Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 883  —  296. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um stefnu í íþróttamálum og stuðning við keppnis- og afreksíþróttir.


     1.      Hvað líður endurskoðun á stefnumótun ráðuneytisins í íþróttamálum sem birt var í september 2011 og gilti á árabilinu 2010–2015?
    Íþróttanefnd vinnur að endurskoðun á stefnumótun ráðuneytisins í íþróttamálum í samstarfi við ráðuneytið. Stefnt er að því að ný stefna verði gefin út næsta haust.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að gera sérsamböndum fjárhagslega auðveldara að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands líkt og kveðið er á um í fyrrgreindri stefnumótun?
    Árið 2011 þegar stefna ráðuneytisins var birt nam stuðningur stjórnvalda til sérsambanda 61,8 millj. kr. á fjárlögum. Þá var framlag stjórnvalda í afrekssjóð sem er stuðningur vegna landsliðsverkefna sérsambanda 24,7 millj. kr. Framlag til sérsambanda lækkaði á fjárlögum ársins 2012 í 60,5 millj. kr. en framlag í afrekssjóð hækkaði í 34,7 millj. kr. Stuðningur til sérsambanda hækkaði í 70 millj. kr. á fjárlögum 2013 og í 85 millj. kr. á fjárlögum 2014 og hélst þannig árin 2015 og 2016 áður en framlagið hækkaði í 95 millj. kr. á fjárlögum 2017. Á sama tíma hækkaði framlag í afrekssjóð í 55 millj. kr. árið 2013 og aftur í 70 millj. kr. árið 2014. Framlag í afrekssjóð var aukið í 100 millj. kr. á fjárlögum 2016. Samningur um frekari hækkun framlaga í afrekssjóð var gerður til þriggja ára sem gildir 2017–2019. Samkvæmt samningnum verður framlag til afrekssjóðs 200 millj. kr. árið 2017. Þannig má segja að markmið stefnumótunarinnar að þessu leyti hafi náðst sem þessu nemur á fyrrgreindu tímabili og eftir það.

     3.      Hvert var framlag ríkissjóðs til afrekssjóðs og ferðasjóðs ÍSÍ á árunum 2007–2016, sundurliðað eftir árum?
    Framlag stjórnvalda í afrekssjóð og ferðasjóð íþróttafélaga á árunum 2007–2016 var eftirfarandi, í millj. kr.:
Ár Afrekssjóður Ferðasjóður
2007 30 30
2008 30 59
2009 30 60
2010 25,5 57
2011 24,7 54,1
2012 34,7 64,7
2013 55 70
2014 70 85
2015 70 85
2016 100 100
     4.      Hverjir voru styrkir úr afrekssjóði ÍSÍ á árunum 2007–2016? Svar óskast sundurliðað eftir árum og sérsamböndum.
    Hægt er að nálgast upplýsingar um úthlutanir afrekssjóðs og úthlutanir til sérsambanda í ársskýrslum ÍSÍ sem birtar eru á vef ÍSÍ, www.isi.is.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     5.      Hvernig skiptust framlög úr afrekssjóði ÍSÍ á árunum 2007–2016 milli fólks sem hefur íþrótt sína að meginatvinnu og áhugamanna? Svar óskast sundurliðað eftir árum, kynjum og sérsamböndum.
    Framlög í afrekssjóð greinast ekki eftir því hvort einstaklingar hafi atvinnu af íþróttaiðkun sinni eða eru áhugamenn. Styrkir úr afrekssjóði eru greiddir vegna verkefna sérsambanda hvort sem um er að ræða verkefni sem einstaklingar eða hópar fara í á vegum þeirra. Styrkir úr afrekssjóði eru ekki launagreiðslur til íþróttafólks heldur greiðsla á kostnaði vegna verkefna þeirra sem landsliðsfólks í keppni fyrir hönd Íslands. Hér gildir einu hvort viðkomandi hefur atvinnu af iðkun hjá félagsliði eða er áhugamaður. Það er fyrst og fremst geta viðkomandi einstaklings sem gerir það að verkum að sérsamband getur sótt um styrki úr afrekssjóði fyrir einstaklinga eða íþróttahópa. Sjá má kynjaskiptingu styrkja úr afrekssjóði í svari við 4. tölulið fyrirspurnarinnar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     6.      Hverjir voru styrkir úr ferðasjóði ÍSÍ á tímabilinu 2007–2016? Svar óskast sundurliðað eftir árum, íþróttafélögum, íþróttagreinum og kynjum.
    Framlag ráðuneytisins í ferðasjóð er tilgreint í svari við 3. tölulið fyrirspurnarinnar. Sundurgreining og framlag ráðuneytisins birtist í meðfylgjandi töflum. Gert er ráð fyrir skráningu kyns í hverja ferð í umsóknarkerfi ferðasjóðs íþróttafélaga. Ef bæði kynin ferðast saman í sömu ferð á mót, eins og algengt er í einstaklingsíþróttagreinum, er skráð í kynjadálk umsóknar orðið „bæði“. Það er því ekki hægt að taka út úr gagnagrunni ferðasjóðs íþróttafélaga hreina kynjaskiptingu allra ferða sem sótt er um í sjóðinn. Í eftirfarandi töflum má sjá ferðastyrki kyngreinda fyrir allt tímabilið niður á íþróttafélög, héraðssambönd og íþróttagreinar.

