Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 957  —  532. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um einkavæðingu Fjölbrautaskólans við Ármúla.


     1.      Hvað er gert ráð fyrir að Tækniskólinn greiði fyrir Fjölbrautaskólann við Ármúla og þær eignir sem honum fylgja?
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um sameiningu Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskóla Íslands.

     2.      Hvert er virði þeirra eigna, í íslenskum krónum, sem gert er ráð fyrir að renni til Tækniskólans frá íslenska ríkinu við sameiningu við Fjölbrautaskólann við Ármúla? Hverjar eru þessar eignir?
    Ef ákvörðun verður tekin um þessa sameiningu yrði væntanlega sama fyrirkomulag viðhaft og gilt hefur við fyrri sameiningar. Það þýðir að þá mundu engar eignir renna inn í Tækniskólann við gerð þjónustusamnings um rekstur Fjölbrautaskólann við Ármúla. Engar eignir vegna þessa yrðu skráðar í efnahagsreikning Tækniskólans enda er ríkið eigandi eignanna og Tækniskólinn yrði einungis rekstraraðili. Tækniskólinn mundi greiða húsaleigu fyrir húsnæði skólans sem er í eigu ríkisins á sama hátt og aðrir framhaldsskólar.

     3.      Hver verður eignarhlutur íslenska ríkisins í Tækniskólanum að lokinni sameiningu við Fjölbrautaskólann við Ármúla?
    Enginn, sjá svar við 2. lið.