Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 602  —  243. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðstoð við fórnarlömb mansals.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig er staðið að félagslegri aðstoð við fórnarlömb mansals og hvernig er ferlið kringum félagslegan og fjárhagslegan stuðning við þau?

    Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir þolendum mansals, og þeim sem sem grunur leikur á að séu þolendur, viðamikla þjónustu og er þörf fyrir aðstoð ávallt metin út frá tilteknum forsendum. Í því felst að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar í samræmi við markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Skal það m.a. gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
    Lögheimilissveitarfélag þolanda mansals sinnir félagsþjónustu við viðkomandi. Þegar lögheimilið er ekki skráð á Íslandi veitir dvalarsveitarfélag þjónustuna.
    Öllum þolendum mansals er tryggð framfærsla og öruggt húsnæði. Þau sem eru með skráð lögheimili njóta aðstoðar á grundvelli reglna viðkomandi sveitarfélags um fjárhagsaðstoð. Þolendur mansals sem ekki eru með skráð lögheimili hér á landi njóta fjárhagslegs stuðnings á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara, utan EES, sem ekki eiga lögheimili á Íslandi nr. 203/2016, en reglurnar eru settar með stoð í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeim er einnig tryggð heilbrigðisþjónusta, sbr. reglugerð um heilbrigðisþjónustu, við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna, nr. 50/2017.
    Velferðarráðuneytið endurgreiðir sveitarfélögum útlagðan kostnað vegna þjónustu þegar viðkomandi á ekki lögheimili á Íslandi og jafnframt vegna þeirra sem hafa átt lögheimili skemur en tvö ár.
    Velferðarráðuneytið leggur áherslu á að fá upplýsingar um þolendur mansals eins fljótt og auðið er svo að tryggja megi þeim tímabæra nauðsynlega aðstoð. Þörf þolenda mansals fyrir velferðarþjónustu er metin í hverju máli fyrir sig. Þegar mál koma til kasta velferðarráðuneytis kallar það iðulega saman svokallað framkvæmdateymi, en í því eiga sæti fulltrúar frá félagsþjónustu, heilsugæslu, löggæslu, Kvennaathvarfi og stéttarfélögum. Það fer eftir eðli máls og þörfum þolanda hverju sinni hvaða samstarfsaðilar eru kallaðir til. Þegar teymið er kallað til koma fagaðilar saman frá ólíkum samstarfsaðilum sem vinna með þolandanum hverju sinni. Við upphaf máls er farið yfir hlutverk hvers fulltrúa í teyminu og einnig hefur framkvæmdateymið fundað eftir að málum er lokið og hefur reynsla af því verið góð. Markmiðið með þessum fundum er að styrkja þverfaglegt samstarf, samþætta þjónustu við hvern þolanda og samræma þjónustu milli þolenda svo sem kostur er.
    Velferðarráðuneytið hefur gert samning við Kvennaathvarfið sem tryggir kvenkyns þolendum mansals og börnum þeirra, ef við á, athvarf og öryggi. Karlkyns þolendum er tryggð sambærileg aðstoð.
    Barnaverndaryfirvöld eru ávallt upplýst þegar barn á í hlut eða er í för með þolanda mansals. Ef barn á í hlut er mál þess unnið hjá barnaverndaryfirvöldum. Þá er í gildi samningur milli velferðarráðuneytis og Mannréttindaskrifstofu Íslands um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur. Fórnarlömbum mansals er bent á að leita þangað sem og einstaklingum af erlendum uppruna.