     7.      Á hvað leggur ráðuneytið áherslu í nýjum reglum afrekssjóðs ÍSÍ sem unnið er að í tengslum við aukið framlag ríkisins til sjóðsins?
Ráðuneytið semur ekki nýjar reglur afrekssjóðs ÍSÍ. Það verkefni er í höndum ÍSÍ og það er framkvæmdastjórn ÍSÍ sem samþykkir nýjar úthlutunarreglur sjóðsins. Úthlutunarreglurnar byggja á afreksstefnu ÍSÍ sem samþykkt er af íþróttaþingi ÍSÍ. Formaður íþróttanefndar hefur átt sæti í stjórn afrekssjóðs samkvæmt samningi sem ráðuneytið gerir við ÍSÍ um fjármögnun sjóðsins, auk þess sem í reglugerð um sjóðinn segir í 1. gr.: „Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar sex þeirra að loknu íþróttaþingi, auk þess tilnefnir ráðherra íþróttamála einn stjórnarmann, meðan ríkissjóður leggur fram fé til sjóðsins en þar er tilgreint að ráðuneytið eigi fulltrúa í sjóðsstjórninni.“ Þannig hefur ráðuneytið haft óbeina aðkomu að mótun tillagna um nýjar reglur um sjóðinn. Hins vegar skiptir miklu máli þegar um meðferð opinbers fjár er að ræða eins og í tilviki afrekssjóðs ÍSÍ að fjármunirnir nýtist í þeim tilgangi að styðja við afreksfólk Íslendinga þannig að góður árangur náist á alþjóðlegum stórmótum. Í því samhengi skiptir gegnsæi við úthlutun, rökstuðningur við úthlutun til verkefna sem og kynjasjónarmið miklu máli. Að auki skiptir miklu samfara auknu fjármagni til sjóðsins að afrek séu skilgreind og að umsjón og umgjörð um afreksfólk verði bætt. Vinnuhópur um endurskoðun á reglum afrekssjóðs, sem skipaður var í kjölfar undirritunar á samningi um aukið framlag ríkisins í sjóðinn, hefur nú afhent ÍSÍ sínar tillögur og eru þær tillögur birtar í skýrslu og viðauka við hana. Í samstarfi við sambandsaðila sína vinnur nú ÍSÍ með þær tillögur sem fram koma í skýrslu vinnuhópsins fram að íþróttaþingi ÍSÍ sem verður haldið í byrjun maí þar sem tillögurnar og afreksstefna ÍSÍ verða teknar fyrir.

Skýrsla vinnhóps um endurskoðun á reglum afrekssjóðs ÍSÍ:
isi.is/library/Skrar/Afreks--og-olympiusvid/Sk%C3%BDrsla%20-%20Vinnuh%C3 %B3pur%20um%20endursko%C3%B0un%20%C3%A1%20reglum%20Afrekssj%C3%B3%C3%B0s%20%C3%8DS%C3%8D%2007032017-final.pdf

Viðauki: Ítarefni við skýrslu:
isi.is/library/Skrar/Afreks--og-olympiusvid/Sk%C3%BDrsla%20-%20Vinnuh%C3 %B3pur%20um%20endursko%C3%B0un%20%C3%A1%20reglum%20Afrekssj%C3%B3%C3%B0s%20%C3%8DS%C3%8D%20-%20%C3%8Dtarefni.pdf