Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1126  —  338. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni og Bjarna Jónssyni um laxeldi í sjókvíum.


     1.      Telur ráðherra ástæðu til að grípa til sérstakra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir hættu sem stafar af erfðablöndun vegna laxeldis í sjókvíum?
    Í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, er að finna skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfa vegna fiskeldis sem miða m.a. að því að varna því að eldisfiskur sleppi úr kvíum og að gripið sé til ráðstafana ef slíkt á sér stað. Umrædd lög og útgáfa rekstrarleyfa vegna fiskeldis er á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis en á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis eru hins vegar mengunarmál og þar með útgáfa starfsleyfa til fiskeldis á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Umsækjendur um rekstrarleyfi þurfa í fyrsta lagi samkvæmt lögum um fiskeldi að uppfylla kröfur ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó (NS9415:2009) eins og nánar er tilgreint í reglugerð um fiskeldi. Áður en rekstrarleyfi er veitt getur Matvælastofnun aflað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt geta af leyfisskyldri starfsemi. Í rekstrarleyfi er kveðið á um skyldu til varúðarráðstafana til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski, og áætlunar um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur. Leyfishöfum er einnig skylt að nota erfðavísa til að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Samkvæmt fiskeldislögum ber rekstrarleyfishafa sem missir fisk úr fiskeldisstöð að tilkynna án tafar slíkan atburð til Fiskistofu og grípa til allra þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru og í hans valdi standa til þess að varna því að slíkur atburður valdi vistfræðilegu tjóni. Í lögunum er auk þess gert ráð fyrir að ráðherra sjávarútvegsmála setji í reglugerð ákvæði um utanáliggjandi merkingu á eldislaxi o.fl. Hlutverk Matvælastofnunar sem leyfisveitanda er að meta hvaða varúðarráðstafanir rétt sé að gera kröfu um í rekstrarleyfi til að koma í veg fyrir slysasleppingar/strok og gera kröfu um áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur.
    Ljóst er að þörf er á frekari rannsóknum sem lúta að þessu álitaefni. Því setti Hafrannsóknastofnun af stað rannsóknarverkefni um áhrif fiskeldis og áhættu erfðablöndunar á villta stofna. Sett er fram aðferðafræði sem gengur út á að meta hve viðamikið sjókvíaeldi á frjóum laxi af eldisstofni í hverjum landshluta má vera án þess að erfðabreytileiki villtra stofna beri skaða af. Til þessa þarf að nýta bestu fáanlegu gögn um hlutfall sleppinga, áhrif hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar til að meta áhættuna. Unnið hefur verið reiknilíkan sem notað er til að setja inn fyrirliggjandi tölur yfir ýmsar breytur og út úr því koma líkur á erfðablöndun miðað við gefnar forsendur. Í framhaldinu er hægt að meta áhættuna hverju sinni. Fyrsta áhættumatið sem er vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum var gefið út 14. júlí. Vöktunaráætlun fylgir þessu eftir og sýnir niðurstöður úr vöktuninni. Hafrannsóknastofnun og sérfræðingar í þessum málaflokki meta í framhaldinu hvað þarf að vakta og setur Hafrannsóknastofnun fram rökstuddar tillögur um árlega vöktun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem tekur að lokum ákvörðun í málinu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, skipulagsyfirvöld og stjórnsýslustofnanir nýta líkanið við ákvarðanatöku og stefnumótun. Niðurstöður verða gerðar öllum aðgengilegar og ekki er gert ráð fyrir að um grundvöll einkaleyfis sé að ræða. Ráðherra telur áhættumatið, sem og þá aðferðafræði sem það byggist á, vera mjög mikilvægt til að draga úr áhættu af erfðablöndun.

     2.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem þegar er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr laxeldisstöðvum?
    Ráðherra telur nauðsynlegt að skoðað verði hvort gera eigi strangari kröfur umfram þær sem þegar er beitt eins og kemur fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Tryggja þarf að rekstraraðilar vakti kvíar vel, tilkynni strax þegar fiskur sleppur úr kvíum og bregðist við með mótvægisaðgerðum án tafar þegar fiskur sleppur. Þá er mikilvægt að viðeigandi viðurlögum sé beitt þegar rekstraraðilar sinna ekki þeim skyldum sem lög mæla fyrir um. Um viðurlög fer samkvæmt lögum um fiskeldi og geta viðurlög m.a. falist í afturköllun rekstrarleyfis, dagsektum, úrbótum á kostnað rekstraraðila og ef sakir eru miklar sektum eða fangelsi. Eftirlit og viðbrögð við frávikum vegna slysasleppinga eru hins vegar hvorki á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis né Umhverfisstofnunar heldur á borði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Matvælastofnunar, eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, og Fiskistofu. Því er ekki á forræði ráðherra að grípa til frekari ráðstafana vegna hættu á sleppingum á eldisfiski. Hinn 30. nóvember 2016 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um stefnumörkun í fiskeldi. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti tekur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra afstöðu til þessa þegar tillaga starfshópsins liggur fyrir um miðjan ágúst 2017.

