Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 620  —  266. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um eigendastefnu Landsvirkjunar.


     1.      Er gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun hafin eins og gefin eru fyrirheit um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hvenær er áformað að hún taki gildi?
    Ráðuneytið vinnur nú að því að uppfæra eigandastefnur fyrir félög í eigu ríkisins. Drög að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins voru birt til umsagnar á vef ráðuneytisins 10. febrúar 2017 og var frestur til umsagna gefinn til 20. mars 2017. Verið er að vinna úr þeim umsögnum sem bárust og er stefnt að útgáfu uppfærðrar eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki fyrir lok apríl.
    Uppfærsla á almennri eigandastefnu fyrir hluta- og sameignarfélög í eigu ríkisins er nú í vinnslu í ráðuneytinu. Þar er gerð grein fyrir almennum markmiðum ríkisins með rekstri slíkra félaga, meginreglum og viðmiðum um stjórnarhætti ásamt kröfum og árangursviðmiðum. Samhliða er unnið að sérstökum reglum um val á stjórnarmönnum í stjórnir félaga í eigu ríkisins og er gert ráð fyrir að þær verði hluti af almennu eigandastefnunni. Stefnt er að því að drög að uppfærðri almennri eigandastefnu verði sett á vef ráðuneytisins til umsagnar fyrir lok maí, en þó eftir að ný eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki hefur verið samþykkt.
    Í framhaldi verður unnið að gerð viðauka við almennu eigandastefnuna þar sem sett verða fram sérstök viðmið fyrir einstaka geira og/eða fyrirtæki eftir þörfum. Stefnt er að því að fyrsti slíki viðaukinn verði fyrir orkugeirann og þau orkufyrirtæki sem ríkið á meiri hluta í, þ.m.t. Landsvirkjun. Er stefnt að því að drög að þessum viðauka verði sett á vef ráðuneytisins til umsagnar á haustmánuðum.

     2.      Hvernig verður unnið að því við gerð stefnunnar að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn og hvaða aðila telur ráðherra að þurfi að hafa samráð við til þess að þetta markmið nái fram að ganga?
    Verklag við endurnýjun almennu eigandastefnunnar verður svipað og verklag við eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Ljóst er hins vegar að hinn sérstaki viðauki fyrir orkugeirann og/eða einstök orkufyrirtæki mun þurfa að taka á ýmsum og umfangsmiklum þáttum varðandi stöðu þessa geira og fyrirtækja gagnvart íslenskri náttúru, efnahagslífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Þá verður haft samráð við viðeigandi fagráðuneyti eins og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þó ekki liggi fyrir á þessu stigi hvernig samráði verði háttað við aðra aðila má gera ráð fyrir að umtalsvert samráð verði haft við ýmsa hagsmunaaðila áður en þessari vinnu verður lokið auk þess sem leitað verði til sérfræðinga um málefnið. Gert er ráð fyrir að drög að slíkum viðauka verði að því búnu kynnt opinberlega á vef ráðuneytisins og kallað eftir almennum umsögnum og viðbrögðum.

     3.      Hver er skilningur ráðherra á þeim orðum stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að í eigendastefnu Landsvirkjunar beri að hámarka virði orkunnar? Er þar eingöngu vísað til fjárhagslegra arðsemissjónarmiða eða verður fleiri mælikvörðum beitt til að meta virði orkunnar?
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er mælt fyrir um að við ákvarðanir varðandi verkefni, fjárfestingar og rekstur Landsvirkjunar verði horft til umhverfismála, sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar þegar unnið er að því að hámarka virði orkunnar til heilla fyrir almenning. Þá kemur fram „að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn“.
    Í hinni almennu eigandastefnu ríkisins kemur fram að félög í eigu þess skili ásættanlegri eða viðunandi afkomu til lengri tíma. Þar er þó alltaf horft til þess að arðsemi er háð því umhverfi og þeim viðmiðum í stjórnarháttum og rekstri sem sett eru fram í eigandastefnu ríkisins og viðaukum við hana hverju sinni. Gera má ráð fyrir að framangreind stefnumörkun ríkisstjórnarinnar muni að þessu leyti endurspeglast í nýrri eigandastefnu fyrir orkugeirann.