Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Nr. 15/146.

Þingskjal 999  —  378. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.


    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar sem gildi þar til ný reglubundin áætlun, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, tekur gildi en þó ekki lengur en til 1. júní 2018:

A. GAGNREYNDAR AÐFERÐIR Í BARNAVERND

1. Nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu.
    Áfram verði unnið að stofnun nýs meðferðarheimilis fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt verði að því að ljúka öðrum áfanga verkefnisins með áætlunargerð og ákvörðun um staðsetningu sem uppfyllir skilyrði frumathugunar, fullhönnunar mannvirkis og eftir atvikum breytingar á deili- og/eða aðalskipulagi. Nýja meðferðarheimilið verði ætlað unglingum sem eru metnir í mikilli áhættu vegna hegðunar- og/eða vímuefnavanda og þar geti ungmenni afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma og setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu. Á meðan á byggingu nýs meðferðarheimilis stendur skal tryggt að úrræðið uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þannig að unglingarnir verði ekki vistaðir meðal fullorðinna eða í einangrun, hvort sem um er að ræða gæsluvarðhald eða afplánun fangelsisdóms.
     Markmið: Að tryggja börnum nauðsynleg meðferðarúrræði og auka vægi gagnreyndra aðferða í stofnanameðferð og stuðla þannig að framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
     Kostnaðaráætlun: 50 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og Framkvæmdasýsla ríkisins.
     Mælikvarði: Öðrum áfanga undirbúnings að stofnun nýs meðferðarheimilis verði lokið fyrir 1. júní 2018.

2. PMTO-þjónusta.
    PMTO-þjónusta barnaverndar verði efld. Í því felist meðal annars að:
     a.      áfram verði unnið að uppbyggingu PMTO-þjónustusvæða á landsvísu,
     b.      PMTO-meðferðaraðilum sem hlotið hafa viðeigandi þjálfun verði fjölgað,
     c.      fram fari reglulegt eftirlit með gæðum þjónustunnar.
     Markmið: Að bjóða upp á úrræði vegna hegðunarvanda barna sem felst í því að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og stuðla að bættum samskiptum barna og foreldra.
     Kostnaðaráætlun: 35 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og barnaverndarnefndir.
     Mælikvarði: PMTO-þjónustusvæðum fjölgi um þrjú og lokið verði menntun 16 PMTO-meðferðaraðila. Þá fari reglulegt gæðaeftirlit fram á sama tímabili.

3. ART-þjónusta.
    ART-þjónusta barnaverndar verði efld. Í því felist meðal annars að:
     a.      áfram verði unnið að uppbyggingu ART-þjónustusvæða á landsvísu,
     b.      ART-meðferðaraðilum sem hlotið hafa viðeigandi þjálfun verði fjölgað,
     c.      fram fari reglulegt eftirlit með gæðum þjónustunnar.
     Markmið: Að bjóða upp á úrræði vegna hegðunarvanda barna sem felst í því að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og stuðla að bættum samskiptum barna og foreldra.
     Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og barnaverndarnefndir.
     Mælikvarði: ART-þjónustusvæðum fjölgi. Þá fari reglulegt gæðaeftirlit fram á sama tímabili.

B. BÆTT VERKLAG Í BARNAVERND

4. Leiðbeinandi verklagsreglur um tilkynningar.
    Settar verði leiðbeinandi verklagsreglur um hvernig meta eigi alvarleikastig tilkynninga til barnaverndarnefnda.
     Markmið: Að styrkja starf barnaverndarnefnda og tryggja nauðsynlega forgangsröðun verkefna.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda Barnaverndarstofu.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Á seinni hluta árs 2017 verði unnar leiðbeinandi verklagsreglur og þær kynntar barnaverndarnefndum. Á fyrri hluta árs 2018 verði verklagsreglurnar teknar í notkun hjá öllum barnaverndarnefndum.

5. Vinnuálag og málafjöldi í barnavernd.
    Áfram verði þróuð aðferð sem fylgt verði eftir svo meta megi með kerfisbundnum hætti vinnuálag starfsfólks í barnavernd.
     Markmið: Að unnt sé að meta og bregðast við álagi á starfsfólk í barnavernd með samræmdum hætti.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Fram fari þróunarvinna sem ljúki fyrir árslok 2017. Fyrir 1. júní 2018 hafi matið verið framkvæmt að minnsta kosti tvisvar hjá stærstu barnaverndarnefndum landsins.

