Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 452  —  218. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um hrefnuveiðar.


     1.      Hvaða hagsmuni hefur þjóðarbúið af því að leyfa áframhaldandi hrefnuveiðar í Faxaflóa og hafa þeir verið vegnir og metnir gagnvart öðrum hagsmunum, t.d. hagsmunum ferðaþjónustunnar? Ef svo er ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að það verði gert?
    Ekki liggur fyrir sérstök úttekt varðandi Faxaflóa en hins vegar liggur fyrir skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða frá mars 2010. Niðurstöður þeirrar skýrslu voru þær að ekki væri hægt að álykta að hvalveiðar hafi haft áhrif á fjölda heimsókna erlendra gesta til Íslands. Sjö ár eru liðin frá því að framangreind skýrsla Hagfræðistofnunar var gerð, en ekki verður séð að niðurstöður yrðu aðrar í dag en fyrir sjö árum. Í því sambandi má benda á að fjöldi ferðamanna til landsins hefur aukist úr um 500 þúsundum árið 2010 í um 1,8 milljónir árið 2016. Þá var fjöldi gesta í hvalaskoðun árið 2008 115 þúsund manns en árið 2016 var fjöldi gesta í hvalaskoðun 354 þúsund manns. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort framkvæmt verði sérstakt mat á þjóðhagslegum áhrifum hrefnuveiða í Faxaflóa.

     2.      Hafa verið könnuð áhrif hrefnuveiða í Faxaflóa á hagsmuni ferðaþjónustu suðvestanlands, einkum hvalaskoðunar og annarrar útilífsferðaþjónustu sem tengd er hafi og ströndum? Ef svo er ekki, mun slík könnun fara fram?
    Í tillögum Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2009 um afmörkun svæða til hvalaskoðunar til að koma í veg fyrir árekstra milli hvalaskoðunar og hvalveiða byggði stofnunin niðurstöður sínar m.a. á hagsmunum hvalaskoðunarfyrirtækja suðvestanlands. Á grundvelli þeirra voru hvalveiðar bannaðar á öllu því svæði þar sem reglubundin hvalaskoðun fór fram í Faxaflóa og var við þá ákvörðun einkum horft til hagsmuna hvalaskoðunarfyrirtækja. Ráðuneytið hefur nýlega óskað eftir endurskoðun á framangreindum tillögum og mun Hafrannsóknastofnun eins og áður líta til áhrifa hrefnuveiða í Faxaflóa á hagsmuni ferðaþjónustu suðvestanlands og þá sérstaklega hvalaskoðunar. Þegar niðurstöður stofnunarinnar liggja fyrir mun m.a. verða haft samráð við ráðherra ferðamála um framhald málsins.

          3.      Hver er afstaða ráðherra til samhljóða samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur frá því í desember 2014 og ályktana Samtaka ferðaþjónustunnar um að allur Faxaflói verði griðastaður hvala?
    Á undanförnum árum hefur hrefnu fækkað mikið á grunnsævi við Ísland, ekki síst sunnan- og suðvestanlands. Samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar náði fjöldi hrefna á landgrunnssvæðinu hámarki árið 2001 þegar um 40 þúsund hrefnur voru taldar á þessu svæði en frá árinu 2007 hefur fjöldinn á sama svæði verið metinn 10–20 þúsund dýr. Ljóst er að takmarkaðar hrefnuveiðar (24–81 á ári) geta ekki skýrt þessa fækkun og þótt rannsóknir hafi sýnt fram á fælandi áhrif hvalaskoðunar á hrefnu í Faxaflóa skýra þær engan veginn slíka breytingu. Nærtækast er að leita skýringa í miklum breytingum á lífríki hafsins við Ísland með hlýnun sjávar á umliðnum árum sem m.a. taka til tveggja mikilvægra fæðutegunda hrefnu, þ.e. sandsílis og loðnu. Líklegt verður að telja að útbreiðsla hrefnu hafi breyst í kjölfarið enda er fæðunám megintilgangur komu hrefnunnar hingað til lands á vorin.
    Árið 2009 óskaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir því að Hafrannsóknastofnun gerði tillögur um afmörkun svæða til hvalaskoðunar með það að markmiði að koma í veg fyrir árekstra milli hvalaskoðunar og hvalveiða. Á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar var gefin út reglugerð nr. 632/2013, um bann við hvalveiðum á tilteknum svæðum, sem bannar hvalveiðar á þeim svæðum þar sem reglubundin hvalaskoðun fer fram, þ.e. í Eyjafirði, á Skjálfandaflóa og syðri hluta Faxaflóa.
    Þar sem nú eru liðin átta ár frá því að Hafrannsóknastofnun gerði tillögur að afmörkun svæða til hvalaskoðunar hefur ráðuneytið, eins og að framan greinir, óskað eftir því að Hafrannsóknastofnun endurskoði fyrri tillögur. Nú er beðið eftir því að tillögur berist frá Hafrannsóknastofnun en engar ákvarðanir verða teknar fyrr en þær liggja fyrir.

     4.      Hver er afstaða ráðherra til þess að undanfarin ár hefur meðalþyngd veiddra hrefna verið nálægt 4,5 tonnum sem bendir til þess að einkum séu veidd ung dýr sem ekki hafa aukið kyn sitt? Hvaða áhrif er talið að þetta hafi á stofnstærð hrefnu og nýliðun og telur ráðherra að þörf sé sérstakra viðbragða við þessu?
    Hér við land hafa á árabilinu 2010–2015 verið veiddar 24–60 hrefnur á ári, og veiðarnar hafa því verið langt undir því aflamarki sem sett hefur verið af stjórnvöldum og nemur 224 hrefnum á ári tímabilið 2016–2018. Það aflamark er í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og er talið varfærið og sjálfbært samkvæmt úttektum vísindalegra alþjóðastofnana, svo sem Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins.
    Náttúruleg afföll hrefna og annarra sjávarspendýra eru mest á fyrstu æviárunum og skipta því veiðar á ungum dýrum minna máli en veiðar á kynþroska dýrum hvað varðar nýliðun. Þetta endurspeglast m.a. í aflamarki í selveiðum Norðmanna þar sem veiðar á einu fullorðnu dýri eru lagðar að jöfnu við tvo kópa. Í ljósi þess að hrefnuveiðar hér við land eru langt innan við sjálfbærnimörk og að veiðar á ókynþroska dýrum hafa minni áhrif á nýliðun en veiðar á eldri hrefnum er ekki talin ástæða til aðgerða vegna aflasamsetningarinnar.

     5.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á dauðatíma hrefna sem hafa verið skotnar hér við land sl. fimm ár, hvaða aðilar hafa staðið að þeim og hverjar hafa helstu niðurstöður þeirra verið?
    Dauðatími í hrefnuveiðum við Ísland var metinn í rannsókn árin 2014 og 2015. Fiskistofa stóð að því að þessar athuganir voru gerðar, en til verksins voru fengnir norskir dýralæknar sem hafa sinnt sambærilegum mælingum við Noreg í áratugi. Alls var mældur dauðatími fyrir 13 hrefnur, en það er ekki talinn nægur fjöldi til að fá áreiðanlegt mat á dauðatíma í hrefnuveiðum hér við land. Áformað er að fá sömu aðila til mælinga á dauðatíma á næstu hrefnuveiðivertíð.