Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 834  —  464. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um virðisaukaskattsskylda veltu hótela og gistiheimila.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjar voru fjárhæðir virðisaukaskattsskyldrar veltu hótela og gistiheimila á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ) annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar á árunum 2013–2016?

    Þær fjárhæðir sem um ræðir eru settar fram í eftirfarandi töflu. Upplýsingarnar taka til þeirra fyrirtækja sem skráð eru í rekstri hótela og gistiheimila (með og án veitingaþjónustu) í grunnskrá virðisaukaskatts. Þannig nær þessi samantekt til þeirra fyrirtækja sem skráð eru í atvinnugreinanúmer (ÍSAT-nr.) 55.10.1 og 55.10.2, en ekki til þeirra fyrirtækja sem skráð eru í aðrar atvinnugreinar en reka hótel- og gistiþjónustu meðfram aðalstarfsemi sinni.
    Höfuðborgarsvæðið er skilgreint sem Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Kjósarhreppur. Öll önnur sveitarfélög teljast til landsbyggðar.

Virðisaukaskattsskyld velta hótela og gistiheimila 2013–2016
Fjárhæðir í millj. kr. Á verðlagi hvers árs
2013 2014 2015 2016
Höfuðborgarsvæði 16.134 19.655 25.087 34.418
Landsbyggð 14.614 17.244 24.297 33.193
Skýring: Upplýsingarnar ná til allra aðila sem skráðir eru í atvinnugreinar 55.10.1 (hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu) og 55.10.2 (hótel og gistiheimili án veitingaþjónustu). Áætluð velta þeirra aðila sem ekki hafa skilað skattframtölum eða VSK-skýrslum er ekki talin með.
Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að aðgreina hvar umrædd velta á sér stað í raun og veru, einungis hvar virðisaukaskattsnúmer er skráð, sem í flestum tilvikum er þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru, þótt það geti rekið starfsemi á mörgum stöðum. Fyrir vikið er velta í einhverjum tilvikum ofmetin fyrir svæði þar sem höfuðstöðvar eru staðsettar og vanmetin á svæðum þar sem dótturfyrirtæki eru starfrækt.