Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 605  —  295. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um fullgildingu viðauka við Marpol-samninginn.


     1.      Hvað líður fullgildingu Íslands á viðaukum við Marpol-samninginn, annars vegar viðauka IV um varnir gegn skólpmengun frá skipum og hins vegar viðauka VI um varnir gegn loftmengun frá skipum?
    MARPOL-samningurinn er alþjóðasamningur sem heyrir undir Alþjóðasiglingamálastofnunina (IMO) og hefur Ísland fullgilt fjóra af sex viðaukum samningsins. Ráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að staðfestingu þeirra tveggja viðauka sem eftir er að fullgilda og fjalla um varnir gegn loftmengun frá skipum (VI. viðauki) og varnir gegn skólpmengun frá skipum (IV. viðauki).
    Staðfesting og innleiðing á viðaukum IV og VI við samninginn mun styrkja umhverfisvernd á hafsvæðinu við Ísland, taka af tvímæli um reglur sem þar eru í gildi og bæta ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
    Staða þessara mála er þó ekki þannig að engar viðunandi reglur séu í gildi um efni viðauka VI og VI í íslenskri löggjöf því í lögum og reglugerðum eru víða að finna ákvæði sem lúta að efnisinntaki þessara tveggja viðauka. Sum ákvæðin eru innleidd í gegnum EES-samninginn sem aftur tekur mið af reglum MARPOL-samningsins.
    Fullgilding og innleiðing alþjóðlegra samninga getur verið flókið ferli og þungt í framkvæmd og er jafn mikil vinna fyrir Ísland og stærri ríki. Það á ekki síst við um viðamikla og tæknilega samninga eins og MARPOL-samninginn og viðauka við hann. Fullgilding snýst um formlega upptöku samninga í íslenskan rétt, en með innleiðingu alþjóðlegra reglna fylgja jafnframt viðamiklar skyldur sem íslensk stjórnsýsla þarf að fylgja eftir að séu uppfylltar en mikilvægt er að tryggja að hægt verði að standa við ákvæði alþjóðasamninga hér á landi þegar þeir hafa verið fullgiltir.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið áætlar að gera fullgildingarferli viðauka við MARPOL-samninginn einfaldara og skilvirkara og ætlar í þeim tilgangi að setja reglugerð til innleiðingar á þegar fullgiltum viðaukum samningsins. Viðaukar við samninginn taka örum breytingum og ákvæði hans hafa verið uppfærð á síðustu árum án þess að íslenskar reglur hafi verið uppfærðar samfara þeim breytingum. Með setningu fyrrnefndar reglugerðar um framkvæmd þessara fjögurra viðauka færist íslenskt regluverk nær því regluverki sem gildir í löndunum í kringum okkur. Reglugerðinni er ætlað að kveða á um helstu verkefni Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands í tengslum við efni viðaukanna og vísar í texta þeirra í heild, sem birtir verða á ensku í C-deild Stjórnartíðinda.
    Í framhaldi er ætlunin að innleiða á sama hátt viðauka IV og VI við MARPOL-samninginn. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði nýlega eftir því við utanríkisráðuneytið, sem heldur formlega utan um ferli við fullgildingu alþjóðasamninga, að hefja formlegt fullgildingarferli til staðfestingar á viðaukum IV og VI við MARPOL-samninginn. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Ísland staðfesti aðild sína að þessum tveimur viðaukum sem allra fyrst.

     2.      Hver er stefna Íslands varðandi bann við notkun svartolíu (heavy fuel) á aðalvélar skipa á norðurskautssvæðinu?
    Nokkur umræða hefur verið um að herða enn frekar reglur um siglingar á norðurslóðum, umfram það sem nú er krafist svo sem í svokölluðum pólkóða (Polar Code) sem nýlega tók gildi. Pólkóðinn var samþykktur hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) og gekk í gildi 1. janúar 2017. Pólkóðinn felur í sér lagalega bindandi reglur fyrir skip sem sigla innan skilgreindra svæða á norðurslóðum og við suðurskautslandið og varðar öryggismál og umhverfiskröfur. Áður voru í gildi valkvæðar reglur á þessum svæðum. Ísland er ekki innan þess svæðis sem IMO skilgreinir sem norðurslóðir og tekur einkum mið af hafís.
    Umhverfisverndarsamtök hafa lagt til bann við notkun á svartolíu við siglingar á norðurslóðum, en svartolía veldur meiri sótmengun og er erfiðari viðfangs í olíuslysum en gasolía og sumar aðrar eldsneytistegundir. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa m.a. skorað á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir slíku banni.
    Á vettvangi vinnuhóps Norðurskautsráðsins um varnir gegn mengun sjávar, PAME, hafa verið gerðar margvíslegar samantektir um hættu vegna notkunar á svartolíu á norðurslóðum, úttekt á notkun hennar, hvort meiri hætta sé á vélarbilunum vegna notkunar svartolíu og velt hefur verið upp hugmyndum um leiðir til að draga úr skaða vegna notkunar hennar. Vinnuhópurinn hefur ekki lagt fram tillögu um bann við notkun svartolíu því rétt er að ræða slíkt bann á vettvangi IMO fyrst.
    Innan umhverfisnefndar IMO (MEPC) hefur verið umræða um bann við notkun svartolíu á norðurslóðum. Ekki er þó eindreginn stuðningur við slíkt bann innan IMO. Sum ríki hafa nefnt að rétt sé að einbeita sér að innleiðingu pólkóðans nú og skoða hugsanlegt bann í tengslum við svokallaðan 2. fasa kóðans.
    Nýlega kom fram tillaga frá Bandaríkjunum og Kanada á vettvangi umhverfisnefndar IMO um að leitað verði leiða til að draga úr hættu vegna notkunar og flutnings á svartolíu á norðurslóðum. Óskað var eftir stuðningi frá Íslandi við tillöguna og mun Ísland styðja og verða meðflutningsaðili þegar tillagan verður lögð fram á næsta fundi MEPC í júlí á þessu ári. Almennt hefur Ísland samráð við önnur ríki Norðurlanda sem og önnur norðurslóðaríki innan IMO, Norðurskautsráðsins og á öðrum vettvangi um hugsanlegar hertar reglur um siglingar á norðurslóðum. Íslensk stjórnvöld vilja vera í samstarfi við ríki sem vilja metnaðarfulla stefnu varðandi mengun hafsins og sérstaklega á viðkvæmum hafsvæðum á norðurslóðum. Þar hefur um margt verið jákvæð þróun á undanförnum árum sem rétt er að styðja enn frekar.