Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 527  —  396. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um skatttekjur, skattrannsóknir og skatteftirlit.


Frá Smára McCarthy, Birni Leví Gunnarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Halldóru Mogensen, Einari Brynjólfssyni, Gunnari Hrafni Jónssyni, Gunnari I. Guðmundssyni, Kötlu Hólm Þórhildardóttur, Jóni Þór Ólafssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um skatttekjur, skattrannsóknir og skatteftirlit.
    Í skýrslunni verði varpað ljósi á eftirfarandi:
     1.      Hver var tekjuskattstofn og opinber útgjöld lögaðila, flokkuð eftir atvinngreinaflokkun Hagstofu Íslands 2010–2016, skattstofn einstaklinga og opinber gjöld og skattstofn fjármagnstekjuskatts og fjármagnstekjuskattur yfir sama tímabil?
     2.      Hvaða skattalagabreytingar hafa orðið á tímabilinu 2010–2016 (flokkað eftir tegund og laganúmeri) og hverjar þeirra tengjast vinnu Efnahags- og framfarastofnunnar Evrópu í París (OECD) vegna starfshóps um eyðingu skattaandlags og eyðingu skattahagnaðar (e. Base Erosion and Profit Shifting, BEPS)?
     3.      Hver var heildarhækkun á opinberum gjöldum árlega á tímabilinu 2010–2016?
                  a.      Hver var hækkunin í kjölfar skattrannsókna og skatteftirlits, sundurliðað eftir lögaðilum, einstaklingum og tegundum skattsvika?
                  b.      Hve hátt hlutfall er það af skatttekjum og áætluðum skattsvikum?
                  c.      Hvernig skiptist hækkunin eftir embættum:
                  1.     skattrannsóknarstjóra ríkisins,
                  2.     ríkisskattstjóra,
                   3.     yfirskattanefnd?
     4.      Hver var árlegur fjöldi mála hjá skattyfirvöldum á tímabilinu 2010–2016, sundurliðað eftir uppruna, afgreiðslu og embættum:
                  a.      skattrannsóknarstjóra ríkisins,
                  b.      ríkisskattstjóra,
                  c.      yfirskattanefnd?
     5.      Hversu mörgum málum frá umræddu tímabili er ólokið hjá skattrannsóknarstjóra og um hvaða fjárhæðir er þar að ræða?
     6.      Hversu margir störfuðu (stöðugildi) við skatteftirlit og skattrannsóknir árlega 2010– 2016?
     7.      Að hverju hefur skatteftirlit og skattrannsóknir helst beinst á árunum 2010–2016, þ.e.:
                  a.      fjármálafyrirtækjum og fjármálastofnunum (bönkum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum, tryggingafélögum, lífeyrissjóðum o.s.frv.),
                  b.      svonefndum skattafylgsnum eða aflandseyjum,
                  c.      skilum á fjármagnstekjuskatti,
                  d.      ólöglegum frádráttarliðum,
                  e.      skatti af hlutabréfakaupum stjórnenda og starfsmanna (þ.e. með svokölluðum kúlulánum),
                  f.      hlunnindum og eigin neyslu forsvarsmanna sem færð er á rekstur fyrirtækisins?
     8.      Hvernig hefur skattsvikamálum lokið á tímabilinu 2010–2016?
                  a.      Hversu margir dómar hafa fallið í Hæstarétti?
                  b.      Hversu margir dómar hafa fallið í undirrétti?
                  c.      Hversu mörgum málum lauk með sektarúrskurði hjá yfirskattanefnd?
                  d.      Hversu mörgum málum lauk með sektarmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra?
     9.      Hvað hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsakað mörg mál þar sem um hefur verið að ræða vanskil á fjármagnstekjuskatti á tímabilinu 2010–2016? Hve háar fjárhæðir voru í vanskilum í þeim tilvikum og hve mikið hefur innheimst? Hversu miklum vanhöldum reiknar ráðherra með á innheimtu fjármagnstekjuskatts á umræddu tímabili, sbr. skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum frá því í september 2016?
