Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 985  —  272. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (PállM, LRM, ÁsF, HKF, GBr, ÓBK, ÞórE, ThÞ).


     1.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Nýting sjávargróðurs skal, auk ákvæða í þessum lögum, vera í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, og lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, eftir því sem við á.
     2.      Í stað 1. efnismgr. 4. gr. komi fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu stunda rannsóknir og vöktun á sjávargróðri og vistgerðum, vistkerfum og lífríki sem tengist honum. Hafrannsóknastofnun skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu sjávargróðurs, sbr. II. kafla A, og skal leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um ráðgjöf sína.
                 Ráðgjöf, rannsóknir og vöktun á nýtingu sjávargróðurs skal m.a. taka mið af 2. gr. laga um náttúruvernd um verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og lögum um vernd Breiðafjarðar.
                 Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu gera vöktunaráætlun um nýtingu sjávargróðurs sem verður hluti af vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru í samræmi við 1. og 2. mgr. 74. gr. laga um náttúruvernd.
                 Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að gera samninga við aðra aðila, svo sem stofnanir, náttúrustofur eða háskólasetur, um framkvæmd einstakra rannsókna eða vöktunar eftir því sem við á. Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu halda gagnagrunna um niðurstöður rannsókna og vöktunar og skulu niðurstöðurnar birtar reglulega og vera öllum aðgengilegar.
     3.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað orðanna „annarra laga“ í 3. mgr. a-liðar (15. gr. a) komi: öðrum lögum.
                  b.      Á eftir orðunum „sem stunda öflun á sjávargróðri“ í 5. mgr. a-liðar (15. gr. a) komi: í atvinnuskyni.
                  c.      Í stað orðanna „Heimilt er að skipta“ í 1. málsl. 2. mgr. b-liðar (15. gr. b) komi: Ráðherra er heimilt að skipta.
                  d.      Lokamálsliður 2. mgr. b-liðar (15. gr. b) orðist svo: Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari málsgrein skal að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra aðila eftir atvikum, svo sem Breiðafjarðarnefndar, við nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði.
                  e.      Í stað orðanna „eftir því“ í 2. málsl. 3. mgr. c-liðar (15. gr. c) komi: um.
     4.      Við 7. gr.
                  a.      2. efnismgr. orðist svo:
                      Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum skal njóta forgangs umfram aðra umsækjendur við fyrstu útgáfu leyfa skv. 15. gr. c sem nemur allt að 20.000 tonnum alls. Óheimilt er að framlengja eða framselja heimildir veittar samkvæmt ákvæði þessu.
                  b.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.     (II.)
                           Í samræmi við 3.–6. mgr. 3. gr. skal gera rannsóknar- og vöktunaráætlun fyrir lífríki Breiðafjarðar í tengslum við nýtingu sjávargróðurs til a.m.k. þriggja ára. Vakta skal áhrif nýtingar sjávargróðurs til frambúðar ef af henni verður. Í rannsóknar- og vöktunaráætlun skal leitast við að svara sem flestu um áhrif nýtingar sjávargróðurs á lífríki Breiðafjarðar en vistgerðir þangs og þara eru búsvæði fjölda tegunda sem eru mikilvægar jafnt fyrir vistkerfi fjarðarins í heild sem og einstaka nytjastofna. Framkvæmd rannsóknar- og vöktunaráætlunar er ætlað að tryggja vistfræðilega nálgun við ákvarðanatöku og mat á vernd og sjálfbærri nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði.
                           Að þremur árum liðnum skal ráðherra hefja undirbúning að frumvarpi um sjálfbæra nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði sem taki mið af niðurstöðum rannsókna. Frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa ákvæðis. Kostnaður við rannsóknir og vöktun samkvæmt ákvæði þessu greiðist úr ríkissjóði.
                           Úthluti ráðherra leyfum til nýtingar sjávargróðurs í Breiðafirði áður en rannsóknar- og vöktunaráætlun liggur fyrir og tillögur um sjálfbæra nýtingu hafa verið samþykktar skal það aðeins gert til fimm ára í senn og að viðhöfðum ýtrustu varúðarsjónarmiðum.
                  b.     (III.)
                           Hefja skal endurskoðun ákvæða um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni í lögum þessum, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um veiðigjald eigi síðar en 1. október 2020. Ákvæðin falla úr gildi 1. janúar 2023.