Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 894  —  77. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og Kolbrúnu Þorkelsdóttur frá fjölmiðlanefnd, Hrafnkel Lárusson, Sigrúnu Stefánsdóttur frá Háskólanum á Akureyri og Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá fjölmiðlanefnd, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Háskólanum á Akureyri, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Siglfirðingi.is og Skessuhorni ehf.
    Með tillögunni er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri úttekt á starfsemi og stöðu fjölmiðla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins. Hópnum yrði falið að leggja fram tillögur sem feli í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu landsbyggðarfjölmiðla þannig að þeir fái gegnt lýðræðis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki sínu.
    Ráðherra er jafnframt falið að sjá starfshópnum fyrir starfsaðstöðu og að greiða kostnað við störf hans. Vinnunni skal vera lokið eigi síðar en 1. nóvember 2017.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um að mikilvægt væri að huga að stöðu minni staðbundinna fjölmiðla. Fram komu sjónarmið um að nauðsynlegt sé að hér á landi starfi fjölbreyttir fjölmiðlar auk þess sem bent var á að staðbundnir fjölmiðlar sinni mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga til nærsamfélagsins. Fyrir nefndinni var jafnframt rætt um að staðbundnir fjölmiðlar sinna einnig aðhalds- og umræðuhlutverki gagnvart svæðisbundnum stofnunum sem stærri fjölmiðlar á landsvísu hafa ekki tök á eða áhuga á að beina sjónum að. Staðbundnir fjölmiðlar geta þannig verið mikilvægir í samfélagsumræðu og þróun lýðræðis. Ljóst er hins vegar að rekstrargrundvöll þeirra þarf að styrkja.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að í lok árs 2016 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, nefnd til að gera „tillögur um breytingar á lögum og/eða aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að hér á landi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla með tilliti til mikilvægs hlutverks þeirra fyrir lýðræðisþróun og samfélagsumræðu,“ samkvæmt erindisbréfi nefndarmanna. Fyrir nefndinni var bent á að tilefni skipunar nefndarinnar hafi m.a. verið áskorun einkarekinna fjölmiðla um að stjórnvöld gerðu „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um þann möguleika að útvíkka hlutverk nefndarinnar til að skoða jafnframt stöðu fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins, og eftir atvikum koma með tillögur sem næðu til þeirra sérstaklega. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að hætta væri á að vandi minni staðbundinna fjölmiðla á landsbyggðinni gæti fallið í skuggann við vinnu nefndarinnar og að áhersla yrði lögð á stærri einkarekna fjölmiðla og rekstrarstöðu þeirra.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að sérstök úttekt verði gerð á stöðu staðbundinna fjölmiðla. Meiri hlutinn beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að tryggja að gert verði ráð fyrir fjármögnun úttektarinnar í frumvarpi til fjárlaga og hvetur fjárlaganefnd til að fylgja því eftir. Meiri hlutinn leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Guðjón S. Brjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. maí 2017.

Eygló Harðardóttir,
frsm.
Iðunn Garðarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Björn Leví Gunnarsson. Valgerður Gunnarsdóttir.
Pawel Bartoszek,
með fyrirvara.