6. ESTER-matskerfið í barnavernd.
    Áfram verði unnið að innleiðingu ESTER-matskerfisins í barnavernd með frekara námskeiðshaldi, handleiðslu og þjálfun. Þá verði lagt mat á reynsluna af innleiðingu kerfisins.
     Markmið: Að innleiða gagnreynda og kerfisbundna matsaðferð við könnun mála í barnavernd og samræma og efla vinnu við að greina og meðhöndla frávikshegðun hjá börnum. Metinn verði árangur af íhlutunum fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
     Kostnaðaráætlun: 7 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Árið 2017 verði haldin þrjú handleiðslunámskeið fyrir þá sem lokið hafa ESTER-grunnnámskeiði. Allar starfsstöðvar barnaverndarnefnda verði heimsóttar í því skyni að veita starfsfólki leiðbeiningar um notkun ESTER-kerfisins. Á fyrri hluta árs 2018 verði óháður aðili fenginn til að meta áreiðanleika ESTER-tækisins og áhrif notkunar þess á störf málstjóra í barnavernd og vinnslu barnaverndarmála.

7. Barnvæn nálgun í heimilisofbeldismálum.
    Börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi verði tryggður nauðsynlegur stuðningur og þjónusta.
    Eftirfarandi verkefni verði unnin:
     a.      fram fari mat á gagnsemi mismunandi aðferða í þjónustu við börn sem hafa upplifað heimilisofbeldi,
     b.      óháðum sérfræðingi verði falið að gera úttekt á vinnulagi sveitarfélaga í málum þar sem börn upplifa heimilisofbeldi.
     Markmið: Að veita börnum sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi sérhæfða þjónustu og að tryggja öryggi þeirra og velferð.
     Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Fyrir liggi úttekt á vinnulagi sveitarfélaga í málum þar sem börn upplifa heimilisofbeldi sem og mat á gagnsemi mismunandi aðferða í þeirri þjónustu fyrir 1. júní 2018.

C. BARNAVERNDARLÖGGJÖF

8. Skipan starfshóps um breytingar á barnaverndarlögum.
    Skipaður verði starfshópur sem falið verði að greina barnaverndarlög og framkvæmd þeirra, leggja mat á þörf fyrir breytingar og gera viðeigandi tillögur þar að lútandi. Í fyrsta áfanga verði hópnum falið að gera tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til þess að setja á laggirnar eða festa í sessi tiltekin úrræði í barnaverndarstarfi á Íslandi, sbr. lið 10, 11 og 12.
     Markmið: Að setja á laggirnar eða festa í sessi tiltekin úrræði í barnavernd.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir, Samband íslenskra sveitarfélaga og fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd ásamt fulltrúum fræðasamfélagsins.
     Mælikvarði: Starfshópur um breytingar á barnaverndarlögum skili áfangaskýrslu til félags- og jafnréttismálaráðherra með tillögum fyrir 1. júní 2018.

9. Viðbrögð við fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum.
    Börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi verði tryggður nauðsynlegur stuðningur og þjónusta.
     Markmið: Að bregðast við mikilli fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir, Kvennaathvarfið og lögreglan.
     Mælikvarði: Settar verði fram tillögur um hvernig barnaverndaryfirvöld hyggjast bregðast við mikilli fjölgun, þ.m.t nauðsynlegar lagabreytingar.

10. MST-fjölkerfameðferð.
    Settar verði fram tillögur um breytingar á barnaverndarlögum til að festa MST-fjölkerfameðferð í sessi og tryggja varanlegt aðgengi að þjónustunni á landsvísu.
     Markmið: Að tryggja aðgengi að sérhæfðri þjónustu í nærumhverfi barna á aldrinum 12– 18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan ramma fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa.
     Mælikvarði: Starfshópur um breytingar á barnaverndarlögum skili áfangaskýrslu til félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir 1. júní 2018 með tillögum um hvernig megi tryggja varanlega MST-þjónustu á landsvísu.

11. Barnahús.
    Settar verði fram tillögur um breytingar á barnaverndarlögum og annarri löggjöf svo skjóta megi tryggari stoðum undir starfsemi Barnahúss og festa hana í sessi.
     Markmið: Að Barnahús veiti áfram sérhæfða þjónustu við börn sem grunur leikur á að séu þolendur kynferðislegs ofbeldis eða alvarlegs líkamlegs ofbeldis og eflt verði samstarf og samhæfing stofnana sem hafa aðkomu að rannsókn og meðferð slíkra mála. Sérstök áhersla verði lögð á mótun verklagsreglna og þjónustu við fötluð börn.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan ramma fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa.
     Mælikvarði: Starfshópur um breytingar á barnaverndarlögum skili áfangaskýrslu til félags- og jafnréttismálaráðherra með tillögum fyrir 1. júní 2018.