     3.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt til að koma í veg fyrir umhverfistjón vegna óþrifnaðar og mengunar sem fylgir laxeldi í sjókvíum?
    Já, það er mat ráðherra að það sé þörf á að uppfæra þau viðmið sem unnið er eftir. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir fiskeldi í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Hvað varðar mengun frá næringarefnum vegna fiskeldis þá eru í starfsleyfi sett inn ákvæði um kynslóðaskipt eldi þar sem svæði eru hvíld á milli árganga, en það fyrirkomulag minnkar líkur á óæskilegri uppsöfnun lífræns úrgangs undir kvíasvæðum. Mörk eru sett í starfsleyfi fyrir losun lífræns úrgangs. Enn fremur skal rekstraraðili leggja fram mæli- og vöktunaráætlanir áður en starfsemi er hafin sem Umhverfisstofnun fer yfir og samþykkir. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggist á staðlinum ÍST ISO 12878:2012. Ráðuneytið hafði forgöngu um það á síðasta ári að þessi staðall yrði gerður að íslenskum staðli.
    Eins og fram kemur m.a. í skýrslu nefndar frá 2014 um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi þá hefur vinna við innleiðingu laga um stjórn vatnamála legið niðri í nokkur misseri vegna skorts á fjármagni. Starf vegna stjórnar vatnamála er hins vegar nú aftur komið af stað og vinnur Umhverfisstofnun að þessum málum.
    Skýra þarf viðmið um hversu mikið lífrænt álag svæðin undir sjókvíum þola og hvenær á að bregðast við of miklu álagi sem skapast undir kvíum. Vinna við innleiðingu laga um stjórn vatnamála mun fela í sér samstarf sérfræðistofnana við að meta álag vatnshlota, setja umhverfismarkmið, m.a. skilgreina hvað er gott ástand, líffræðilega og efnafræðilega, og viðmið hvað varðar ástand vatnshlota. Þessi viðmið ásamt þeim markmiðum sem setja þarf leiða til þess að hægt verður að setja skýrari kröfur á starfsleyfishafa um það ástand sem viðhalda þarf á sjókvíaeldissvæðum, auk þess sem eftirlitsaðili hefur skýr viðmið um það hvenær þarf að grípa inn í til að ástand vatns versni ekki. Þessi viðmið um heimilað lífrænt álag eru ekki til í dag.
    Við útgáfu starfsleyfa Umhverfisstofnunar er burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar haft til viðmiðunar, en slíkt mat þarf að liggja fyrir þegar sótt er um rekstrarleyfi vegna fiskeldis til Matvælastofnunar. Burðarþol er skilgreint þannig í lögunum: „Mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.“
    Samhliða miklum vexti greinarinnar er mikil þörf á því að vinna leiðbeiningar varðandi gerð vöktunaráætlana. Í starfi vegna stjórnar vatnamála er unnið að atriðum sem gera það kleift að vinna umræddar leiðbeiningar.

     4.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að hindra að sjúkdómar og sníkjudýr í eldislaxi smitist í villtan lax og ógni líffræðilegum fjölbreytileika?
    Forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum er eitt af þeim atriðum sem heyra undir eftirlit Matvælastofnunar við útgáfu rekstrarleyfis samkvæmt lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, og kannar stofnunin hvort umsækjandi um leyfi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í því sambandi, auk þess sem stofnunin leggur mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfseminni. Matvælastofnun ber að hafna umsókn ef mat á sjúkdómstengdum og vistfræðilegum þáttum bendir til að fiskeldi feli í sér umtalsverða hættu á útbreiðslu sjúkdóma eða umtalsverð óæskileg áhrif á vistkerfi.
    Við útgáfu rekstrarleyfa ber Matvælastofnun að taka mið af þeim meginreglum og sjónarmiðum sem fram koma í 8.–11. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, sbr. 7. gr. laganna. Þar á meðal ber að taka mið af 8. gr. laganna sem kveður á um að ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna skuli eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðfræði landsins. Þá skal og tekið mið af því hver áhrif ákvörðunarinnar muni verða á þessa þætti. Krafan um þekkingu skal vera í samræmi við eðli ákvörðunar og væntanleg áhrif hennar á náttúruna. 9. gr., sem fjallar um varúðarregluna, er einnig mikilvæg í þessu sambandi, en þar segir að þegar tekin er ákvörðun á grundvelli laganna, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.
    Varnir gegn dýrasjúkdómum eru á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tekur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nánari afstöðu til þessa þegar tillaga starfshóps sem vinnur að stefnumótun í fiskeldi liggur fyrir.

     5.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana og þá hverra til að sporna við lyfjanotkun í laxeldi í sjókvíum?
    Lyfjanotkun í laxeldi í sjókvíum heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og samkvæmt upplýsingum frá því ráðuneyti hyggst sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra taka afstöðu til þessa þegar tillaga starfshóps, sem skipaður var 30. nóvember 2016 og vinnur að stefnumótun í fiskeldi, liggur fyrir.

     6.      Mun ráðherra stöðva frekari vöxt eldis á frjóum laxi í sjó, eða jafnvel eldi framandi laxastofna að öllu leyti, á forsendum náttúruverndar og með tilliti til þeirrar hættu sem af eldinu stafar fyrir lífríki í sjó og vötnum?
    Eins og fram kemur í svörum við fyrri liðum fyrirspurnar þessarar er fiskeldi á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mengunarvarnir eru hins vegar á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi vegna fiskeldis á grundvelli reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. einnig lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hluti af eftirliti Matvælastofnunar eru varnir gegn dýrasjúkdómum og varnir gegn sleppingum eins og nánar er rakið hér að framan.
    Samkvæmt 6. gr. laga um fiskeldi er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldisstarfsemi. Við ákvörðun ráðherra skal taka mið af því að markmið laganna er m.a. að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Skal í því sambandi m.a. litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár.
    Eins og áður sagði er það annars vegar Matvælastofnun sem gefur út rekstrarleyfi og hins vegar Umhverfisstofnun sem veitir starfsleyfi vegna fiskeldis. Ef sýnt þykir að sú stefnumörkun sem nú er unnið að vegna fiskeldis hafi ekki tilætluð áhrif með tilliti til náttúruverndar, þ.m.t. líffræðilegs fjölbreytileika, kemur vel til greina af hálfu ráðherra að skoða hvort stöðva þurfi frekari vöxt eldis á frjóum laxi á forsendum þess að vernda náttúrulega stofna og lífríki.