Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 610  —  152. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um vistunarúrræði fyrir börn með fötlun.


     1.      Hversu mörg börn eru vistuð utan heimilis í sérúrræðum vegna fötlunar?
     2.      Hversu mörg börn eru vistuð utan heimilis í sérúrræðum vegna margþætts vanda?

    Fötluð börn eru ekki vistuð utan heimilis til lengri tíma nema þau eigi við alvarlegar þroska- og geðraskanir að stríða, Vistun fatlaðra barna með fjölþættan vanda getur verið tvenns konar, annars vegar á vegum barnaverndarnefnda á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og hins vegar vistun barna á grundvelli ákvæða laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Upplýsinga var aflað hjá Barnaverndarstofu um vistun barna með margþættan vanda utan heimilis á vegum barnaverndarnefnda á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga. Tekið skal fram að margþættur vandi getur tekið til barnanna sjálfra og/eða foreldra þeirra og þar á meðal geta verið börn með fötlun. Tafla 1 sýnir fjölda barna í meðferð í úrræðum á ábyrgð ríkisins á árunum 2012–2016.

Tafla 1. Fjöldi barna í meðferð á árunum 2012–2016 (innskriftir á árinu og frá fyrra ári).

2012 2013 2014 2015 2016
Fjöldi einstaklinga1 133 144 131 125 124
Stúlkur 52 60 53 57 56
Drengir 81 84 78 68 68
Samtals 166 168 155 150 159
Stúlkur 67 71 59 71 73
Drengir 99 97 96 79 86
MST 97 103 91 88 91
Stúlkur 34 44 38 44 46
Drengir 63 59 53 44 45
Stuðlar, meðferð 35 32 33 33 32
Stúlkur 17 12 8 15 11
Drengir 18 20 25 18 21
Háholt 9 9 8 7 10
Stúlkur 1 1 0 0 1
Drengir 8 8 8 7 9
Laugaland2 12 11 11 12 12
Stúlkur 12 11 11 12 12
Lækjarbakki 13 13 11 10 14
Stúlkur 3 3 2 0 3
Drengir 10 10 9 10 11
1 Sama barn getur verið talið oftar en einu sinni ef það fer í fleiri en eitt úrræði innan hvers árs.
2 Á Laugalandi eru einungis vistaðar stúlkur.

    Tafla 2 sýnir fjölda barna í fóstri á árunum 2012–2016. Upplýsingarnar byggjast á fjölda tilkynninga barnaverndarnefnda til Barnaverndarstofu um gerð fóstursamninga við fósturforeldra vegna ráðstafana barna á fósturheimili. Þær tölur eru síðan leiðréttar af Barnaverndarstofu á grundvelli endanlegra upplýsinga sem fram koma í skýrslu barnaverndarnefnda sem skila ber eigi síðar en 1. maí ár hvert skv. 1. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga. Af þeim sökum gætu tölur fyrir 2016 breyst lítillega.

Tafla 2. Fjöldi barna í fóstri á árunum 2012–2016

Ár Varanlegt fóstur Tímabundið fóstur Styrkt fóstur Samtals börn í fóstri
2012 181 132 27 340
2013 194 109 24 327
2014 211 124 22 357
2015 235 116 28 379
2016 248 112 29 389

    Tafla 3 sýnir fjölda ráðstafana utan heimilis á tímabilinu 2012–2015. Barn getur verið vistað oftar en einu sinni á sama stað eða í fleiri en einu úrræði á sama árinu og er samanlagður fjöldi barna því í raun lægri en samanlagður fjöldi ráðstafana..

Tafla 3. Fjöldi ráðstafana utan heimilis 2012–2015.

Tafla 3: Fjöldi ráðstafana utan heimilis 2012 2013 2014 2015 2016
Úrræði á ábyrgð sveitarfélaga, samtals 298 358 352 363
A1. Heimili og önnur úrræði skv. 84. gr.
    barnaverndarlaga1
206 272 246 247
Vistheimili 92 80 90 87
Sambýli/fjölskylduheimili 12 9 7 8
Einkaheimili (starfrækt allt árið) 18 60 30 23
Önnur úrræði (t.d. tímabundin vistun hjá ættingjum eða öðrum) 84 123 119 107
Hjá foreldri sem barn býr ekki hjá, en fer með sameiginlega forsjá (67. gr. b barnaverndarlaga.) 22
A2. Fósturheimili 92 86 106 116
Úrræði á ábyrgð ríkisins, samtals 128 133 126 128 151
Stuðlar, lokuð deild (neyðarvistun) 82 82 81 84 101
Stuðlar, greiningar- og meðferðardeild 28 29 26 27 27
Meðferðarheimili 18 21 19 17 23
Sérúrræði vegna dóms um öryggisvistun 1
1    Ekki eru birtar tölur um fjölda ráðstafana á vegum sveitarfélaga fyrir árið 2016 þar sem endanlegar upplýsingar hafa ekki borist frá öllum barnaverndarnefndum.

    Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, bera sveitarfélögin ábyrgð á þjónustu samkvæmt lögunum og var því óskað eftir upplýsingum þaðan. Samkvæmt þeim upplýsingum eru 16 fötluð börn vistuð utan heimilis í varanlegum úrræðum á vegum sveitarfélaga eða einkaaðila sem sveitarfélag hefur samið við um slíka þjónustu eða hjá fósturfjölskyldum. Þessi börn eru að öllum líkindum með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Talan nær ekki til fatlaðra barna sem vistuð eru á grundvelli barnaverndarlaga en fötluð börn eiga að sjálfsögðu rétt á úrræðum og þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum ef þau þurfa á þeim að halda.

     3.      Á hvaða lagagrundvelli eru börn vistuð utan heimilis?
    Skv. 25. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, getur barnaverndarnefnd, með samþykki foreldra og barns sem náð hefur 15 ára aldri, tekið við umsjá eða forsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings.
    Ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd, samkvæmt ákvæðum 27. gr. barnaverndarlaga, með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri, kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem ráðstöfun þess í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri er heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara.
    Ef barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að ráðstöfun standi lengur en tvo mánuði skal nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi skv. 28. gr. barnaverndarlaga. Heimilt er með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn.
    Í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, er ekki að finna sérstaka lagaheimild til vistunar barna utan heimilis, utan ákvæða 21. og 22. gr. sem fjalla um stuðningsfjölskyldur og skammtímavistanir. Ákvæði um heimili fyrir fötluð börn voru felld brott úr lögunum með lögum nr. 152/2010. Þegar börn eru vistuð utan heimilis í lengri tíma er slíkt byggt á sameiginlegri ákvörðun forsjáraðila og þjónustuveitanda.

     4.      Með hvaða hætti er eftirlit með vistun barna utan heimilis?
     5.      Með hvaða hætti er eftirlit með máli hvers barns?
     6.      Hvaða stjórnvald ber ábyrgð á eftirliti með vistun barna utan heimilis?

