Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 848  —  562. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á landi Vífilsstaða.

Frá Sigurði Inga Jóhannssyni.


     1.      Stendur Reykjavíkurborg til boða að kaupa land Keldna, Keldnaholts og Úlfarsfells á sömu kjörum og með sömu fyrirvörum og Garðabær keypti land Vífilsstaða á?
     2.      Býðst Kópavogsbæ að kaupa land á Vatnsendahæð á sömu kjörum og Garðabær keypti land Vífilsstaða á?
     3.      Hversu stórt var landsvæði Vífilsstaða sem ráðuneytið leysti til sín í árslok 2014 og hafði til þess tíma verið á forræði Landspítala og hvert var verð hvers hektara á því landi?
     4.      Hvers vegna var ekki gerður fyrirvari í kaupsamningi ríkisins við Garðabæ um mögulega nýtingu hluta hins selda lands undir heilbrigðisþjónustu í framtíðinni?
     5.      Hvernig og hvenær var haft samráð við Landspítalann áður en að sölu kom?
     6.      Hvert telur ráðherrann að geti orðið markaðsvirði þessa sama landsvæðis Vífilsstaða að liðnum þeim 40 árum sem ábatasamningurinn gildir?
     7.      Hvaða samráð hafði ráðherra við heilbrigðisráðherra áður en gengið var frá sölu Vífilsstaðalands til Garðabæjar?
     8.      Hvenær var sala Vífilsstaðalands rædd í núverandi ríkisstjórn og samþykkt þar?
     9.      Hvaða landsvæði á höfuðborgarsvæðinu, annað en land Vífilsstaða, telur ráðherrann að komi til greina fyrir framtíðaruppbyggingu fyrir heilbrigðisþjónustu að 20–40 árum liðnum?
     10.      Leitaðist ráðuneytið eftir að fá sem hæst verð fyrir Vífilsstaðalandið?


Skriflegt svar óskast.