Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 504  —  375. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      4. tölul. orðast svo: Þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri: 15–27 aðalmenn.
     b.      5. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu en efni þess hefur verið kynnt forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Þá er frumvarpið efnislega skylt frumvarpi sem átta þingmenn fluttu á 145. löggjafarþingi (296. mál) en varð ekki afgreitt.
    Tilgangur frumvarpsins er að afnema þá lagaskyldu sem hvílir á Reykjavíkurborg skv. 5. tölul. 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum, að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018 og færa það í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf sé á fjölgun borgarfulltrúa.
    Kveðið er á um fjölda sveitarstjórnarmanna í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga. Skv. 4. tölul. 1. mgr. skulu sveitarstjórnarmenn vera 15–23 þar sem íbúar eru 50.000–99.999, en skv. 5. tölul. skulu sveitarstjórnarmenn vera 23–31 séu íbúar 100.000 eða fleiri. Fólst í þessu breyting frá fyrri skipan mála, að í sveitarfélögum þar sem íbúar væru 50.000 eða fleiri skyldi fjöldi sveitarstjórnarmanna vera á bilinu 15–27, sbr. 12. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og 11. gr. forvera þeirra, nr. 8/1986. Ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 11. gr. tekur eðli máls samkvæmt eingöngu til Reykjavíkurborgar og ber því að fjölga borgarfulltrúum þar upp í 23 að lágmarki eigi síðar en við næstu sveitarstjórnarkosningar sem fram fara í maí 2018, sbr. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða I.
    Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 21 en strax á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur í 15 og hefur fjöldi þeirra verið óbreyttur síðan.
    Þó að í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga (þingskjal 1250, 726. mál 139. löggjafarþings) séu færð fram tiltekin rök fyrir þeirri fjölgun borgarfulltrúa sem kveðið er á um í 5. tölul. 1. mgr. 11. gr. þykir ekki rétt í ljósi sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga að þvinga fram slíka fjölgun fulltrúa með lögum. Frumvarpið felur því í sér að tekin er upp að nýju eldri skipan mála og borgarstjórn verði því áfram í sjálfsvald sett hvort fjöldi borgarfulltrúa verði óbreyttur eftir næstu sveitarstjórnarkosningar eða þeim fjölgað í allt að 27.
    Verði borgarfulltrúum ekki fjölgað má vænta þess að við það sparist útgjöld hjá Reykjavíkurborg. Hve mikill sá sparnaður yrði er þó ekki að fullu ljóst, enda kann fjöldi borgarfulltrúa að hafa áhrif á annan kostnað í stjórnkerfi borgarinnar. Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð eru hins vegar engin.