    Skv. 79. gr. barnaverndarlaga ber velferðarráðuneytið ábyrgð á að tiltæk séu heimili og stofnanir til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum í því skyni að tryggja öryggi þeirra, greina vanda þeirra og veita meðferð, t.d. vegna alvarlegs hegðunarvanda eða vímuefnaneyslu. Það er einungis starfsfólk barnaverndarnefnda sem getur sótt um vistun fyrir börn á meðferðarheimilum eða stofnunum og barnaverndarnefnd sem vistar barn skal veita barni og foreldrum nauðsynlegan stuðning meðan á vistun stendur. Þá ber barnaverndarnefnd að fylgjast með líðan barnsins og því að ráðstöfun nái tilgangi sínum, m.a. með reglubundnum heimsóknum.
    Skv. 5. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga fer Barnaverndarstofa með yfirstjórn heimila og stofnana skv. XIII. kafla laganna. Þá skal stofan hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót og hefur jafnframt yfirumsjón með vistun barna þar. Samkvæmt 79. gr. barnaverndarlaga skal Barnaverndarstofa hafa faglegt og fjárhagslegt eftirlit með starfsemi heimila og stofnana og veitir þeim sem reka þau fræðslu, leiðbeiningar og almennan faglegan stuðning. Eftirlit ráðuneytisins með slíkum heimilum og stofnunum felst í því að sérfræðingi er falið að heimsækja heimilin að lágmarki einu sinni á ári og skal hann sérstaklega leitast við að gefa börnum sem þar dvelja kost á að tjá sig um líðan sína og aðbúnað. Eftirlitsaðilinn fundar með ráðuneytinu og Barnaverndarstofu og kynnir þeim niðurstöður sínar eftir hverja heimsókn á meðferðarheimilin. Forstöðumönnum þeirra heimila sem gerðar eru athugasemdir við hverju sinni er gert að skila ráðuneytinu skriflegum svörum um hvernig staðið verði að úrbótum og Barnaverndarstofu falið að fylgja þeim eftir. Þá er sérstaklega litið til þeirra atriða við næstu eftirlitsheimsókn.
    Skv. 84. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir hafa tiltæk úrræði þar sem veita má börnum móttöku í bráðatilvikum, m.a. til að tryggja öryggi þeirra, greina vanda þeirra eða til að kanna aðstæður vegna vanrækslu, vanhæfis eða framferðis foreldra/forsjáraðila. Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum leyfi á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga fyrir rekstri vistheimila og sambýla eða vegna samninga barnaverndarnefnda við einkaheimili um að taka að sér börn í neyðaraðstæðum. Það sama á við um leyfi vegna annarra úrræða á grundvelli 84. gr. eins og bráðabirgðavistana á heimilum ættingja og annarra og eru slík leyfi veitt fyrir hverja ráðstöfun í senn. Þá ber barnaverndarnefndum að leggja mat á gæði og árangur vistunarúrræða á þeirra vegum.
    Skv. 7. gr. barnaverndarlaga fer Barnaverndarstofa með umsjón fósturmála. Hún sér um námskeiðshald fyrir þá sem hafa áhuga á að gerast fósturforeldrar, annast leyfisveitingar til fósturforeldra og heldur skrá yfir þá og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum. Um fósturráðstafanir gilda staðlar Barnaverndarstofu sem skilgreina kröfur um verklag og er ætlað að tryggja gæði umönnunar og meðferðar og treysta öryggi og rétt barna sem vistuð eru utan heimilis. Samkvæmt 70. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur veita því nauðsynlegan stuðning á meðan fóstur varir og fylgjast með aðbúnaði og líðan barnsins og því að ráðstöfun nái tilgangi sínum. Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Þá er hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. barnaverndarlaga skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd skv. 17. gr. sömu laga.
    Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, fer ráðherra með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks og ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum. Þá hefur hann eftirlit með framkvæmd laganna, það á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum séu í samræmi við markmið þeirra, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, sbr. 3. gr. laganna.
    Skv. 4. gr. laganna bera sveitarfélög ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar, þ.m.t. gæðum hennar. Þá skulu þau hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal eftirlit með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við einkaaðila um að veita þjónustu samkvæmt lögunum. Af því leiðir að það eru sveitarfélögin sem bera fyrst og fremst ábyrgð á eftirliti með einstaka málum og þeim úrræðum sem þau sjálf reka. Ráðuneytið hefur svo eftirlit með að sveitarfélög sinni skyldum sínum lögum samkvæmt. Þá er rétt að benda á að heimilt er að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála skv. 5. gr. a.
    Að lokum ber hverjum þeim sem telur að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings að tilkynna það til réttindagæslumanns á viðkomandi svæði skv. 6. gr. laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Réttindagæslumaður kannar þá málið í samráði við hinn fatlaða einstakling og veitir honum nauðsynlegan stuðning og getur eftir atvikum aðstoðað viðkomandi við að leita réttar síns.

     7.      Hvernig skiptist kostnaður á milli ríkis og sveitarfélaga?
    Ríkið stendur straum af kostnaði vegna úrræða skv. 79. gr. barnaverndarlaga en sveitarfélög standa straum af kostnaði vegna úrræða á grundvelli ákvæða 84. gr. laganna.
    Sveitarfélög greiða kostnað vegna fósturráðstafana á þeirra vegum. Ef þörf er fyrir að barni sé veitt sérstök umönnun og þjálfun á fósturheimili getur því verið ráðstafað í styrkt fóstur skv. 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga. Ef Barnaverndarstofa samþykkir ráðstöfun barns í styrkt fóstur greiðir ríkið hluta kostnaðarins skv. 2. mgr. 88. gr. barnaverndarlaga og 6. gr. reglugerðar nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri.
    Ef barn er vistað í úrræði vegna fötlunar er kostnaður greiddur af sveitarfélagi að hluta og að hluta úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en það fer eftir atvikum hverju sinni hversu mikill hluti kemur úr sjóðnum.

     8.      Hvaða kostnað bera aðstandendur barna með fötlun sem þiggja vistunarúrræði?
    Skv. 89. gr. barnaverndarlaga eru foreldrar barns sem vistað er utan heimilis framfærsluskyldir gagnvart því. Barnaverndarnefnd getur krafið foreldra um framfærslueyri með barni meðan á vistun stendur með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra. Barnaverndarnefnd úrskurðar um fjárhæð framfærslueyris. Foreldri sem hefur verið svipt forsjá barns síns með dómi er ekki skylt að framfæra það.
    Ekki eru heimildir í lögum um málefni fatlaðs fólks til þess að krefja foreldra um greiðslur vegna þjónustu við börn þeirra.