Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 879  —  444. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um skráningu og vernd menningarminja á ströndum landsins.


    Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskaði eftir upplýsingum frá Minjastofnun Íslands um þau atriði sem fyrirspurnin lýtur að. Svar ráðuneytisins byggist á þeim upplýsingum sem Minjastofnun veitti, tölusett með vísun til töluliða fyrirspurnarinnar.

     1.      Liggur fyrir áætlun um skráningu og vernd menningarminja á ströndum landsins sem eru í hættu vegna sjávarrofs eða líkur eru á að verði það í fyrirsjáanlegri framtíð?
    Búið er þróa ákveðna aðferðafræði og gera drög að áætlun um skráningu fornleifa við ströndina en fjárveiting er ekki til reiðu til að fylgja áætluninni eftir. Verndaráætlun fyrir menningarminjar við strendur landsins hefur hins vegar ekki verið unnin, enda skortir þá yfirsýn sem nauðsynleg er til að gera slíka áætlun.
    Vitað er af fjölda staða sem liggja undir skemmdum eða eru í fyrirsjáanlegri hættu, en Minjastofnun á eftir að fara í þá vinnu sem nauðsynleg er til að meta hvaða aðgerðir eru ákjósanlegar og mögulegar. Það er þrennt sem kemur til greina: Rannsókn, verndun eða vöktun.

     2.      Hvernig er staðan á skráningu menningarminja á ströndum landsins og liggur fyrir hverjar þeirra eru í hættu vegna sjávarrofs?
    Staða fornleifaskráningar í landinu er sú að aldursfriðaðar minjar eru taldar vera um 250 þúsund en aðeins er búið að skrá um 20–25% af þeim fjölda. Hvað strandminjar varðar má gera ráð fyrir að hlutfallið sé svipað.
    Upplýsingar og gögn vantar um umfang vandans, þ.e. hraða landbrots, fjölda minja, tegundir minja, hvað er farið og hvað er að glatast.

     3.      Getur ráðherra upplýst hve miklu fé þyrfti að verja til að skrá fornminjar á ströndum landsins og gera áætlun um varðveislu þeirra?
    Í fyrsta áfanga skráningarátaks strandminja var um 10 millj. kr. varið í skráningu þriggja
strandsvæða sem sett höfðu verið í forgang, samtals um 150 km af strandlengju.
    Minjastofnun Íslands valdi svæðin út frá ákveðnum forsendum í sex liðum og gerði kröfu um skráningu eftir ákveðinni aðferðafræði. Sú aðferðafræði byggist á hefðbundnum stöðlum við fornleifaskráningar að viðbættum kröfum um mælingar og skráningu á sjávarbökkum við
minjastaði auk upplýsingaöflunar um þróun landbrots þar sem völ er á.
    Óskað var eftir tilboðum í skráningu þessara svæða á almennum markaði og reyndist töluverður munur á tilboðunum sem bárust sem endurspeglar óvissu við kostnað slíkrar skráningar, bæði vegna þess að um nýja aðferðafræði er að ræða að hluta til og einnig vegna þess hve erfitt getur verið að meta fjölda minja á skráningarsvæðum fyrir fram. Það á því eftir að koma í ljós hvort þeir aðilar sem samið var við um skráningu þessara þriggja svæða treysti sér til að gera sambærileg tilboð í önnur svæði í framtíðinni. Hvort kostnaður við þennan fyrsta áfanga endurspeglar raunverulegan kostnað við skráningu af þessu tagi er með öðrum orðum óljóst. Sé hins vegar miðað við þessar tölur að hægt sé að skrá 150 km fyrir 10 millj. kr. ætti að vera hægt að skrá strandlengjuna alla (ca. 5.000 km) fyrir um 330 millj. kr.

     4.      Hver er staða skráningarverkefnis sem hófst sumarið 2016 með samastað í starfsstöð Minjastofnunar Íslands á Sauðárkróki og hvernig sér ráðherra framtíð þess fyrir sér?
             Ráðið var í stöðu verkefnisstjóra til að hafa umsjón með skráningu og gerð áætlana um
verndun og rannsóknir strandminja sumarið 2016. Vegna mannabreytinga innan Minjastofnunar er sá aðili tekinn við stöðu minjavarðar Norðurlands vestra en mun áfram stýra verkefninu en fá fleiri starfsmenn stofnunarinnar með sér í þá vinnu.
    Auk þessa stöðugildis var 10 millj. kr. veitt til verkefnisins til að fjármagna aðgerðir. Þeim
fjármunum var að mestu varið í fornleifaskráningu sem óskað var tilboða í á almennum markaði og verður sú skráning unnin nú á vordögum 2017.

     5.      Hve miklu fé hefur verið varið til sjóvarna í því skyni að vernda menningarminjar á ströndum landsins undanfarin tíu ár og hvar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess?
    Samkvæmt lögum um sjóvarnir, nr. 28/1997, ber Vegagerðin (áður Siglingastofnun) ábyrgð á þeim málaflokki. Stofnunin heyrir undir málefnasvið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Mennta- og menningarmálaráðuneyti býr ekki yfir upplýsingum um þær upphæðir sem varið hefur verið til sjóvarna á undaförnum árum.