindi m.a. frá því hvernig þróun á innviðum samfélagsins styddi við samfélög og yki á lífsgæði íbúanna. Kandíski þingmaðurinn Scott Simms var skýrsluhöfundur um málið og kynnti skýrslu þingmannanefndarinnar og helstu niðurstöður hennar fyrir fundargestum. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að skilgreina hvað fælist í sjálfbærri skipulagsgerð sem hentaði á norðurslóðum. Það væri skylda okkar að huga að komandi kynslóðum og tryggja að öll þau skref sem við stigjum á svæðinu væri tekin af ábyrgð og nærgætni gagnvart umhverfinu.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um samstarf á norðurslóðum í ljósi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Marina Rykunova, frá ráðuneyti efnahags- og þróunarmála í Rússlandi, og Vladimir Litvak, aðstoðarframkvæmdastjóri VTB Ecology, héldu fyrirlestra um efnið. Þá hélt sænski þingmaðurinn Sara Karlson, sem var skýrsluhöfundur nefndarinnar, erindi og svaraði spurningum ráðstefnugesta. Hún áréttaði m.a. mikilvægi þess að vakta loftslagsbreytingar, vernda svæðið fyrir hættu á olíuslysum og styrkja Norðurskautsráðið. Karlson ræddi m.a. um aukinn áhuga umheimsins á norðurslóðum á undanförnum árum þar sem alþjóðasamfélagið sæi aukin tækifæri. Það væri þó klárlega hlutverk stjórnvalda á norðurslóðum að tryggja framtíð svæðisins og að það haldi áfram að vera heimili íbúa þess eins og verið hefur um aldir alda.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um ný tækifæri á norðurslóðum. Líneik Anna Sævarsdóttir var fundarstjóri ásamt Evrópuþingmanninum J. Dohrmann. Finnska þingkonan Katri Kulmuni var höfundur skýrslu um efnið og kynnti helstu niðurstöður hennar fyrir fundargestum og svaraði spurningum. Einnig hélt Yoko Kamikawa, þingkona frá Japan, erindi og ræddi m.a. um mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þannig skapaðist tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum á norðurslóðum.
    Líneik tók þátt í umræðum um efnið og ræddi m.a. um ferðaþjónustu á norðurslóðum og þau nýju tækifæri sem hafa skapast í greininni auk áskorana sem henni fylgja. Hún greindi frá hröðum vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarin ár og vaxandi mikilvægi hennar fyrir efnahag þjóðarinnar. Ferðaþjónusta væri nú stærsti útflutningsiðnaður landsins og afar mikilvægur efnahagsvexti þjóðarinnar. Norðurslóðir væru í „sviðsljósinu“ um þessar mundir og bjartsýni einkenndi framtíð ferðaþjónustu á svæðinu með aukinni eftirspurn og straumi ferðafólks á svæðið. Það væri þó margt sem bæri að varast og horfa þyrfti sérstaklega til landfræðilegra þátta eins og loftslags, aðgengis, árstíða og búsetu íbúa á svæðinu. Því væri mikilvægt að norðurskautsríkin ynnu saman, væru raunsæ og legðu áherslu á samstarf á sviði björgunarmála, rannsókna og þróunar. Þá lagði Líneik áherslu á að þegar við skoðuðum hvernig ferðaþjónustu við vildum þróa á norðurslóðum væri lykilatriði að skilja takmarkanir hennar.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem að hluta til er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Í ljósi samkomulags loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015 er hvatt til þess að skoðaðar séu nýjar leiðir til að virkja áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og losun kolefna. Enn fremur var lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika á svæðinu. Þá var bent á neikvæð áhrif banns við sölu lifandi auðlinda (dýraafurða) frumbyggja á svæðinu.
    Við undirbúning yfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á þremur fundum og fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem lagðar voru fram. Líneik Anna Sævarsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á að mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og tryggja lífsviðurværi sitt með því að opna markaði fyrir hefðbundnar vörur og framleiðslu. Jafnframt lagði Líneik, í samvinnu við fulltrúa Kanada, til málsgrein með áhersluatriði Íslandsdeildar um mikilvægi jafnréttismála á norðurslóðum. Voru nefndarmenn sammála þeirri áherslu og nauðsyn þess að leysa þann vanda sem blasir við mörgum samfélögum á norðurslóðum þar sem konur eiga erfitt með að snúa aftur til heimkynna sinna sökum lélegra innviða og ónógra tækifæra. Að lokum voru þátttakendur boðnir velkomnir til næstu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál sem haldin verður í Finnlandi árið 2018. Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar 15. júní var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar 16. september var Eirik Sivertsen, fulltrúi norska þingsins, endurkjörinn formaður nefndarinnar og kanadíski þingmaðurinn Larry Bagnell endurkjörinn varaformaður til næstu tveggja ára. Björn Willy Robstad, starfsmaður norska Stórþingsins, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar sl. níu ár gaf ekki kost á sér áfram og tók starfsmaður finnska þingsins, Samu Paukkunen við starfi hans. Nefndarmenn þökkuðu Björn Willy fyrir vel unnin störf í þágu nefndarinnar. Það var samhljóma álit nefndarmanna að ráðstefnan í Ulan-Ude hefði heppnast vel og mikilvægt væri að samþykktri yfirlýsingu ráðstefnunnar yrði komið á framfæri við Norðurskautsráðið, stjórnvöld og hlutaðeigandi aðila í aðildarríkjum nefndarinnar. Árangur ráðstefnunnar fælist í því sem þátttakendur hennar tækju með sér heim og kæmu í framkvæmd.

Alþingi, 23. mars 2017.

Ari Trausti Guðmundsson,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
varaform.
Óli Björn Kárason.