Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Nr. 17/146.

Þingskjal 1001  —  372. mál.


Þingsályktun

um lyfjastefnu til ársins 2022.


    Alþingi ályktar að stefna í lyfjamálum á Íslandi fram til ársins 2022 skuli byggjast á eftirfarandi stefnumörkun þar sem meginmarkmiðin verði tryggt aðgengi að lyfjum, gæði, virkni og öryggi lyfja og skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja.
    Til þess að ná þessum meginmarkmiðum verði áhersla lögð á eftirfarandi þætti:

1. Aukið aðgengi að nauðsynlegum lyfjum.
     a.      Aðgengi að nauðsynlegum lyfjum verði eins greitt og kostur er, þó þannig að öryggis sé gætt og framkvæmdin sé í samræmi við reglur EES.
     b.      Kostnaði notenda verði jafnan stillt í hóf þannig að dregið verði úr hættu á því að einhverjir þurfi að neita sér um nauðsynleg lyf af fjárhagsástæðum.
     c.      Lyfjafyrirtæki búi við sambærileg skilyrði og fyrirtæki í öðrum EES-ríkjum.
     d.      Unnið verði áfram að því að tryggja að lyf séu ávallt til í landinu.
     e.      Skerpt verði á ákvæðum laga og reglugerða um útvegun og birgðaskyldu lyfja.
     f.      Unnið verði að opnun markaðarins og meiri samkeppni í samstarfi við Norðurlandaþjóðir.
     g.      Unnið verði áfram með hagsmunaaðilum að því markmiði að halda verðlagi lyfja innan hóflegra marka og í samræmi við nágrannalöndin.
     h.      Kostnaðarvitund heilbrigðisstarfsfólks og almennings verði efld, m.a. með því að tryggja aðgengilegar upplýsingar um verð lyfja og ódýrustu lyfin í hverjum lyfjaflokki.
     i.      Unnið verði að bættu aðgengi að lyfjum á landsbyggðinni, sérstaklega á smæstu stöðunum þar sem þjónusta er takmörkuð, og kannað hvort mögulegt sé að heimila sölu tiltekinna lausasölulyfja með öðrum hætti en hinum hefðbundna.
     j.      Stefnt verði að því að sérmenntaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái takmarkaðan rétt til að ávísa ákveðnum lyfjum.
     k.      Samningar um rekstur hjúkrunarheimila tryggi íbúum þeirra aðgengi að nauðsynlegum lyfjum um leið og lögð verði áhersla á gæða- og kostnaðarstýringu.
     l.      Útboð lyfja verði styrkt og bætt og leitað eftir samstarfi um sameiginleg útboð eða samninga um afsláttarverð með öðrum Norðurlandaþjóðum.
     m.      Stefnt verði að því að fylgiseðlar með lyfjum verði rafrænir.

2. Öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu.
     a.      Embætti landlæknis fylgist með því að heilbrigðisstofnanir innleiði lyfjagæðavísa til að meta gæði og öryggi lyfjanotkunar.
     b.      Embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Sjúkratryggingar Íslands vinni saman að bættri rafrænni umsýslu lyfja, m.a. með samvinnu um nýjan klínískan lyfjaþekkingargrunn og miðlægt lyfjakort í þeim tilgangi að tryggja rétta lyfjaskömmtun og draga úr líkum á óviðeigandi lyfjameðferð. Einnig verði kannaðar hagkvæmustu og öruggustu leiðir varðandi hýsingu gagnagrunna og annarra þátta í rafrænni umsýslu lyfjamála.
     c.      Eftirlitsaðilum og þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem koma að meðferð sjúklinga, og á þurfa að halda starfs síns vegna, verði veitt aðgengi að persónugreinanlegum upplýsingum á lyfjaávísunum.
     d.      Kannað verði hvort hægt sé að auka hagkvæmni lyfjanotkunar og bæta meðferðarheldni og faglega þjónustu lyfjafræðinga og lyfjatækna í samráði við heilsugæslu og lyfjaverslanir. Stuðlað verði að því að aðstaða til að veita faglegar upplýsingar til sjúklinga og að stunda lyfjafræðilega umsjá sé fyrir hendi og aðgerðir til að bæta meðferðarheldni og sporna við fjöllyfjanotkun verði samræmdar. Í lyfjafræðilegri umsjá felst samráð við sjúklinga og aðrar heilbrigðisstéttir um lyfjameðferð, forvarnir eins og hreyfiseðla og önnur úrræði en lyfjameðferð þegar þau geta átt við.
     e.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fölsuð lyf (2011/62/ESB) verði innleidd og sáttmáli Evrópuráðsins gegn lyfjaglæpum (e. MEDICRIME Convention) lögleiddur.
     f.      Stefnt verði að því að öll notkun dýralyfja verði skráð í rafrænan gagnagrunn auk þess sem stefnt verði að því að bregðast við auknu lyfjaónæmi.
     g.      Tryggðar verði nauðsynlegar varúðarupplýsingar með forskriftarlyfjum lækna og stöðluðum forskriftarlyfjum.

3. Skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja.
     a.      Tölfræði lyfjamála verði samræmd þannig að embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Sjúkratryggingar Íslands nýti gagnagrunna sína til að veita almenningi og fagfólki hlutlausar, faglegar upplýsingar. Þessar stofnanir myndi með sér skilvirkt samstarf um upplýsingamál þannig að upplýsingar megi finna á einum stað.
     b.      Áhersla verði lögð á úrræði sem dregið geta úr mis- og ofnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn, einkum metýlfenídatlyfja, með það að markmiði að koma notkun niður á sambærilegt stig og annars staðar á Norðurlöndunum.
     c.      Dregið verði markvisst úr óskynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum.
     d.      Ferli ákvarðanatöku um notkun leyfisskyldra lyfja verði styrkt og unnið að bættu fyrirkomulagi á umsjón og eftirliti með afgreiðslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja og tryggt verði betur að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð með líkum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, einkum í Danmörku og Noregi.
     e.      Mörkuð verði stefna um notkun líftæknihliðstæðna.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.