Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 752  —  455. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kötlu Hólm Þórhildardóttur um málefni trans- og intersex-fólks.


     1.      Mun ráðherra ráðast í endurskoðun á lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda og ef svo er:
                  a.      munu trans- og intersex-einstaklingar fá aðkomu að þeirri endurskoðun,
                  b.      hvenær sér ráðherra fyrir sér að þessi vinna geti farið af stað?

    Heilbrigðisráðherra telur að núgildandi lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, hafi skilað umtalsverðum réttarbótum til handa þeim einstaklingum sem lögin ná til. Lögunum er ætlað að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi. Samkvæmt lögunum er kynáttunarvandi upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu. Af þessu leiðir að lögin ná ekki til intersex-einstaklinga nema þeir flokkist einnig með kynáttunarvanda. Intersex-einstaklingar eru einstaklingar sem fæðast með óráðin eða óhefðbundin/ódæmigerð kyneinkenni eða það sem stundum hefur verið kallað breytileika í líffræðilegu kyni.
    Talsverð þróun hefur verið á báðum þessum sviðum í löggjöf annarra ríkja og hefur þróunin verið í átt til aukins sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins í samræmi við kynvitund hans.
    Í janúar 2014 samþykkti Alþingi að fela þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að gera tillögur að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu. Nefndin hóf störf í maí sama ár en því miður hefur vinna nefndarinnar dregist og endanlegar tillögur liggja því ekki fyrir.
    Heilbrigðisráðherra er kunnugt um að mikil vinna hefur farið fram í nefndinni og telur mikilvægt að byggt verði á þeirri vinnu varðandi mögulega endurskoðun laganna en fyrir liggur að nefndin hefur m.a. haft til umfjöllunar hugsanlega endurskoðun á lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Því hyggst ráðherra ekki hefja vinnu við endurskoðun laga nr. 57/2012 að svo stöddu. Ef niðurstaðan verður að þörf sé á endurskoðun laganna er sjálfsagt og eðlilegt að haft sé samráð við fulltrúa trans- og intersex fólks.

     2.      Hversu margar aðgerðir hafa verið gerðar á ungbörnum með ódæmigerð kyneinkenni frá og með árinu 2000, sundurliðað eftir árum?
    Svar við þessari spurningu er unnið úr gögnum úr vistunargrunni heilbrigðisstofnana. Gögn fyrir legudeildir sjúkrahúsa ná aftur til ársins 2000 en gögn fyrir ferlideildir ná aftur til ársins 2010. ICD-10 er alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála. Miðað er við eftirfarandi ICD-10 greiningar á árunum 2000–2016 fyrir börn á aldrinum 0–10 ára:
     1.      ICD-10 sjúkdómsgreiningarkóða Q56 Órætt kyn og sýndartvíkyn (með öllum undirkóðum).
     2.      NCSP-IS aðgerðarkóða KGSH90 Reconstruction of penis in intersex operation.
    Þessir greiningarkóðar eru einu kóðarnir sem talið er að tengist beint annaðhvort intersex eða óræðu kyni. Engar aðgerðir hafa verið gerðar á börnum 0–10 ára á grundvelli framangreindra greininga á þessu tímabili.
    Jafnframt var tekinn út listi yfir allar aðgerðir á kynfærum á börnum á þessum aldri og á þessu sama tímabili. Þá voru sérstaklega skoðaðar tvær aðgerðir af þeim sem fundust, þ.e. lýtaaðgerðir á húð á lim og eistanám. Lýtaaðgerðirnar voru í öllum tilvikum gerðar vegna ofaukinnar forhúðar, forhúðarþröngvar og/eða reðurhúfukreppu. Ef eista var fjarlægt var það aðeins annað eistað og alltaf vegna snúnings á eista.
    Samkvæmt framangreindu hefur ekkert barn verið skráð á legudeildum eða ferlideildum sjúkrahúsa frá árinu 2000 með órætt kyn og sýndartvíkyn, eða gengist undir skurðaðgerð sem beint má tengja við órætt kyn.

     3.      Mun ráðherra leggja fram frumvarp til laga eða setja reglugerð um heilbrigðisþjónustu trans- og intersex-barna?
    Þau lög sem nú eru í gildi og varða heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. lög nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og lög nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, gilda jafnt um heilbrigðisþjónustu fullorðinna og barna. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er fjallað um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Markmið laganna er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laganna, laga um sjúkratryggingar og laga um réttindi sjúklinga. Þá er markmið laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt lögunum er óheimilt að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Er það mat ráðherra að fyrirliggjandi lagagrundvöllur eigi að tryggja réttindi trans- og intersex-barna innan heilbrigðisþjónustunnar og því sé ekki þörf á sérlögum eða reglugerðum varðandi málið að svo stöddu. Komi annað í ljós mun ráðherra beita sér fyrir því að núverandi lögum verði breytt á þann veg að ekki halli á hlut trans- og intersex-barna.
    Það er mat heilbrigðisyfirvalda að hér á landi séu ekki gerðar ónauðsynlegar aðgerðir á börnum og að réttindi barnsins séu ávallt höfð í fyrirrúmi.