     10.      Hver er ábyrgð löggiltra endurskoðenda vegna rangra skila og rangra upplýsinga, af ásetningi eða af gáleysi? Eru dæmi um að löggiltir endurskoðendur hafi á umræddu tímabili sætt refsingu vegna brota á skattalögum?
     11.      Hversu mörg peningaþvættismál hafa komið upp á Íslandi á tímabilinu 2010–2016? Hyggst ráðherra láta rannsaka þennan þátt spillingar sérstaklega, sbr. skýrsla ráðherra um eignir Íslendinga á aflandssvæðum frá því í september 2016, og áhrif þess á skattgreiðslur?
     12.      Skattrannróknarstjóri keypti gögn með upplýsingum um Íslendinga í svokölluðum skattafylgsnum eða aflandssvæðum árið 2015:
                  a.      Hvenær var gengið frá kaupunum og hvað var greitt fyrir listann?
                  b.      Fyrntust einhver mál frá því að yfirvöldum buðust umrædd gögn og þar til gengið var frá kaupunum og ef svo er, hve mörg og hversu miklar kröfur töpuðust?
                  c.      Hefur skattyfirvöldum boðist að kaupa sambærileg eða svipuð gögn frá innlendum eða erlendum aðilum?
                  d.      Hvað voru margir á listanum sem skattrannsóknarstjóri keypti (einstaklingar og lögaðilar) og við hvaða gjaldeyri voru umrædd gögn miðuð, þ.e. hvert var gengi myntarinnar þegar umrædd gögn buðust og hvert var gengið þegar þau voru keypt?
                  e.      Tengjast lögaðilar og einstaklingar innbyrðis á einhvern hátt, og hvernig flokkast viðkomandi einstaklingar miðað við yfirflokk starfaflokkunar Hagstofu Íslands?
                  f.      Hvað tóku skattyfirvöld mörg mál til rannsóknar (embætti, einstaklingar og lögaðilar) og með tilliti til hvers og/eða hvað laga voru þau valin eða ákveðið að falla frá rannsókn (sbr. opinber skipti/einkaskipti dánarbúa)?
                  g.      Hver var heildarupphæðin sem svikin var undan skatti í krónum talið og í upphaflegri mynt (einstaklingar og lögaðilar)? Hver var hæsta upphæðin og hver var lægsta upphæðin í hvoru tilviki? Er þessum málum lokið? Ef svo er ekki, hve mörgum málum er lokið og hvenær má búast við að þeim ljúki? Hver var upphæð þeirra mála sem tekin voru til rannsóknar í krónum talið og þeirri mynt sem hún var geymd í? Hve há er sektin? Hver eru áhrif gengis á skattlagningu og sekt?
     13.      Árið 2016 birtu alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna upplýsingar um eignir Íslendinga í svokölluðum skattafylgsnum eða aflandssvæðum:
                  a.      Hversu margir lögaðilar og hversu margir einstaklingar eru í umræddum gögnum?
                  b.      Hver var heildarupphæðin í umræddum gögnum í krónum talið og í upphaflegri mynt (einstaklingar og lögaðilar)? Hver var hæsta upphæðin og hver var lægsta upphæðin í hvoru tilviki? Er þessum málum lokið? Ef svo er ekki, hve mörgum málum er lokið og hvenær má búast við að þeim ljúki? Hver var upphæð þeirra mála sem tekin voru til rannsóknar í krónum talið og þeirri mynt sem fjármunirnir voru varðveittir í? Hve há er sektin? Hver eru áhrif gengis á skattlagningu og sekt?
                  c.      Tengjast lögaðilar og einstaklingar innbyrðis á einhvern hátt, og hvernig flokkast viðkomandi einstaklingar miðað við yfirflokk starfaflokkunar Hagstofu Íslands?
                  d.      Hversu margir (lögaðilar/einstaklingar) koma fyrir á báðum þessum listum (eða fleiri listum sem skattyfirvöld kunna að hafa fest kaup á), sbr. 12. tölul.?
     14.      Hvernig hyggst ráðherra sækja féð til skattafylgsna, sbr. skýrslu ráðherra um eignir Íslendinga á aflandssvæðum frá því í september 2016? Hefur verið gerð aðgerðaáætlun?