Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1084  —  315. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um stóriðju.


     1.      Hvaða starfsemi fellur undir skilgreininguna ,,mengandi stóriðja“ sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Hugtakið „stóriðja“ er ekki að finna í íslenskum lögum eða reglugerðum. Helstu viðmið í lögum er að finna í raforkulögum, nr. 65/2003, þar sem hugtakið „stórnotandi“ raforku er skilgreint sem sá aðili sem notar meira en 10 MW af raforku. Sjö fyrirtæki falla undir þá skilgreiningu í dag: álverið í Straumsvík, álver Norðuráls á Grundartanga, álver Reyðaráls á Reyðarfirði, járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga, álþynnuverksmiðja Becromal á Akureyri, kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík og gagnaver Verne á Ásbrú. Samtals eru framangreind fyrirtæki kaupendur u.þ.b. 80% af framleiddri raforku í landinu. Af nýjum verkefnum sem gerðir hafa verið fjárfestingarsamningar um og eru ekki hafin eða eru í byggingu teljast verkefni PCC á Bakka, Thorsil í Helguvík og Silicor á Grundartanga einnig til „stórnotanda“ raforku.
    Varðandi hugtakið „mengandi“ þá er vert að benda á að fræðilega séð er almennt ekki litið á koldíoxíð eða koltvísýring sem mengunarefni. Hafa ber í huga að öll atvinnustarfsemi hefur með einum eða öðrum hætti umhverfisáhrif og er að einhverju leyti mengandi. Áhrifin eru þó mismikil og ekki beintengd við raforkunotkun. Má þannig benda á stór gagnaver sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi og fyrirhugað hreinkísilver Silicor sem hefur ekki þurft að fara í mat á umhverfisáhrifum vegna takmarkaðra umhverfisáhrifa og lítillar losunar koltvísýrings.
    Þau fyrirtæki sem líkleg eru til að teljast til „mengandi stóriðju“ þurfa ávallt að standast allar kröfur íslenskra laga um hollustuhætti, mengunarvarnir og umhverfismál. Ekki er t.d. að finna nein frávik frá slíkum kröfum í þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið vegna nýfjárfestingarverkefna.

     2.      Telst sú starfsemi sem losar koltvísýring en hefur fengið úthlutað losunarheimildum vera mengandi?
    Úthlutun losunarheimilda er á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og byggjast neðangreind svör á upplýsingum þaðan.
    Fræðilega séð telst koldíoxíð eða koltvísýringur ekki vera mengunarefni sem slíkt. Mikil aukning í styrk koldíoxíðs veldur hins vegar hlýnun lofthjúpsins og breytingum á loftslagi, auk súrnunar hafsins, sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríki og lífsskilyrði manna og því hafa þjóðir heims bundist samtökum um að takmarka losun koldíoxíðs og annara gróðurhúsalofttegunda. Öllum stóriðjufyrirtækjum á Íslandi er skylt að afla sér losunarheimilda samkvæmt lögum. Úthlutun losunarheimilda hefur ekki áhrif á skilgreiningar fyrir starfsemi hvað varðar mengun.

     3.      Hvaða starfsemi fellur undir skilgreininguna stóriðja?
    Samkvæmt framangreindu er hugtakið „stóriðja“ ekki að finna í lögum eða reglugerðum. Ef með hugtakinu „stóriðja“ er verið að vísa til stórnotenda raforku, þ.e. þeirra aðila sem nota meira en 10 MW af raforku, getur starfsemin verið af ýmsu tagi. Hugtakið vísar þannig fremur til orkuþarfar en starfseminnar sjálfrar. Í dag falla sjö fyrirtæki undir skilgreiningu „stórnotenda raforku“ og eru þau talin upp í svari við 1. lið.

     4.      Við hvaða fyrirtæki hafa verið gerðir fjárfestingarsamningar eftir að lög um ívilnanir til nýfjárfestinga, nr. 99/2010, tóku gildi?
    Eftirfarandi fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir eftir að lög nr. 99/2010 tóku gildi. Taka ber fram að þau lög féllu úr gildi með setningu laga nr. 41/2015, um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi:
          Hinn 20. febrúar 2015 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Matorku ehf. um rekstur fiskeldisstöðvar í Grindavík.
          Hinn 30. maí 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík.
          Hinn 26. september 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Silicor Materials hf. um hreinkísilverksmiðju á Grundartanga.
          Hinn 9. apríl 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og United Silicon hf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík.
          Hinn 28. Janúar 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Algalíf Iceland ehf. um rekstur smáþörungaframleiðslu á Ásbrú í Reykjanesbæ.
          Hinn 27. september 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og PCC SE og PCC BakkiSilicon hf. um kísilmálmverksmiðju á Bakka.
          Hinn 28. janúar 2013 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Marmeti ehf. um uppsetningu og rekstur fiskvinnslu í Sandgerði.
          Hinn 7. maí 2012 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og GMR Endurvinnslunnar ehf. um stálendurvinnslustöð á Grundartanga.
          Hinn 27. september 2011 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Verne Real Estate II ehf. og Verne Holdings Ltd. um gagnaver í Reykjanesbæ.
          Hinn 17. febrúar 2011 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Íslenska kísilfélagsins ehf., Tomahawk Development á Íslandi ehf. og GSM Enterprises LLC um kísilmálmverksmiðju í Helguvík.
          Hinn 30. desember 2010 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og BECROMAL Iceland ehf., BECROMAL Properties ehf., Strokks Energy ehf. og BECROMAL S.p.A. um álþynnuverksmiðju við Krossanes.
          Hinn 30. desember 2010 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Thorsil ehf., Timminco Limited og Strokks Energy ehf. um kísilmálmverksmiðju í Þorlákshöfn.

     5.      Hver fyrirtækja, sem gerðir hafa verið slíkir fjárfestingarsamningar við, stunda starfsemi sem fellur undir skilgreininguna á mengandi stóriðju?
    Af framangreindum aðilum, úr 4. lið, eru eftirfarandi fyrirtæki í rekstri í dag:
          Álþynnuverksmiðja Becromal við Krossanes.
          Gagnaver Verne í Reykjanesbæ.
          Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík.
          Algalíf Iceland ehf., rekstur smáþörungaframleiðslu á Ásbrú í Reykjanesbæ.
    Þar sem ekki liggur fyrir skilgreining á hugtakinu „mengandi stóriðja“ er ekki unnt að svara því hver þessara fyrirtækja mundu falla undir slíka skilgreiningu. Ólíklegt verður þannig t.d. að telja að gagnaver Verne eða smáþörungaframleiðsla Algalíf mundu teljast til „mengandi stóriðju“ samkvæmt hefðbundinni orðskýringu.

     6.      Er fiskeldi í opnum sjókvíum talið til mengandi stóriðju?
    Miðað við þann mælikvarða sem fjallað er um hér að framan telst fiskeldi í opnum sjókvíum ekki til mengandi stóriðju. Hins vegar hefur öll atvinnustarfsemi með einum eða öðrum hætti umhverfisáhrif og er að einhverju leyti mengandi, og á það einnig við um fiskeldi í opnum sjókvíum.

     7.      Hvaða fyrirmæli hefur ráðherra gefið nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga vegna stefnubreytingar stjórnvalda?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju“. Í kjölfar þeirrar stefnumótunar er innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í gangi vinna þar sem lagt er mat á hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera á því regluverki sem nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga starfar eftir, sbr. lög nr. 41/2015, um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Tryggt verður að umrædd nefnd starfi í samræmi við þá stefnumörkun sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.