Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1076  —  492. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um orkunýtingarstefnu.     1.      Í hverju felst opinber skammtíma- og langtímastefna varðandi:
                  a.      nýtingu jarðvarma,
                  b.      rannsóknir á jarðvarmaauðlindum á háhita- og lághitasvæðum,
                  c.      rannsóknir og þróun á vinnslutækni jarðhitanýtingar,
                  d.      skipulag náms í þeim greinum tækniskóla og háskóla sem tengjast jarðhitaauðlindinni?

    Á vegum ráðuneytisins er hafin vinna við undirbúning að gerð heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Í þeirri stefnu verður m.a. fjallað um langtímastefnu varðandi nýtingu jarðvarma, vatnsafls og vindorku, um rannsóknir á orkuauðlindum og nýtingu þeirra og menntun á því sviði.

     2.      Hvernig er unnt að tryggja skýra stefnumótun í fjölnýtingu jarðhitaauðlinda, sbr. auðlindastefnu HS Orku?
    Í vinnu við mótun orkustefnu fyrir Ísland verður m.a. fjallað um leiðir til að stuðla að fjölnýtingu jarðhitaauðlinda. Fjölmörg tækifæri liggja í fjölnýtingu jarðhitaauðlinda og hefur þegar náðst ákveðinn árangur á því sviði. Má þar t.d. benda á auðlindagarðinn á Reykjanesi þar sem markmiðið er að nýta á sjálfbæran hátt alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fulls og á sem ábyrgastan hátt, samfélagi og umhverfi til heilla; þ.e. samfélag án sóunar. Fjölnýting er mikilvægur hluti af virðiskeðju orkumála og er m.a. komið inn á mikilvægi fjölnýtingar jarðhitaauðlinda í umfjöllun um orkumál í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022.

     3.      Hvernig er unnt að viðhalda og efla sérstöðu Íslands í nýtingu jarðhita og tryggja samtímis útflutning íslenskrar jarðvarmaþekkingar?
    Ísland nýtur í dag sérstöðu á alþjóðavísu í nýtingu jarðhita og er íslenskt hugvit og þekking á því sviði mikilvæg útflutningsafurð. Í heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland verður komið inn á mikilvægi þess að viðhalda og efla þá sérstöðu Íslands.
    Í umfjöllun um orkumál í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018– 2022 kemur fram að orkumál séu þekkingariðnaður sem byggist á viðamiklum rannsóknum á orkuauðlindum, vinnslutækni og afurðaþróun sem markaðssettar hafa verið með góðum árangri á alþjóðamarkaði. Mikilvægt sé að Ísland verði áfram vettvangur fyrir öflun alþjóðlegrar þekkingar á jarðhitanýtingu og miðlun hennar í formi menntunar, ráðgjafar, þróunar og verndunar hugverka. Tvær af þeim aðgerðum sem settar eru fram í fjármálaáætluninni snúa þannig að því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um jarðhitanýtingu og miðla þekkingu um mikilvægi hugverkaverndar í orkumálum.

     4.      Hvað líður gerð heildstæðrar og lögfestrar stefnu Íslands í orkumálum nú þegar rúm sex ár eru frá því að skýrsla um hana var lögð fyrir Alþingi í mars 2011?
    Í framhaldi af gerð þeirrar skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi í mars 2011 voru unnin drög að orkustefnu í ráðuneytinu. Vinna er nú hafin að nýju við gerð heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland og er gert ráð fyrir að stefnan verði lögð fyrir Alþingi á síðari hluta árs 2018 eða fyrri hluta árs 2019. Í þeirri vinnu verður m.a. byggt á framangreindri skýrslu og þeirri vinnu sem unnin var í kjölfar hennar.