12. Viðbragðsteymi vegna voveiflegra dauðsfalla barna.
    Undirbúin verði stofnun viðbragðsteymis vegna voveiflegra dauðsfalla barna sem skrái og greini ótímabær dauðsföll og leiti leiða til að koma í veg fyrir slíkt með því að efla samskipti og samstarf þeirra aðila sem koma að málum barna í áhættu.
     Markmið: Að taka til gaumgæfilegrar athugunar voveifleg dauðsföll barna og viðbrögð við slíkum málum og leita leiða til þess koma í veg fyrir þau.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan ramma fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, barnaverndarnefndir, embætti landlæknis, embætti ríkissaksóknara, embætti ríkislögreglustjóra.
     Mælikvarði: Starfshópur um breytingar á barnaverndarlögum geri tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar í áfangaskýrslu til félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir 1. júní 2018 til þess að setja lagastoð fyrir stofnun viðbragðsteymisins.

13. Setning og endurskoðun reglugerða á grundvelli barnaverndarlaga.
    Setningu reglugerða á grundvelli barnaverndarlaga verði lokið. Auk þess fari fram nauðsynleg endurskoðun á þegar settum reglugerðum og þær uppfærðar í samræmi við gildandi lög.
     Markmið: Að uppfylla ákvæði barnaverndarlaga um setningu reglugerða.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan ramma fjárheimilda velferðarráðuneytisins.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Setningu reglugerða og eftir atvikum endurskoðun þeirra verði lokið fyrir 1. júní 2018.

D. RANNSÓKNIR

14. Afdrifa- og árangurskannanir.
    Reglulega fari fram mat á árangri og könnun á afdrifum barna sem notið hafa þjónustu úrræða á vegum Barnaverndarstofu og barna sem hafa verið í varanlegu, tímabundnu og styrktu fóstri, hjá ættingjum eða óskyldum.
     Markmið: Að fram fari mat á því hvort þjónusta úrræða Barnaverndarstofu hafi skilað tilætluðum árangri og stuðlað að lausn þess vanda sem glímt er við hverju sinni.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið, barnaverndarnefndir og háskólastofnanir.
     Mælikvarði: Reglulega verði framkvæmdar kannanir á afdrifum barna sem notið hafa þjónustu úrræða Barnaverndarstofu og barna sem hafa verið í varanlegu, tímabundnu og styrktu fóstri, hjá ættingjum eða óskyldum, og stofan geri grein fyrir niðurstöðum að minnsta kosti árlega.

E. FÓSTUR

15. Þjálfun og fræðsla fósturforeldra.
    Þjálfun og fræðsla fósturforeldra verði efld með námskeiðshaldi.
     Markmið: Að auka hæfni og þekkingu fósturforeldra.
     Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Félag fósturforeldra og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Haldin verði námskeið tvisvar á ári fyrir verðandi fósturforeldra. Þá verði haldin styttri námskeið að minnsta kosti árlega fyrir einstaklinga sem taka börn ættingja í fóstur. Undirbúningi framhaldsnámskeiða fyrir fósturforeldra verði lokið fyrir 1. júní 2018. Boðið verði upp á almenn framhaldsnámskeið fyrir fósturforeldra og framhaldsnámskeið um sértæka erfiðleika. Einnig verði haldin námskeið að minnsta kosti tvisvar á ári fyrir einstaklinga sem vilja gerast vistforeldrar fylgdarlausra barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.

16. Fjölgun fósturforeldra.
    Vaxandi eftirspurn barnaverndarnefnda eftir fósturheimilum fyrir börn verði mætt með fjölgun fósturforeldra.
     Markmið: Að mæta þörf fyrir fósturheimili.
     Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Á árinu 2018 verði hægt að mæta heildareftirspurn eftir fósturfjölskyldum á öllum landsvæðum.

17. Innleiðing gagnreyndra aðferða í fósturmálum.
    Metinn verði fýsileiki þess að innleiða svokallað meðferðarfóstur fyrir börn sem glíma við alvarlegan hegðunar- og tilfinningavanda. Einnig verði kannað hvort innleiða eigi aðrar almennari en jafnframt gagnreyndar aðferðir sem miða að því að styðja börn á fósturheimilum sem og fósturforeldra og kynforeldra og bæta aðlögun fósturbarna að heimilum foreldra í lok fósturs.
     Markmið: Að auka framboð umönnunar- og meðferðarúrræða utan stofnana sem byggjast á gagnreyndum aðferðum.
     Kostnaðaráætlun: Rúmast innan ramma fjárheimilda Barnaverndarstofu.
     Ábyrgð: Barnaverndarstofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarnefndir og velferðarráðuneytið.
     Mælikvarði: Fyrir liggi niðurstaða eigi síðar en 1. júní 2018 um fýsileika þess að innleiða meðferðarfóstur í barnavernd og aðrar almennar en gagnreyndar aðferðir sem miða að því að styðja börn á fósturheimilum sem og kynforeldra þeirra og fósturforeldra.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.